miðvikudagur

Ham á morgun!!! og klipping... minnihluta gleði. og leikur á föstudaginn og útborgun og fyllerí með guðbirni dan og ég veit ekki hvað og hvað. svo er í bígerð að kaupa 3 miða á nick cave... ég, örninn og öspin, geggjað nærsýn í stúkunum af því að við eigum ekki pening til að kaupa miða í sal... maður þarf hvort eð er ekkert að bera hann augum, nóg er að hlýða á.

þriðjudagur


bústnar stelpur eru dásamlegar, ég er óskaplega hrifin af bústnum stúlkum. þær geisla alltaf og flissa svo mikið...

ég og örninn minn... og ég lít náttúrulega alltaf út eins og ég þjáist af yfirgengilegri gyllinæð eða hægðartregðu.

mánudagur


klipping á fimmtudaginn... alltaf doldið stressandi að fara í klippingu af því að reynsla mín af svoleiðis er í mesta lagi handfylli af góðum upplifunum og ég "meika" ekki að gera það sjálf eins og ég geri stundum... þá er alltaf hættan á að klippa sjálfan sig óvart eins og trukkalessu. en við skulum vona það besta, eða allavega ég. og svo HAM um kveldið og ég ætla að vera full og garga úr mér lungun... ágætis útrás örugglega.

sunnudagur

laugardagur

ég verð bara að deila einu skemmtilegu með ykkur, þetta er of gott til að þegja yfir... við brugðum okkur aðeins útfyrir áðan til að leigja einhverja ræmu... weatherman varð fyrir valinu. og á meðan örninn minn var að greiða fyrir "the goodies" lét ég einn hundraðkall í spilakassa. ég er ekki spilafíkill og læt aldrei meira en hundraðkall í spilakassa hverju sinni og þá bara í þessari tilteknu sjoppu, stundum vinn ég smá og stundum ekki neitt en það er nú bara í anda sportsins en eitthvað hafa örlagadísirnar verið sveimandi yfir mér á réttum tíma því ég vann hvorki meira né minna en 6.670 kr. í spilakassanum... fyrir einn hundraðkall! ég veit ekki alveg hvað gerðist en skyndilega átti ég fimm fría leiki og útfrá því fór kassinn í einhvern trans og ég veit ekki hvað og hvað og nú erum við nokkrum góðum þúsund köllum ríkari... og þetta hefði ekki getað gerst á betri tíma.
nýjasta uppáhalds lagið er turn into með yeah yeah yeahs... dásamlegt lag og ég ætla mér að eignast diskinn með því, það er of góð plata til að maður steli henni af veraldarvefnum.

alla virka daga þegar vekjaraklukkan hringir og mig langar til að taka úr mér augun með skeið af því að ég er svo sybbin hugga ég mig með því að hugsa til helgarinnar og svefnsins sem ég ætla sko svo sannarlega að taka út. og nú er laugardagur og ég vaknaði kl. 8, hálftíma seinna en ég vakna þegar ég á að mæta í vinnuna. þetta er ótrúlegt, það gleymdist að láta í mig íslenska svefn-genið í framleiðslunni... ég er með hálsbólgu og eina vaknaða manneskjan í þingholtunum.

fimmtudagur

hér er t.d. ein ansi góð ástæða fyrir því að það er meira hressandi að vera karlmaður en kona: ef ég væri karlmaður og ynni á vinnustað þar sem karlmenn væru í meirihluta væri að öllum líkindum búið að leigja skjávarpa eða kaupa flatskjá og áskrift að sýn svo að starfsmenn gætu fylgst með HM... en á því fyrirbæri hef ég gífurlegan áhuga. ég nenni bara ekki að fara á bari alla daga til að horfa á þetta. eins og í vinnunni hjá erninum mínum og líka hjá ágústi, þeir fá að glápa á boltann. mér finnst þetta djöfullega ósanngjarnt. ég ætti að sækja um vinnur þar sem þeir vinna... mig langar samt ekki í kynskiptaaðgerð, uni mér mjög vel sem stelpa bara vinna þar sem karlmenn eru í meirihluta. samt ekki miðaldra... allir miðaldra menn þjást af óeðlilegum kynórum til ungra kvenna.
það er hressandi grein á bls. 38 í morgunblaðinu í dag eftir braga nokkurn jósepsson. ég verð nú að segja að ég er því miður sammála sumu af því sem hann skrifar en maður lætur það náttúrulega ekki útúr sér við nokkurn mann, hvað þá konu.
ef það er einhver sjónvarpsstöð í anda þunglyndissjúklinga þá er það NFS.
mér finnst alltaf svo spennandi að sofna með hárið blautt á kvöldin, útkomurnar geta verið svo skemmtilegar. en nú sér ekki högg á vatni af því að ég er kominn með svo mikinn lubba... ég ætla mér í klippingu eftir útborgun.

miðvikudagur


sólin kom í dag... mér gæti svosum ekki verið minna sama af því að ég vinn innandyra og notast við ljósabekki til líta ekki endalaust út eins og nár og svo er ég bara gluðs lifandi fegin að það séu sumarsólstöður í dag því það þýðir að þá fari daginn aftur að stytta. ekki svo að skilja að ég sé eitthvað "goth" og morbit mér bara leiðist þessi eilífa birta allar nætur alltaf hreint. aldrei hægt að hafa kertaljós og kósí og ekki getur maður með góðu móti hangið inni yfir vídjóglápi án þess að samviskubitið nagi mann innað beini... á maður ekki að vera úti í hakkísakk og frisbí á sumrin? eða þá í ölæði á austurvelli? en að kalhæðninni slepptri kann ég vel að meta sumrið í þeim skilningi að ég á það til að detta í ákaflegt skammdegisþunglyndi á veturnar. í svartasta myrkrinu. dyggir lesendur muna væntanlega skrif nýliðins veturs... það er því náttúrulega ekkert nema öfugsnúið en reyndar ekki við öðru að búast frá mér held ég... að mér sé meinilla við sumar og sól en uni mér best í myrkri og vetri og þjáist svo af skemmdegisþunglyndi ofan á allt saman. það hlýtur að lagast með tímanum eða aldrinum eða meiri inntöku lundarlyfta...

mér finnst annars þrusu-gaman í vinnunni þessa dagana og tíminn líður jafn hratt og maður óskar að hann líði þegar lífið er ömurlegt. ég geri helling og finnst ég vera leggja eitthvað af mörkum, allt er fjölbreytt og ég er á þönum frá 9-5. eða svona oftast... ég nenni m.a.s. sjaldnast að taka pásuna sem ég á rétt á í eftirmiðdaginn, þvílík er vinnugleðin. og gluð hjálpi mér ef við hjónin hlökkum ekki til mánaðarmótanna... þá verður sko uppskorið eins og við höfum sáð. í fyrsta skipti að fá inn tvöfaldar tekjur... doldið fullorðins. fyrir utan að við erum náttúrulega skuldum vafin eftir veturinn og það sér enginn fyrir endann á því. en hvað um það, eru hvort eð er ekki allir á svamli í þessari sömu skuldasúpu? og við verðum kannski ekkert rík en við munum þó allavega geta greitt reikningana okkar og farið í eins og eina eða tvær góðar bónus-ferðir án þess að þurfa að hringja hátt á þrítugsaldri grenjandi í mömmu sína af því að maður á ekki fyrir mjólk í teið... eina huggunin sem ég hef á þeim ögurstundum er sú að ég er einkabarn... altsvo mömmu minnar og svo má ég greiða þetta allt til baka í ömmubörnum og maður ætti nú að geta verpt út nokkrum þannig án nokkurra vandkvæða. skulum við vona... þannig að: lífið er bara nokkuð gott og ég hef ákveðið að hætta að hafa áhyggjur af hlutunum sem ég hafði áhyggjur af í gær. þær eru ekki tilfinninga minna virði.

og við erum að fara á HAM 29. júní!!!

þriðjudagur


heim úr sveitinni góðu. ég vildi að ég ætti heima þar...
jæja... fórum norður um helgina seinustu af því að asparyndið var að útskrifast sem stúdent. ekki eitthvað sem við, mágkona hennar og bróðir getum státað af að hafa gert og getað og ekkert að því svosum en ég dáist alltaf af fólki sem stenst þessa þraut... óteljandi eða það sem virðist vera óteljandi stærðfræðiáfangar og alskyns önnur leiðindi sem mér eru lífsins ómöguleg að skilja. en ég er með BA gráðu, gleymum því ekki, alger óþarfi að draga úr eigin ágæti og getu. mér fannst reyndar mest aðdáunarvert að öspinni skyldi takast að halda sér vakandi í heilan sólarhring með djammi, útskrift, myndatöku og öllu tilheyrandi inní og vera svo arfahress í veislunni á sunnudeginum (sem ég bakaði franskar súkkulaðidúllur fyrir og fékk að launum að heyra að ég væri vænn kvenkostur. hrós eða ekki?).

ég hef litla löngun til að skrifa þessa dagana eins og þið vísast sjáið, hef um margt að hugsa og það er allt best geymt inní hausnum á mér. annars er hætta á því að ég segi eitthvað sem ég sjái eftir og kannski særi einhvern. aðgát skal höfð í nærveru sálar þó að sálirnar sýni hana sjaldnast sjálfar...

miðvikudagur

úff... ég er full. horfði á bræður mína þjóðverja sigra pólverja í HM áðan eftir fremur viðburðalausan fótboltaleik. ágætt að verða fullur yfir því.

reyndi svo að vera vinsamleg við fyrrverandi frú eldjárn eftir að blessuninni hugkvæmdist að hringja í örninn minn bæði á föstudags- og í gærkveldi... engum til neins nema armæðu. bað hana vinsamlegast um að bera virðingu fyrir sambandi mínu og arnarins sem og að ég óskaði henni aldrei neins nema góðra hluta. hún trúir mér líklega ekki eða þá að hún hatar mig af því að spottaði gimsteininn sem hún ataði auri því hún sendi mér sms til baka þess efnis að hún bæði sig vinsamlegast frá frekari sms sendingum frá mér. ekki verður á allt kosið í veröld vorri... það geta ekki allir elskað mann.

en ég elska örninn minn og hann elskar mig. meira þarf ég ekki...

fimmtudagur

maður gleymir bara alveg að skrifa... ég kem bráðum með eitthvað hress- og krassandi. lofa.

mánudagur

annar sunnudagurinn í þessari viku... ég elska svona vikur. og ekki er ég þunn í dag en ég er í staðinn með ístru af því að ég át svo mikið í gær í þynnkunni. mig langar ekki til að drekka áfengi á næstunni... held ég taki pásu uns í útskriftinni hennar aspar litlu... altsvo ef það gefst þá tækifæri til að drekka í henni, veit ekki alveg hvernig það verður. svo er ég að fara að vinna á eftir og að því loknu þríf ég svall-klístrið af gólfinu hérna heima hjá okkur. þankagangur tinnberts er ekki flóknari en þetta í dag svo ég bið ykkur bara vel að lifa.

sunnudagur


ég er svo yfirgengilega þunn að mér finnst sem ég standi við dauðans dyr... ágætt að nota seinustu mínúturnar í bloggerí. ég er búin að kasta öllu upp (afsakið óþarfa uppýsingarnar) ásamt líffærum held ég, síðan kl. 5 í morgunn og ég hef tæplega krafta til að pikka þetta inn. mikið lifandi skelfings ósköp líður mér hrikalega og heimilið er í rúst... ég límist við gólfið þegar ég geng um og lít yfir farinn veg. en ætla ég mér að gera eitthvað í því? nei! ekki í dag a.m.k., ég myndi líklega geyspa golunni í svoleiðis stússi... þetta er óbærilegt, maður getur ekki hugsað um neitt annað en bagalegt ástandið í líkamanum. en ég skemmti mér hins vegar stórvel, því er ekki að neita og ég torgaði meiru áfengi í gærkveldi en ég hef gert í allan vetur... útskýrir ýmislegt. aftur á móti tókst mér ekki að afsanna þjóðsöguna um mig... að mér sé lífsins ómögulegt að komast á barinn og ég sofna alltaf fyrir miðnætti. sú varð auðvitað raunin í gær, en hvað um það segi ég! mér fannst dásamlega gaman og það er nú fyrir öllu... úff, ég er að deyja... gluð hvað ég er fegin að það er ekki vinnudagur í dag.

ég læt hér fylgja með eina mynd úr partýinu af þeim stöllum obbu & gulla að gæða sér á pulsum/pylsum. mér finnst hann gulli hegða sér ansi dólgslega í garð pulsunnar/pylsunnar...

laugardagur

muniði eftir manninum sem ég skrifaði um hérna um daginn sem fékk bara sex mánaða fangelsi fyrir að nauðga konu og misþyrma henni? í dag les ég svo í fréttablaðinu að maður hafi fengið 18 mánaða fangelsi fyrir að stinga löggu... helvítis fasismi! yfirgengilega þroskaheft að maður láti þetta yfir sig ganga.

en það er dagur til gleði og ég ætla að vera full og glöð í dag.

föstudagur

nú er kominn föstudagur... sem er gott, ágætt að byrja fyrstu vikuna rólega. og svo er grillveisla og partý hjá okkur á morgun og öllum sem vilja okkur vel og við þekkjum er boðið. það staðfestist hér með... ösp kemur til okkar í kvöld og ég ætla bara að éta sælgæti og horfa á sjónvarpið. þangað til á morgun... nú þegar ég virðist hafa ærna ástæðu til að blogga nenni ég því barasta ekki. sú ærna ástæða er gleðin sem fylgir því þegar manni finnst maður vera að leggja eitthvað af mörkum í lífinu. það er gott að vera í vinnunni því þá hefur maður síður tíma til að agnúast útí sjálfan sig. mér líður vel.

fimmtudagur

aaahhhhhhh... vinnan er dásamleg (þetta er ekki kaldhæðni).