mánudagur

er virkilega kominn mánudagur? aftur???
ég svaf lengi, sem var gott. komst að því þegar ég vaknaði, ekki seinna vænna, að mér líður nokkuð vel þegar ég sef svona aðeins frameftir. nú get ég étið ofan í mig allar yfirlýsingar um þarfaleysi svefns. ekki það að ég ætli að leggja þetta í vana minn, herra minn nei! mamma vakti mig líka, sem betur fer, veit ekki hvernig þetta hefði annars endað og ég sendi hana út í bakarí að kaupa skorpubrauð og það átum við með bestu lyst með túnfisksalati og drukkum rótsterkt hálf-þýskt tinnu-kaffi með.
plan dagsins: sturta, heimilisverk (ég er heimavinnandi húsmóðir í sumarfríinu) og svo ætla ég að byrja að mála fyrir sýninguna sem ég og þura ætlum að halda saman í september. það er alltaf pínu erfitt að byrja á nýju málverki, ég er af einhverjum ástæðum hrædd við það og feimin. en ef ég hendi mér bara út í það með góða músík í eyrunum gerist alltaf eitthvað magnað. og hausinn á mér er hvort sem er að springa af hugmyndum, góðum og fallegum hugmyndum sem tengjast öllu þessu yndislega sem er að gerast hjá mér.
ég hitti mömmu og pabba arnar í gær, kristjönu & kristján, þau komu í sunnudags-te til okkar. þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti þau síðan að ég og örn urðum skotin. alltaf pínu stressandi að hitta mömmu og pabba kærastans í fyrsta skipti. en ég tel mig samt vera nógu vel samskiptalega séð þróaða til að geta höndlað þessar aðstæður eftir bestu getu og þannig var það líka. og ekki annað hægt þegar að maður mætir svona mikilli hlýju við fyrstu kynni, heilsað með kossi og brosi. allir í fjölskyldunni hans eru svona gott fólk og nú er ég búin að hitta þau öll... nú kemur væmni fossinn... það var ótrúlega gaman, mér fannst eins og ég hefði milljón sinnum áður setið með þeim og spjallað og drukkið te, ekkert stress og engin feimni, það hlýtur að vera góðs viti. við fórum svo á asíu að borða í boði kristjáns. hmmm... hvað get ég sagt? ég er hamingjusöm, er það ekki allt sem segja þarf?
fyrir nokkrum vikum keypti ég dönsku þættina riget á vhs af hulla. ég gleymdi þeim svo alltaf á tryggvagötunni en við sóttum þá í gær af því að nú er verið að tæma tryggvó, strákarnir fluttir. það er skrýtið að hugsa til þess að ég muni ekki aftur fara á tryggvagötuna, pínu sorglegt því að þarna í þessu húsi eiga næstum allar mínar upplifanir og tilfinningar s.l. rúmu fimm árin rætur sínar að rekja. bestu vinir mínir tengjast tryggvagötunni, ástarsorg, ást, hlátur, gleði og örninn minn. ef ég hefði ekki kynnst strákunum mínum á tryggvagötunni hefði ég aldrei hitt örninn minn... jukk! þetta ætlar augljóslega að verða mjög væminn mánudagur... en þetta fær mig líka til að hugsa um það hvernig pínulitlir hlutir sem tengjast geta haft svona ótrúlega mikil og stór áhrif á allt.
ég er hætt, farin í kalda sturtu.
p.s. ég ætla ekki að taka þátt í því að pirra mig á nýja strætisvagnakerfinu.

Engin ummæli: