mánudagur


mikið djöfulli leið þessi mánudagur hratt! mikið er ég glöð... ég vaknaði nefnilega með smá kvíðahnút í maganum... mánudags-hnúturinn. en hann hvarf fljótlega uppúr 9 svo það er allt gott og blessað.

annars er skemmst frá því að segja AÐ PLATAN ER KOMIN TIL LANDSINS!!! frumraun shadow parade, dubious intentions er lent á fróni og verður væntanlega til sölu í öllum betri verslunum síðar í þessari viku. kaupið hana... i´m telling you, KAUPIÐ HANA!!! þið sjáið ekki eftir því, ég ábyrgist það! frá því að ég heyrði þessa hljóma fyrst var ég "totally smitten" upp fyrir haus. ókei... ég og örninn minn vorum reyndar alveg ný-byrjuð saman og ég var gersamlega blinduð að öllum tilfinningum á fullu "blasti" sem hægt er að finna til einnar manneskju, þið vitið... þegar maður hættir að geta borðað eða hugsað um neitt annað en BARA þessa manneskju, maður er svona eins og ástar-uppvakningur. og ég hélt m.a.s. á tímabili að ég hefði það ekki af... í heila 9 mánuði. en þetta hafðist... það hafði samt ALLS ENGIN áhrif á ánægju mína með shadow parade við fyrstu hlustun. og hingað erum við komin og mér er það mikill heiður að hafa verið samferða þeim skuggaprinsum í gegnum þessa stundum erfiðu fæðingu og m.a.s. lagt mitt af mörkum eins og þið munuð væntanlega sjá þegar þið kaupið plötuna (ég sá um alla textaskreytingu). æ hve dásamlegt þetta er...

það var eitthvað eitt í viðbót en ég er búin að gleyma því... later!

laugardagur


gleðilegan vetur!

ég drakk þrjú barmafull rauðvínsglös í gær á tóman malla og geld nú fyrir það með þynnku... skuggaprinsarnir mínir voru dásamlegir í spilamennskunni sem og endranær. það sama má ekki segja um hljóðmanninn... ég er mikið farin að velta þeim möguleika fyrir mér að nema hljóðmannsfræði og verða svo sérlegur hljóðmaður skuggaprinsanna áður en ég legg hendur á einhvern hljóðmanninn á tónleikum. það er bara alveg merkilegt hvernig það er ALDREI vandað nógu vel til verksins á tónleikum þrátt fyrir einhver "sándtjékk" fyrir alla tónleika. alltaf tekst þessum hljóðmönnum að klúðra einhverju... ég er þá að tala um styrkleika hvers og eins hljóðfæraleikara sem á náttúrulega að vera þannig að hver og einn fær að njóta sín og sýna sín sérkenni en er jafnframt í "harmoníu" við aðra í hljómsveitinni. þetta virðist vera ógerningur hjá hljóðmönnum af einhverjum ástæðum... hvaða rétt hef ég annars til að bölsótast yfir þessu? ég vil bara að best geymda leyndarmál íslenskrar tónlistarmenningar, shadow parade fái að njóta sín eins og best verður á kosið og betur þegar þeir spila á tónleikum. og þrátt fyrir allt þá grunar samt engan neitt því skuggaprinsarnir eru snillingar, hver öðrum betri á sínu sviði. sannkallaðir tónlistarsnillingar! og bráðum kemur diskurinn út, á mánu- eða þriðjudag held ég... bíðiði bara.

föstudagur

tíminn líður svo hratt að ég finn vindstrokur hans á vanganum hverja líðandi stund...

ég gekk hljómskálagarðinn heim eftir vinnu og ég varð næstum klökk yfir fegurðinni. af öllum þeim stöðum sem ég elska í reykjavíkinni minni held ég að hljómskálagarðurinn sé einn af mínum uppáhalds, sérstaklega á haustin. sérstaklega akkúrat um þetta leyti þegar veturinn er alveg að ganga í garð... fyrsti í vetri á morgun. ég held að ég og örninn minn munum binda um hnútana í hljómskálagarðinum fyrsta vetraradag þegar þar að kemur... ætli það megi ekki giftast í hljómskálagarðinum? litirnir og birtan eru bara svo fögur og ómótstæðileg, ég sé þetta allt fyrir mér...

skuggaprinsarnir mínir mínir í shadow parade spila í kveld/nótt á þjóðleikhúskjallaranum kl. 1 og þar sem ég gat ekki látið það viðgangast að bera ekki arnaryndið mitt augum keypti ég mér armband á airwaves... eða ég var eiginlega tilneydd til þess. 30 þúsund kallinn frá skattinum kom þar sterkur inn og hafði mikið um þessi úrslit að segja.

góða helgi.

fimmtudagur

það helsta...

-eitt barnið á leikskólanum fékk gubbupest í gær... bókstaflega á mig. það var hressandi og herðir mig örugglega.
-ég var að fá 30 þúsund til baka frá skattinum af því að ég var skynsöm þarna um daginn og greiddi úr mistökum mínum. það kemur sér ákaflega vel þar sem við erum einmitt að verða auralaus.
-ég er yfir mig reið og hneyksluð útí aðstandendur airwaves (ég er reyndar komin með ógeð á þeirri hátíð... hún er farin að snúast of mikið um einhvern plebbaskap að mínu mati og "selebritís") þar sem að þeir meina mér að sjá ástmann minn og lífsförunaut spila með shadow parade annað kveld. ekki nema ég kaupi mér passa á 7þúsund krónur og ég neita að láta kúga mig til slíks... en ég finn lausn á þessu, ég mun bera örninn minn augum þó það verði mitt síðasta!
-leikskólastjórinn lofaði mig í seinustu viku eftir aðeins þrjá daga í starfi. hún sagði það með eindæmum hve fljót ég væri að ná til krakkanna og hlutunum öllum yfir höfuð. það gladdi mig.
hef ekki blogg-eirð þessa dagana en ég get heldur betur lofað ykkur því að mér finnst lífið allt vera einstaklega dásamlegt og skemmtilegt undanfarið (eini "kosturinn" við þunglyndi er að maður kann virkilega að meta góðu dagana)... allavega uppá síðkastið. vonum að það haldist eitthvað... ég ætla að blogga aftur, líklega um helgina.

mánudagur


vei!!! við eigum nýjar "græjur"!!!... ef græjur skyldi kalla. maður kallar þetta eiginlega ekkert græjur lengur, þess vegna lét ég þetta innan gæsalappa. okkar "græjur" eru bara tveir hátalarar og bassabox tengt við tölvuna okkar. við fundum þetta á svo agalega "billegu" verði í BT að við skelltum okkur á eitt stykki... eða þrjú enda ómögulegt að geta ekki hlustað á tónlist í almennilegum gæðum þegar við bæði erum svoddan tónlistarunnendur. tónlist er jú áburður fyrir lífið... að mínu mati allavega. og að öllum ólöstuðum held ég bara að brotthvarf hinna græjanna hafi svo sannarlega verið fyrir bestu þegar allt kemur til alls. svona getur lífið verið ágætt... eintóm lán í óláni.

undanfarið hafa verið í gangi miklar og naðsynlegar umræður um notkun geðlyfja og bara geðlyf yfir höfuð í landi voru. sem neytandi geðlyfja hef ég að sjálfsögðu skoðun á þessu... ég er ekki á neinum lyfjum útaf röddum í hausnum á mér eða þ.h... hjálpi mér og gluði sé lof! ég er á einhverjum sem eiga að vera kvíðastillandi og gera mann eitthvað áhugasamari og glaðari gagnvart lífinu... ég get ekki séð að fram að þessu hafi þau virkað, satt best að segja finnst mér ég alveg jafn mikill gallagripur, með eða án lyfja en ég er alltaf að vona að ef ég tek þau samviskusamlega inn þá kannski, bara kannski fari ég að finna einhverja breytingu. ég tek fram að jákvæðni er ekki einn af mínum "betri" eiginleikum... og nú er sagt að regluleg viðtöl hjá geðlækni eigi að hjálpa manni og þá enn frekar en þessi fjárans lyf... AGAIN þá hef ég líka reynt það. var hjá geðlækni í 3 ár og ég nenni ekki að skrifa það sama og ég skrifaði um lyfin. en það er það sama. og þó... ég lýg. auðvitað hjálpaði það mér eitthvað að vera hjá geðlækni. það opnaði augu mín betur fyrir því sem þarf að gera við og benti mér á ástæðurnar fyrir oft á tíðum vanlíðan minni. það gerir manni merkilega gott að vita nákvæmlega ástæðurnar fyrir því að manni líður oftar illa í sálinni en öðru fólki, það auðveldar að finna lækninguna... ókei, það hjálpaði mér helling að vera hjá geðlækni í 3 ár. ég var bara komin á eitthvað annað stig eftir þann tíma sem bara einhver annar eða kannski bara ég getur hjálpað mér í gegnum. en hvað um það... ástæðurnar fyrir því að fólk er að éta töflur, einhverja geðlyfja-kokteila til að halda sér á floti og "fúnkera" í nútíma samfélagi í staðinn fyrir að eyða þeim langa tíma sem það getur tekið að lækna geðsjúkdóma í reglulegum viðtölum hjá þesslags læknum er sú að þetta sama nútíma samfélag býður enn ekki uppá það. a.m.k. ekki íslenskt. geðsjúkdómar hverslags eru enn litnir mjög miklu hornauga hér og vanþekkingin og óttinn gríðarlegur. fólk er eiginlega bara feimið, ef svo má segja við geðsjúkdóma. og hér má ekki nokkur maður missa dag úr vinnu án þess að vera álitinn aumingi og hvað þá þegar um geðsjúkdóma er að ræða eins og að "vinnan skapar manninn" sé eitthvert "manifesto" hjá þessari þjóð. og lausnirnar eru af skornum skammti og geta verið mjög tímafrekar og þess vegna kýs fólk og er hálf partinn neytt til að "lækna" sig með einhverjum djöfuls andstyggðar lyfjum. svo það þurfi ekki að takast á við að fólk forðist það ef ske kynni að því liði óvart illa þann daginn og svo það missi ekki vinnuna.

en nú er minn fyrsti vinnudagur á hagaborg að baki og ég hreinlega ljóma af gleði og ánægju... jafnvel hamingju. kvíðinn fyrir þessu fór auðvitað að gera vart við sig eins og við var að búast snemma um helgina og ágerðist svo bara og í morgun vaknaði ég með kvíðahnút, klukkutíma áður en vekjaraklukkan hringdi og hugsaði allan tímann um (og gældi við) afleiðingar þess ef ég hætti nú bara við að mæta alveg þangað til ég stóð fyrir utan leikskólann... mér tókst að labba inn... vei! þetta er allt annað en ég átti von á og mun muuun betra en ég hafði þorað að óska mér. kannski er þetta svo bara málið fyrir mig þegar öllu er á botninn hvolft... máske hef ég fundið mína réttu hillu í lífinu. ein geggjað bjartsýn eftir EINN dag... langar svo kannski bara til að hengja mig eftir vikuna. vonum ekki allavega... en í dag fannst mér þetta frábært og stýri ég nú 7manna gáskafullum stúlknahóp, hver annari krúttilegri. um leið og ég verð búin að læra inná hvað má og hvað má ekki, hvað þau heita öll og hvernig og hvenær á að vera ákveðin verður þetta frábært held ég. ég var m.a.s. segja komin með nokkra "áhangendur" í lok dags sem voru ólm í að faðma mig, sitja hjá og vera nálægt mér. það er röddin held ég... en sama hvað það er þá iljaði það mér í hjartanu og gerði mig meyra og glaða í senn. maður hlýtur að vera ágætis mannvera ef börn hafa áhuga á að sýna manni blíðuhót. og þau eru bara svo fyndin og skemmtileg og krúttileg og sæt... ég gæti setið tímunum saman og bara horft á þau dunda sér og eiga í samskiptum við hvort annað. merkilegar litlar mannverur sem einhvern tímann verða "við"... og einu sinni vorum við eins og þau. þetta þýðir þó ekki að ég hafi hug á barneignum alveg á næstunni. en þó með tíð og tíma.

