sunnudagur

núna er nótt þegar ég skrifa þetta...
að sameina líf sitt annari manneskju er enginn hægðarleikur. engin furða að það sé kallað HÆGÐAR - leikur því það er eintómur kúkur sem því ferli fylgir. og að vera tinna að sameina líf sitt annari manneskju er langt frá því að vera auðvelt. hvernig getur maður lagt traust sitt og tilfinningar á einhvern annan þegar maður tæplega ræður við þessar tilfinningar sjálfur? að endingu hlýtur maður þó að uppskera eitthvað stórfenglegt, eins og fjölskyldu og öryggi og trausta og sanna ást. ég leik mér stundum að því að ímynda mér að á einhverju einu augnabliki í lífinu verði einskonar lokapunktur þar sem að allt verður baðað ljósi og útskýrt og undir hljómi dramatískt sinfoníulag eftir danny elfman. endirinn á bíómyndinni minni þar sem að eftirmálin verði leikur einn og lífið dans á rósum. þetta er einn af eiginleikum þess að vera með of frjótt ímyndunarafl.
ég ákvað að kaupa mér tvo bjóra í dag til að drekka að lokinni vinnu með henni páku minni. ég drakk einn bjór þegar ég kom heim og tók svo ákvörðun um að hætta að drekka. það er til einskis og mér líður ekkert vel af því. það verður samt erfitt, ekki af því að ég get ekki ímyndað mér lífið ódrukkin þrátt fyrir alkahólista blóðið sem rennur mér í æðum heldur af því að ég lifi eins og þið í samfélagi þar sem að það gengur eiginlega bara að vera annað hvort eða í þessum málum. það er hundleiðinlegt að vera eina ódrukkna manneskjan. ekki þykjast. það er það! en ég ætla að reyna. ég er líka oft að hugsa um það hvort að enginn annar finni fyrir þessu nema ég. verður enginn leiður eftir fyllerí nema ég? og er það þess virði að leggja það á sálina tvisvar í viku allavega? það held ég nú síður. en þetta er mitt mál, svo ekki skipta ykkur af þessu. ef þið hittið mig dauðadrukkna og bera að neðan niðri í bæ næstu helgi, þá er það mín ákvörðun.
þegar ég var búin að drekka þennan eina bjór og orðin tipsy af honum, önnur ástæða til að hætta að drekka, ég verð full af einum tappa, ákvað ég að fá mér góðan kvöldverð. mér er nefnilega hætt að lítast á blikuna með þetta lystarleysi og farin að finna fyrir svima og þróttleysi. auk þess sem sumar flíkur eru orðnar grunsamlega víðar. ég allavega skellti í örbylgjuofninn þessum fínu 1944 bjúgum sem ég hafði fest kaup í á leiðinni heim. ég náði að torga hálfu bjúga og tveimur kartöflum þegar ég var orðin svo södd að ég þurfti að leggjast fyrir eins og gamalmenni á sunnudagseftirmiðdegi. og svo steinlá ég næstu þrjá klukkutímana og hingað er ég komin. glaðvakandi og eiturhress. ætli allir séu fullir á barnum?
ég vildi að allt væri ævintýri...

gestabók

Engin ummæli: