góðan dag.
afsakið þessa seinustu færslu, bara einhver miðnæturblús...
ég var að heyra nýtt orð, efagjarn. hef ekki heyrt það áður. ætli ég sé efagjörn?
útlendingarnir fundu loksins sinn stað í lífinu og hættu að halda fyrir mér vöku.
og nú er kominn sunnudagur sem ég hef örugglega tekið fram áður að mér er meinilla við. sunnudagar eru eins og kveðjustund og eins og kvikmyndapersónur þoli ég ekki kveðjustundir. kannski ætti ég að temja mér að líta á sunnudaga sem nýtt upphaf en ekki kveðjustund.
á morgun er vinna og ýmsustu tilfinningar tengdar því sveima um í þessum vandræðahaus mínum. ég hlakka til og ég kvíði fyrir. tilhlökkunin vegur samt mun þyngra því hún heldur uppi andlega hlutanum á meðan kvíðinn snýst eingöngu um efnishliðina. þ.e. að það verður erfitt að koma aftur eftir svona langt frí og demba sér óundirbúin í vinnu auk þess sem að skólatörnin er akkúrat núna að byrja og margir vilja kaupa sér nýjar skólatöskur fyrir veturinn, blýanta, strokleður og stílabækur. þá þurfum við svaní, sú sem stjórnar deildinni með mér að láta til okkar taka og ekki dugir að láta velmegunarbumbuna sem kom í sumarfríinu þvælast fyrir. tilhlökkunin felst síðan í því að ég er afskaplega hrifin af reglubundnu lífsmynstri. hef samt í seinni tíð aðeins slakað á í því. sú var tíðin að ef allt var ekki fyrirfram planlagt tipptopp fékk ég taugaáfall. nú fæ ég bara örlítið taugaáfall. svo það verður óskaplega gott að hafa tilgang þegar ég vakna á morgnana þó svo að sá tilgangur felist eingöngu í því að fara í vinnuna. og þá get ég líka einbeitt mér að öðru eins og ég hef áður sagt, en þessu ómögulega lífi sem mér finnst elta mig á röndum núna.
en hvað sem því líður þá get ég sagt ykkur það að ég vaknaði hreint ekki hress í morgun og getiði hver fyrsta hugsunin var eftir að ég hafði opnað augun? ég leyfi ykkur að geta...
ég hlakka bara til þegar ég fer að vakna brosandi og ég hlakka til vetrarins og jólanna. ég hlakka til að geta kveikt á kertum þegar ég kem heim með frostbitnar kinnar. ég hlakka til að geta búið mér til heitt kakó og kúrað undir sæng. og svo eru líka allir miklu sætari í dimmu. og ekki dæma mig en ég er farin að hugsa um það hvar ég eigi að vera á jólunum. sami þankagangur sótti á mig fyrir u.þ.b. ári síðan. að sjálfsögðu hef ég alltaf mömmu og pabba. þó það myndi aldrei koma mér á óvart að þau færu til útlanda eða eitthvað álíka yfir hátíðirnar. hugsum ekki um það núna... ég semsé gæti verið hjá þeim nema að mér finnst þau svo skrýtin og oftast þegar ég hef verið hjá þeim er ég bara farin að bíða eftir því að komast heim. ég hef eiginlega aldrei neitt sérstakt að tala um við þau ekki nema ég sé í rosa góðu skapi sem virðist vera deyjandi hlutur. síðan er hinn möguleikinn og það er að vera bara ein heima. hvers vegna er ekki búinn til svona sérstakur jóla 1944 réttur fyrir þá sem eru einir um jólin og eiga bara örbylgjuofn? eða fjölskyldur sem nenna ekki að elda... nema að ég veit af því að ég þekki mig það vel að ef ég væri ein á aðfangadagskvöld myndi ég bara standa grenjandi yfir 1944 réttinum mínum með lekandi maskari, sérstaklega af því að ég er mjög mjög mikið jólabarn. svo, af tvennu illu...
nú er ég búin með peningana mína. þetta er víst hinn eðlilegasti tími til þess. og mig vantar aur fyrir rettum. því tók ég við, núna í morgunsárið að kemba alla króka og kima hérna heima hjá húsráðendum í leit að klinki. ég vona að þau refsi mér ekki fyrir það eða hætti að leyfa mér að passa börnin sín. og viti menn! ég er komin með andvirði eins sígarettupakka. ég vildi að ég væri svona manneskja. sem léti klink hér og þar um íbúðina mína sem kæmi sér svo vel þegar mögru dagarnir berðu að dyrum. en ég er ekki þannig, allir peningarnir mínir eru í veskinu mínu svo að þegar þeir eru ekki lengur þar, oftast um 5. hvers mánaðar veit ég að ég á þá ekki til. ég stefni hins vegar að því að verða svona klinkkona, þó ekki nema fyrir börnin mín seinna meir.
gaman og indælt þegar einhver hefur áhuga á velferð manns. takk álfur, kiss kiss...
see ya!
gestabók
sunnudagur
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ég er alveg á því að þú sért snillingur inni í skáp. Þessi 1944-jólaréttarhugmynd er algjörlega að ná mér. Þetta gæti m.a.s. verið bakki á tveimur hæðum með einhverjum typical jóladesert á neðri hæðinni.
Þú ert tíu sinnum meiri hvunndagshetja en Bridget Jones og það hlýtur bara einhver bókaútgefandi að fara að gefa út "Dagbók Tinnu".
Ég ætlaði ekki að vera anónymus.... ég heiti Þórdís
(thordis.blogspot.com)
Skrifa ummæli