miðvikudagur

dimmalimm er byrjuð að fara út. það er dáldið stressandi að hleypa einkabarninu sínu einu út að leika en ég verð að sleppa tökunum og vona það besta. ég er líka nokk viss um að ég þurfi að fara með hana í einhverjar rassa-orma-sprautur og svo er kannski kominn tími til að taka hana úr sambandi svo það verði ekki allt morandi í litlum dimmalimm-um hérna á bergó. mig óar samt við tilhugsuninni um að láta rífa allt úr henni sem gerir hana að kvenkyns veru... en kosturinn við þetta allt saman er þó að nú mun hún að öllum líkindum byrja að gera þarfir sínar úti, þó vonandi ekki í sandkassa þar sem börn hafast við. þá mun ég losna við kúkalyktina úr andyrinu hjá mér þar sem klósettið hennar er staðsett. það er með ólíkindum að hversu vel sem ég hugsa um að halda þessum kassa hennar hreinum "gossar" alltaf upp einhver andstyggilegur saurþefur. andstyggilegt! því nú er ég frekar hreinleg manneskja...
ég er hætt að gera plön fyrir daginn, þau standast aldrei. eins og í gær... jú, mér tókst að setja í vél og vaska upp en endaði svo bara undir sæng eftir það að horfa á 4. seríu af sex & the city. að sjálfsögðu með bullandi samviskubit yfir því að vera ekki úti að leika, ef að það hefði verið rigning liti þetta allt öðruvísi út. ég bara sé ekki tilganginn í því að vafra um allt í einhverri angist, ég á enga peninga og get þess vegna ekki einu sinni farið á kaffihús, alveg eins gott að vera bara heima þá. en örninn var búin snemma í gær í vinnunni og við fórum út í kaupmannahafnar-veðrið, fengum okkur ís og dóluðum okkur. við kíktum í hjálpræðishersbúðina, það eru alltaf jafn mikil vonbrigði. sú var tíðin að ég keypti öll mín föt þar en núorðið finn ég bara ekki neitt þegar ég fer þangað, það eru einstaka undantekningar en svona "over-all", aldrei neitt. kannski er ég orðin snobbuð? eftir þessi áreiðanlegu vonbrigði fórum við í fríðu frænku, engin vonbrigði þar. héngum örugglega í klukkutíma inni í búðinni að skoða og langa í allt, við erum með augastað á einum gluggatjöldum þar og líka nokkrum gólflömpum sem eru samt aðeins of dýrir fyrir okkar "budget". ég er ekki alveg að "gúddera" að kaupa lampa á 20 þúsund þegar að það er hægt að fá jafn fína gólflampa á 5000 kall í ikea. þegar við vorum búin að vera vandræðalega lengi inni í fríðu frænku fórum við í ríkið og keyptum okkur rauðvín. röltum svo í hljómskálagarðinn á blettinn minn sem er alltaf sól og logn á og dreyptum á rauðvíni. bara ef að allir dagar væru svona... rauðvín & kossar. ég ætla að skjóta því að að ég er komin með leið á austurvelli, mér finnst það ofmetinn staður sem að tískufórnarlömb sækja.
ég er hrædd við nágrannana mína, eins og venjulega. við eigum þvottavél hérna úti í porti sem er ónýt og við þurfum að fara með á haugana, höfum bara ekki komist í það og munum ekki gera fyrr en eftir svona u.þ.b. tvær vikur. en ég heyrði í nágrönnunum vera að pirra sig á henni í gær og ég faldi mig undir eldhúsborðinu af ótta við að þurfa að svara fyrir mig... nei, ég er að grínast, ég faldi mig ekki undir borði en eg var samt pínu hrædd um að verða skömmuð, lifi í stöðugum ótta við það. og nú er ég sannfærð um að allir hati okkur í húsinu og líti á okkur sem einhvern subbu-lýð. eða kannski ekki...
ég á engar sígarettur.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þær verða ólétta STRAX og þær fara út. Vinandi er hun á pillunni for náff. Morri er einmitt i ófrjósemisaðgerð as we speak. Fyrsta skiptið hans í bíl í dag, og annað skipti út;)Gemen...catmaster

Nafnlaus sagði...

vonandi ekki vinandi

Tinna Kirsuber sagði...

Hún er sko á pillunni en mamma hennar er ekki alltaf nógu dugleg að muna að gefa henni hana... Ihh... ihh....

Nafnlaus sagði...

Úff ég á þann stuttermabol og barabímm barabúmm 3 eintök í mallakút asap!Falcon kate

Ösp sagði...

Ég var næstum því að koma suður um helgina...en svo brást það *grátur og gnístan tanna*

Ágúst Borgþór sagði...

"ég er hrædd við nágrannana mína, eins og venjulega. við eigum þvottavél hérna úti í porti sem er ónýt og við þurfum að fara með á haugana, höfum bara ekki komist í það og munum ekki gera fyrr en eftir svona u.þ.b. tvær vikur. en ég heyrði í nágrönnunum vera að pirra sig á henni í gær og ég faldi mig undir eldhúsborðinu af ótta við að þurfa að svara fyrir mig... nei, ég er að grínast, ég faldi mig ekki undir borði en eg var samt pínu hrædd um að verða skömmuð, lifi í stöðugum ótta við það. og nú er ég sannfærð um að allir hati okkur í húsinu og líti á okkur sem einhvern subbu-lýð. eða kannski ekki...
ég á engar sígarettur."

Húmorinn þinn er svo sannur, mannlegur og spontant. Hann er harmrænn og þess vegna svona góður.

Tinna Kirsuber sagði...

Igh... Ágúst, hvað þýðir harmrænn? Ég veit það ekki í alvöru...

Ösp!!!!! Nei!!!! Ég trúi þér ekki! Hvað brást???

Ágúst Borgþór sagði...

Ja, harmrænn er kannski nokkuð dramatískt. En þetta sem þú ert að lýsa, þetta er ekki bara grín, það skín í gegn að þú hefur líka áhyggjur af þessu og jafnframt ertu að lýsa sjálfri þér. Svo ýkirðu mátulega og gerir grín að sjálfri þér.