miðvikudagur

ég gæti, ef ég mætti, setið tímunum saman, starað útum gluggann og hugsað. ég veit fátt skemmtilegra en að hugsa, hugsa um hluti, upp hluti og ef ég hefði ofan á þetta framkvæmdarþörf líka væri ég örugglega orðin forseti eða nóbelsskáld. ég fæ svo yfirgengilegar hugmyndir að sögum, kvikmyndum, ljósmyndum og listaverkum yfir höfuð að ég gæfi aleiguna til að vera aðeins metnaðarfyllri. eða bara með metnað, ágætt að byrja þar. eini gallinn við þetta er að ég á það til að detta í þennan "trans" þegar ég á að vera að gera eitthvað annað. eins og núna... ég ætti að vera að læra.

eins og áðan... ég kom heim af bókakynningu hjá eddunni sem ég fór á eldsnemma í morgun á hotel nordica. þar var "plebbískt" meðlæti sem að engri venjulegri manneskju með eðlilegan fjárhag dytti í hug að búa til og það var í þokkabót alveg frábærlega gott og samanstóð af heilhvetihorni, grænu pestói, lamhagasalati, camenbert osti og einhverri kryddpylsu... ekki viss hvort þetta var salami eða eitthvað annað en það skiptir nú svosum engu þar sem ég fjarlægði þann hluta burt enda ekki mikill áhangandi áleggja sem gefa mér brjóstsviða. ég uppgötvaði á kynningunni að bókalegum þroska mínum hefur eitthvað farið fram þar sem að nýútgefnar bækur um íslenskar bókmenntir vöktu sérdeilis mikinn áhuga hjá mér. þ.e. nýjustu tvö bindin sem fjalla um bókmenntir íslands á 20. öldinni eða frá því 1918. verst að stykkið kostar tæpar 7000 krónur og ég er nú þegar með augastað á RISA bók um og með verkum andy warhol sem kostar tæpar 10000 krónur sem og HEIMI KVIKMYNDANNA sem kostar líka tæpar 7000 krónur. það er stundum djöfullegt að vinna í bókabúð samfara því að vera dásamlegt en líka fjárhagslega vandræðalegt... nema hvað... eftir þessa ágætis kynningu voru síðan allir leystir út með bókagjöf sem ég kann virkilega að meta og finnst vera mjög fallega gert af útgáfunni. er asnalegt að segja að bókaútgáfa geri fallega hluti...? eftir það fór ég heim og ætlaði nú aldeilis að læra eins og ég lýsti hérna yfir í fyrsta bloggi dagsins en það fór þó ekki betur en svo að eftir hálftíma eða svo var ég komin í draumalandið, ekki andra snæs sem ég neita að lesa, og eyddi þar rúmum tveimur og hálfum tíma með óhuggulegum draumförum um heimavistarskóla og uppvakninga. allar martraðirnar mínar fjalla alltaf um uppvakninga og hrakfarir mínar við að komast undan þeim. og eins og góðum martröðum sæmir eru vondu kallarnir alltaf rétt á hælunum á mér... og ég er ekki að ýkja, ALLAR martraðirnar mínar eru nokkurn veginn alltaf eins nema í ólíkum umhverfum en það er alltaf risa hús með fullt af göngum, stigum, herbergjum og hurðum og svo náttúrulega uppvakningum. þetta er gallinn við lyfin, einn og tveir af mörgum... jú, vissulega er ég orðin glaðari og áhyggjuminni en ég greiði fyrir það með ótæpilegri syfju og leiðindar draumförum.

en nú verð ég að vera dugleg að læra, ég bara verð.

Engin ummæli: