laugardagur

ég ætti kannski að hætta í bloggpásunni? 13 dagar liðnir... einu sinni þegar ég var "morbit" unglingur og síðar ástfangin af öðrum manni var 13 uppáhalds talan mín. það skiptir engu núna...
ástæðan fyrir þessari bloggpásu minni undanfarnar tvær vikur skal ekki útlistuð hér en ástæðan er stór og krafðist mikillar umhugsunar af minni hálfu. nú er ég búin að hugsa og hef tekið gleði mína 85% á ný. eftir u.þ.b. viku verður gleðin endurheimt að fullu og þær áhyggjur sem plaga mig lagðar á hilluna. enda er yfir engu að kvarta svosum, ekki í þessu daglega lífi þ.e. ég er ástfangin, verð ástfangnari með hverjum deginum sem líður og það verður bara að hafa það að ég skrifi það hér. mér finnst ég ekki þurfa að hlífa neinum við þeirri staðreynd, ég á það skilið að hrópa upphátt hvað ég er skotin og hamingjusöm. það er nefnilega ekki á hverjum degi sem að ég eða einhver annar finnur jafn hreina ást og ég hef fundið. fólk ætti bara að samgleðjast. en svo er aftur krafan sem að gerð er til manns að ræða ekki hamingjuna upphátt. ef að þú ert hamingjusöm, haltu því fyrir sjálfa þig, ef þú ert óhamingjusöm forðast þig allir. þetta er eilíft limbó sem að ég verð að finna milliveginn á eða ekki... en akkúrat núna er mér sama þó að allir kúgist og gubbi af vanþóknun. ég er búin að finna hann! og hann fann mig! ég bý með honum í yndislegustu íbúðinni.
ég týndi annari kisunni minni þegar ég var að flytja, henni páku. ég vona að hún hafi fundið góða eigendur frekar en að eitthvað hræðilegra hafi gerst.
fyrir tæpum tveimur vikum klippti ég stykki úr hendinni á mér. það var óvart. ég var af einhverjum heimskulegum ástæðum að reyna að opna vínflösku með glæ-nýjum skærum sem runnu til í hendinni á mér og ég heyrði "hvisssssss" þegar þau klipptu stykkið burt. ég stóð auglitis til auglitis við gapandi sár, alveg inn í kjöt á hendinni á mér. blóðið lak og lak og lak og ég lá skælandi á baðherbergisgólfinu með hendina í vaskinum og sortnaði fyrir augum af því að viðkvæm sálin þolir illa blóð. það fékk mig reyndar til að velta vöngum yfir því hvers vegna það líður ekki yfir mig í hvert skipti sem að ég er á túr. ekki eru það kræsilegar aðstæður frekar en sár á hendinni. og mér leið eins og að ég væri ein í heiminum, liggjandi á gólfinu, skælandi eins og einhver ósjálfbjarga hvítvoðungur. örninn minn var á tónleikum og ég þorði ekki að hringja, ég hef enn ekki vanist því að nú loksins hef ég einhvern sem að kemur til mín þegar ég kalla. það er reyndar yndisleg tilfinning og ég undrast í hvert skipti sem að á það reynir. en þegar mér leist ekki lengur á blikuna, blóðið lagaði úr sárinu eins og að það væri enginn morgundagur í boði fyrir mig greip ég í næst-besta kostinn og sendi konungi fuglanna sms. ég útskýrði í því skilmerkilega hvað hefði gerst án allrar dramantíkur og viti menn, hann var kominn eins og riddari í hvítum hesti eftir stutta stund. þá sat ég útgrátin í stofunni með blautt handklæði af blóði vafið um hendina og skeifu á munninum. og enginn nema örn hefði brugðist svona við, ég held bara að hann ætti að verða læknir. fullkomlega yfirvegaður og rólegur tók hann handklæðið, þreif sárið, bjó um það og kyssti skeifuna burt. allt bú! núna er ég bara með hálf-gróið sár á hendinni sem að lítur út eins og píka. ég ætla að skíra örið örn. örið örn.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

velkomin aftur!

Tinna Kirsuber sagði...

takk fyrir það.

Nafnlaus sagði...

Jei komin aftur:D Já ósköp hlýtur það að vera indælt að eiga prins á hvítum hesti;) En ég fer að koma suður bráðum held ég!! búin að kaupa dýnu? :)

Tinna Kirsuber sagði...

ansans! engin dýna enn en ég geng í málið :D það væri frábært að fá þig aftur til okkar.