föstudagur
mér finnst agalegt þegar gestur einar tekur upp á því á morgnana að spila einhverjar mixur af lögum með pat boone eða brunaliðinu. útskýring á orðinu mixur af því ég man ekki í augnablikinu hvað þessi helvísku fyrirbæri eru kölluð: mörgum lögum krumpað saman í eina heild sem varir iðulega í nokkrar mínútur. skipting á milli laga er engin og þau renna öll saman í eina bendu. alveg hrikalegt. auk þess finnst mér garðar cortes jr. mjög væminn og kraftlaus söngvari. mér varð á að bera hann augum og hlýða á í kastljósinu um daginn og ég er ekki heil eftir þá upplifun. garðar cortes sr. er þá skömminni skárri, það er a.m.k. kraftur í hans söng.
ég þurfti í gærmorgun að fara með strætó upp í mosfellsbæinn eins og aðra fimmtudaga. ég er svosum alveg að sætta mig við það enda er strætisvagnaferð til helvítis á jörðu (mosfellsbær) lítið gjald að greiða fyrir hlustun á lífsins vandamál. ég er hérna að líta framhjá þeim háu fúlgum sem ég greiði geðlækninum mínum um hver mánaðarmót fyrir að hlusta á þessi lífsins vandamál. og alveg er það merkilegt hvað það er alltaf þúsund sinnum kaldara í mosfellsbænum en í höfuðborginni og það eru bara 20 mínútur, að svo gefnu að maður ferðist með ökutæki, á milli staðanna. ég geri mér fulla grein fyrir því að það séu rökréttar eðlisfræðilegar útskýringar á þessu en mér finnst þetta samt ákaflega merkilegt.
í dag ætla ég mér að lesa leikritið kirsuberjagarðinn eftir anton chekhow svo ég geti greint það útfrá bókmenntafræðilegum hugtökum og á sunnudaginn ætla ég að greina uppáhalds ljóðið mitt (þökk sé svanhildi frænku) hin eilífa þrenning eftir tove ditlevsen útfrá hugmyndafræðum feminisma. þetta hljómar allt voða fullorðins og ég ætla að skola þessu öllu niður með RISA flöskunni af bailys sem ég keypti mér í fríhöfninni. ég hef nefnilega komist að því að það er fínt að vera bara tipsí þegar maður er að læra, það opnar allar gáttir eins og nefúði úr apótekinu. ég vona bara að ég verði ekki orðin alkahólisti að loknu námi... annars datt mér í hug ágætis setning þar sem ég sat í tíma um daginn. þetta vall bara upp í kollinn á mér svo ég bið ykkur vinsamlegast að sýna því tillit að ég er með frekar óvenjulegan koll sem á það til að detta hinir undarlegustu hlutir í hug. en þetta er sumsé setningin: greining er áhugamál auðnuleysingjans.
og hér er svo smá ferskeytla eftir kolbein högnason í tilefni föstudagsins:
aldrei frið ég öðlast má
auðnu svo ég hrósi.
alltaf vakir einhver þrá
eftir meira ljósi.
p.s. ferðasagan er að skapast í kollinum, kemur eftir smá...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Jú einmitt! Það var orðið sem ég mundi ekki. Þakka þér kærlega fyrir!
Skrifa ummæli