þetta er handa mömmu: hvað með að breyta gamla "beisinu" í fanganýlendu? sjálfsþurfta hegninga-nýlenda... ég fékk þessa hugmynd eftir að ég sá ÓHLEKKJAÐIR á kvikmyndahátíðinni nýliðnu.

föstudagur


ég keypti mér þessa vetrarskó/gellustígvél í spútnik áðan. mér finnst ég alveg geta gefið sjálfri mér það í haustgjöf af því að ég er yndislegt lítið barn og auk þess voru þau innan þeirra eyðslumarka sem ég set mér fyrir skókaup... það eru 8-10 þúsund. þessi kostuðu 7.800 kr. mér finnst líka að maður megi alltaf gefa sér nýja skó og kápu í haustgjöf... og nú ætla ég að finna mér einhverja æðislega kápu í stíl við gellustígvélin. ég hef reyndar augastað á einni eld-rauðri í mínum uppáhalds stíl... 50´s. en þetta með skóna finnst mér alveg réttlætanlegt þar sem ég hef notað hina vetrarskóna undanfarna þrjá vetur og er m.a.s. búin að fara með þá einu sinni til skósmiðs og auk þess langaði mig að gella mig aðeins upp fyrir veturinn og keypti þess vegna þessi GELLUstígvél sem eru með smá hæl og einhverjum undarlegum skinn-bróderingum á hliðunum... læt mig þær litlu varða. maður er óneitanelga velmegunarbarn... en nú ætla ég að fara að klikk-klakkast á nýju skónum um íbúðina og máske steikja egg eða tvö.

p.s. fætur mínir eru að minnka. einu sinni notaði ég skó no. 39 en nú er ég skyndilega farin að þurfa no. 38 og m.a.s. stundum no. 37. ætli þetta sé einhver tæring í fótunum á mér eða næringarskortur?

síminn minn, nokia 7360 er til sölu fyrir áhugasama. ég er búin að eiga hann í þrjá mánuði svo hann er vel með farinn. fullt verð er 21.980 kr. en ég er að selja hann með rúmlega 35% aflsætti á 14 þúsund sléttar.
fékk bréf frá skattinum áðan í pósti og varð auðvitað smeyk... og enn smeykari þegar ég opnaði það því efst stóð " úrskurður um kæru". jeminn almáttúgur hugsaði ég... hvað nú??!?!!? en svo þegar ég tók mig taki og las áfram niður þá sé ég að þetta er bara leiðrétting á heimskulegu mistökunum sem ég gerði á skattaskýrslunni minni seinustu... hjúkket! hvað er að þeim þarna að þurfa alltaf að vera svona formlegir og drepa mann úr stressi og kvíða?!?!?! en nú er ég allavega mjög glöð með að hafa farið þarna niðureftir og gert eitthvað í þessu vandamáli því fyrst var ég uppfull af mjög miklum mótþróa og reiði og ætlaði bara að segja FOKKIT og gera ekki neitt og fara bara í fangelsi. gott mér rann reiðin... gaman þegar maður gerir fullorðins hluti og þeir aktúelt ganga upp, það er nefnilega ekki sjálfgefið hef ég komist að undanfarin árin. mér fannst viðbjóður að vera barn og únglíngur og beið leeeeengi eftir því að verða stór en nú get ég ekki alveg verið viss, hvort sé betra að vera fullorðin eða únglíngsbarn. jú... ætli það sé ekki betra að vera fullorðin, þá hefur maður allavega aðeins meira um það að segja hvort maður láti allt yfir sig ganga eða ekki.

fimmtudagur


ég fæ lagið july morning með uria heep undarlega oft á heilann.... alveg að sjálfu sér. ég er enginn sérstakur uria heep aðdáandi þó ég kunni alveg að meta þá en ég er ekkert að skella "best of uria heep" á fóninn þegar ég kem heim úr vinnunni. ég skil þetta ekki alveg og mér finnst þetta stór-merkilegt. ætli þetta sé ekki eitt af þessum "brain-fuck" kosmísku samsærum sem allir eru í gegn mér...
ég er eitthvað úfin í dag, lufsuleg með meiru. eins og ég sé kannski að verða lasin... mér er svosum sama um það á meðan ég verð orðin frísk á mánudag.

miðvikudagur

hví ég er ætíð svo uppfull af efasemdum í minn eigins garð er mér hulin ráðgáta því undantekningalaust redda ég alltaf hlutunum og sjálfri mér í leiðinni, sama hvort það tengist því að finna mér ný híbýli eða vinnur. ég er ágætis eintak af manneskju myndi ég ætla þó ég efist um það sjálf endrum og eins... ætli ég sé ekki bara með klofinn persónuleika?

ég er sumsé komin með vinnu. sótti um hana síðdegis í gær, fór í viðtal áðan, var ráðin á staðnum og byrja á mánudaginn næsta. þetta getur hún æpa heilasellurnar mínar núna! ég er að fara að myndlistast með krökkum á leikskólanum hagaborg og ég neita því ekki að ég er full tilhlökkunar, mun meiri en fyrir starfinu sem ég var svikin um... ég kveið því nú eiginlega bara. svona getur nú lífið komið skemmtilega á óvart. og launin eru m.a.s. mun betri en í eymó sem kom mér reyndar á óvart því ég hafði satt best að segja eiginlega meiri áhuga á að finna mér vinnu og var því ekki að gera mér miklar launaeftirvæntingar og að sögn eru launin á leikskólum ekki góð en þau er þó skömminni skárri og gott betur en í fyrrnefnda eymó og það finnst mér alveg yfirgengilega merkilegt. úff... ég verð bara reið yfir því núna þegar ég hugsa um það. en það sem er líka skemmtilegt við þetta er að undanfarin tvö ár hef ég einmitt verið að gæla við þá hugmynd að kenna börnum myndlist og hafði jafnvel hugsað mér að fara í kennaraháskólann til að öðlast réttindi svo mér finnst þetta dásamlegt tækifæri og ég get ekki beðið. ég held líka að svona lifandi vinnustaður, og það skortir varla líf þar sem hátt í 100 börn eru henti mínum persónuleika mun betur en eitthvurt plebbastarf í "lífsstílsbúð" í kópavoginum. og svo er öspin mín rúsínan í pylsuendanum því hún er líka að vinna á hagaborg og fátt veit ég betra en að vera í návist þeirrar stúlku... besta mágkonan OG vinnu"partner".

annars er skemmst frá því að segja að ég er farin að hallast að því að hún skaði mín eldjárn sé ekki ólétt. ég hélt það upphaflega af því að spenarnir á henni voru eitthvað að bólgna og það ku vera merki um kettlingafyllu samkvæmt kattabókinni minni en svo er hún búin að vera að breima all svakalega síðan í gærkveldi þannig að ég var orðin doldið rugluð í hausnum í sambandi við hvað væri eiginlega að gerast. svo ég hringdi í dýralæknalessuna... best að hafa allt á hreinu. og hún sagði mér að þetta hljómaði nú meira eins og hormóna-yfirdrifið breim frekar en nokkuð annað... þannig að dóttir mín er orðin kynþroska. húrra! ég er hálfvegis fegin því sem mjög samviskusamlegur kattaeigandi og móðir hefði ég líklega ekki getað sinnt neinu öðru nema þessari óléttu uns hún væri yfirstaðin ef hún hefði "aktúelt" átt sér stað. en þar með er ekki öll sagan sögð... hérna fyrir utan, í þessum skrifuðu orðum eru 4... já, FJÓRIR (þeir voru 5 í morgun) högnar og ég get ekki betur séð en að þeir búi ekki á meðal fólks, svo illa hirtir eru greyin svo þeir hljóta að vera útigangskettir. þeir eru allir á stærð við 3ja ára börn og svo þið hafið viðmiðið þá er hún skaði mín á stærð við 6 mánaða fyrirbura... og þeir bíða hérna úti úti eftir því að geta vanvirt dóttur mína sem gerir sér það að leik að sitja í glugganum og daðra við piltana uns allt ætlar um koll að keyra. ég rak m.a.s. einn ofan af henni áðan og er núna búin að loka öllum gluggum sem gerir það að verkum að hún er farin að reyna við mig... ekki mitt kynlífs-áhugasvið. eini kosturinn við hvað skaði er lítil og villi-högnarnir stórir (og ég er ekki að ýkja, þeir eru RISAvaxnir) er sá að þeir virðast eiga í þeim mun meiri vandræðum með að hitta í hunangspottinn með sleifinni sinni... er þetta nógu vel útskýrt? ég kann bara ekki við að vera ítarlegri í þessu samhengi... ég vona bara að þetta fari vel, sem og það ætti að gera held ég, ég þarf bara að umbera graðan kött í andlitinu á mér næstu daga.

lifið heil.

þriðjudagur


það rignir laufum... það er svo fallegt að ganga úti og sjá laufin fjúka af trjánum eins og kirsuberjablóm í japan... haustið er tíminn minn.

ég er víst ekki komin með vinnu enn. ég veit ekki alveg hvað gerðist eða hvort ég hafi eitthvað misskilið en þeir sem sögðust hafa litist svo vel á mig þegar ég fór í prufuna og sögðust endilega vilja sjá meira af mér og sögðust ætla að hringja eftir seinustu helgi til að ákveða betur hafa ekkert látið í sér heyra. ég reyndi svo að hringja í gær en þá eru bara allir í frí. ég sendi e-mail en hef ekkert svar fengið... ég skil ekki alveg svona en þetta er kannski eins og það á að vera, hvað veit ég. ætli það sé ekki rétt hjá strákústi bloggþóri, það breytir víst engu hvort maður sé hreinn og beinn og einlægur. ég er af alefli að reyna að láta þetta ekki draga mig niður í eitthvurt svarthol...

og svo er ég að verða amma í ofaná lagt! hún pínu-litla skaði mín eldjárn er þunguð og mér óar við tilhugsuninni um það hvernig litla skinnið mitt ætlar að kreista útúr sér öðrum líkömum. hún er 10 mánaða gömul en flestir kettir verða kynþroska í kringum 4ja mánaða en ég hafði bara aldrei tekið eftir henni að breima og slíkt fer ekki fram hjá nokkrum manni eða konu svo ég var einhvern vegin viss um að hún væri bara eitthvað smá seinþroska og var ekkert að stressa mig á að gefa henni pilluna eða láta taka hana úr sambandi. sú lék á mig... ég er viss um að sökudólgurinn sé þessi bröndótti með púnginn sem læddist hérna uppí eina nóttina. hann hefur ætlað í mig líka... eitthvurt mrs. robinson dæmi hjá kisa.

en ef einhver vill ráða mig í vinnu þá er ég til. sel þó ekki líkamann minn.