laugardagur

mér tókst í dag að sofa óáreitt til rúmlega tíu en það telst til sannkallaðra tíðinda hér á bæ... reyndar lýg ég aðeins þegar ég segi óáreitt því ég vaknaði einhverntímann í nótt til að fá smá kvíða- og áhyggjukast. mér finnst heimurinn erfiður núna og þetta land sem við búum í til háborinnar skammar og gott betur... djöfuls fjandans úrkynjaða land! ég er ekkert þunglynd eða neitt slíkt, reyndar er ég í fremur góðu andlegu jafnvægi þessa dagana og þó ég neiti fyrir það sjálf er ekki ólíklegt að hækkandi sól hafi þar eitthvað um að segja... mér er sama að hvaða niðurstöðu norsku vísindamennirnir komust, skemmdegið og svartur vetur hefur víst eitthvað með lundarfarið að gera. en ég bara skil ekki allan viðbjóðinn sem viðgengst alsstaðar, bæði hér og úti í hinum stóra heimi. ég skil ekki hvaðan þessi illska sem margir virðast þjást af kemur, ég skil alls ekki hvað fær fólk til að fremja slík voðaverk eins og öllum er kunnugt að áttu sér stað þarna í breiðavík og líka í byrginu... og á svo mörgum fleiri stöðum. ég skil þetta bara ekki er það einasta sem ég get sagt... ég skil þetta ekki. hvað kom fyrir okkur og hvernig urðum við svona? reyndar hefur ofbeldi af öllu tagi fylgt okkur frá örófi alda, það virðist vera óumflýgjanlegur galli í fari margra að þurfa að níðast á þeim sem geta sér enga björg veitt. en nú eru aðrir tímar og við erum komin svo óskaplega langt á mörgum sviðum en aðrir hlutir sem svo sannarlega þarf að bæta og laga hafa fengið að sitja óáreittir á hakanaum og ég skil það ekki. afhverju er forgangsröðin svona röng hjá okkur? mér finnst ég sökkva dýpra og dýpra í svartan pitt þegar ég velti þessu fyrir mér, ég fyllist svo mikilli reiði og sorg að ég á erfitt með að draga andann og ég vildi óska að ég væri mannleg ofurhetja sem gæti kippt öllu í liðinn og bjargað þeim sem þarfnast þess. börn... hver finnur það svarthol í sér að vilja vera vondur við börn? ég vildi óska að ég gæti gert eitthvað og bjargað einhverjum.

í gær fórum við í jarðaför af því að einn besti vinur minn og ein besta manneskja sem ég hef hitt var að missa móður sína úr sjúkdómi... það er annað sem ég skil ekki, dauðinn og sjúkdómar. ég skil ekki að fólk þurfi að deyja úr sjúkdómum fyrir aldur fram, fólk sem kann að meta lífið, fólk sem hefur þurft að ganga í gegnum nægilega mikið á lífsleiðinni svo maður héldi að því yrði sýndur griður það sem eftir væri af forsjóninni eða hverju því sem á að vaka yfir okkur. ég er eiginlega alveg komin á þá niðurstöðu að við erum bara ein, það er ekkert eða enginn sem vakir yfir okkur og passar, annars væri ekki allt svona, annars hefði ekki heimurinn þróast á þennan sorglega hátt. svona er þetta bara víst og það er ömurlegt... hörmungar sem af einhverjum ástæðum þurfa að eiga sér stað er ekki útdeilt á milli fólks af sanngirni og aðgát af manni á himnum. ég veit að ég er barnaleg að hugsa svona og það er líklega rétt hjá mér en mikið óskaplega vildi ég að fólk sem á gott skilið fengi það alltaf... ég hef annars óbeit á jarðaförum af skiljanlegum ástæðum, ég hata að fara í þær, sérstaklega þegar sá látni er ungur eða á allavega nóg eftir af hinu vísitölulega lífi samkvæmt árum. ég á erfitt með að sýna sorg í fjölmenni og ef ég finn tárin vera að brjótast fram einsog oft í gær bít ég á jaxlinn eins fast og ég get og þröngva tárunum aftur inn. ég get bara ekki meðtekið svona staðreyndir, að einhver sem á ekki að vera dáin sé það og ég vil ekki hugsa um það. ef ég hugsa ekki um það þá er það kannski ekki... ég held í vonina. ég get verið nasbráð einsog eldur og sina þegar fýkur í mig, en mikið óskaplega er ég barnaleg og viðkvæm þegar kemur að staðreyndum lífsins, ég kuðlast upp og breytist í óvita.

og smá gamansaga í lokin af heimskupörum míns og arnarnins til að létta aðeins stemninguna... við vorum eitthvað að keyra um daginn en fundum þá bæði í skyndingu fyrir óslökkvandi þorsta og leiðin lá í næstu lúgusjoppu þar sem brugðið var á það ráð að kaupa hinn svalandi drykk MIX. ég hef ekki bragðað þann drykk í nokkurn tíma en í minningunni var þetta eitt alsherjar túttí-frúttí partý í munninum frá og með fyrsta sopa samhliða því að tæra upp í manni tanngarðinn, óumflýgjanlegur fylgifiskur. þegar við vorum búin að svala sárasta þorstanum er mér litið í tappann en þar stendur stórum og skýrum upphleyptum stöfum ALCOA... það greip um sig mikil vænisýki í bílnum sem varði það sem eftir lifði af bílferðinni og næstu tvær vikur þar til okkur hugleysingjunum hugkvæmdist að gúggla ALCOA. ég veit ekki alveg hvað við héldum að væri að gerast en maður hefur eiginlega ekkert heyrt nema slæmt um þetta fyrirtæki og sjúkur hugur minn fór að hallast að því að það væri verið að fylgjast með okkur og þaðan af verra... bara af því að það stóð ALCOA í mix-tappanum. við gúgglið kom upp heimasíða fyrirtækisins sem sér um framleiðslu á allskyns áldótaríi en meðal annars líka á umbúðum og neytendavörum... svona er maður nú orðinn klikkaður í og á þessum heimi.

góða helgi.

3 ummæli:

La profesora sagði...

mikið skil ég vel allt þetta sem fer í taugarnar á þér. Ég finn einmitt fyrir þessari sömu reiði og vanmáttarkennd gagnvart einmitt sömu hlutunum.

Ágúst Borgþór sagði...

Nú er Bjargsmálið komið upp á yfirborðið. Það verður ekki hægt að þagga það lengur niður.

Nafnlaus sagði...

Blessuð Tinna!

Afar áhugavert hjá þér bloggið, virkilega einlægt! - ég var að fá allar myndirnar mínar sendar hingað til mín til Ástralíu og var að sjá fullt af ansi skemmtilegum unglingamyndum af okkur og heyrði að þú værir með blogg!

Hafðu það gott og haltu áfram að blogga!

Kveðja Fjóla úr Mosó í gamladaga!