mánudagur

auðvaldið hefur rúið mig innað skinni, ég er nú blankari en kambódíska og berfætta fósturdóttir mín enda fékk blessunin seinustu þiðsundkallarnir... helvítis námslán, helvítis reikningar!!! og mig vantar enn einar 30 þúsundir uppá til að allt verði með réttu greitt, ég er þá að tala um skólabækur og geðlæknakostnað svo að ekki sé minnst á að við afæturnar eigum tæplega fyrir æti þennan drungalegasta mánuð ársins. frjáls framlög vel þegin!

fyrsti skóladagurinn í dag og hann hefst ekki fyrr en kl. 16:05. ég fékk að sjálfsögðu vægt kvíðakast yfir því í morgun en náði þó með herkjum að yfirstíga það og nú tek ég bara kvikmyndafræðina með trompi eða eins og mér best verður unnt.

þar sem að ég var á fótum fyrir allar aldir tók ég niður jólin okkar hérna á bergstaðastrætinu í skammdegis-morgun-skímunni. það er sárt að horfa á eftir jólaskrautinu ofaní kassa en svona er það nú bara. ég fer a.m.k. ekki að láta þekkja fyrir tælenska hegðun, þ.e. að hafa jólaskrautið uppi við yfir allt heila árið.

en nei, lífið heldur áfram og ég á afmæli eftir nákvæmlega tvo mánuði í dag og örninn minn eftir 22 daga. við eldumst þó að við eigum ekki bót fyrir rassinn á okkur. hvenær kemur þessi silfurskeið mín með betri tíð og blóm í haga eins og sífellt er verið að tyggja í mann með dægurlögum á öldum ljósvakans... hvað er ég að rugla? það eina sem að heyrist í útvarpi þessa dagana eru áróðurssöngvar beint til áðurnefnds auðvalds þar sem bono kallast á við einhverja íturvaxna R&B dívu um hvað þau séu týnd í veruleikanum og allir í afríku séu svo sárþjáðir... mér fannst það betra þegar peter gabriel og kate bush vældu sama texta uppá fjallstindi í denn. það stóð allavega ekki í manni sraufþurra séríósið fyrir samviskubiti...

að ýmsu þarf að huga í dag og hér ætla ég að telja það upp til að mér reynist auðveldara að sýna skyldurækni á þessum fullorðins árum mínum og þið getið kannski haft gaman af:

-skila DVD mynd (maður verður nú að leyfa sér einstaka DVD gláp þrátt fyrir blankheit þegar eina sjónvarpsútsendingin sem næst á heimilinu er óskýr RÚV mynd).
-fara í hraðbanka (til að taka út hvað?).
-fara niður í eymó og fá að prenta út eitt blað (seinasta hálmstráið: fræðslustyrkur frá VR) og kaupa eina kennslubók.
-fara í bóksölu stúdenta og reyna að fá kennslubækur gegn kynlífsgreiðum... grín. kaupa þær sem ég hef efni á.
-fara í fyrsta tímann í kvikmyndafræði.
-fara heim og reyna að elda veislumat úr súrri sveppasósu og kartöflum.
-verða ofurölvi og krúnuraka mig.

... veit ekki hvað af þessu mun aktúelt gerast en tel minnstar líkur á krúnurökun.

ég nenni ekki út af því að allt er svo grátt, ég ræð ekki við hárið á mér og skammdegið ætlar mann lifandi að drepa. hvar endar þetta? gluð, ég spyr: HVAR, HVAR, HVAR???

reyndar förum við bráðum á þorrablót, það er tilhlökkun því slíka samkomu hefur borgarbarnið tinnbert aldrei sótt. ætli ég fái að skipta út hákarli og brennivíni fyrir freyðivín og súkkulaðihúðuð jarðaber?

farin að éta vítissóta, see ya!

Engin ummæli: