ég skil ekki skattinn. ég fékk sumsé þennan fjárans álagningarseðil um daginn og það tók mig nokkra daga að skilja að ég skulda skattinum pening (mín heimskulegu mistök í útfyllingu á skattskýrslunni) því að þessi fífl geta bara ekki skrifað það svart á hvítu hvort maður skuldi þeim eða ekki. annað sem ég skil ekki er það hver munurinn á skattstjóranum og tollstjóranum er... öðru megin á álagningarseðlinum stendur skattstjórinn og hinu megin tollstjórinn... hvorum skulda ég?!?!?! og eins og þetta sé ekki allt nógu illskiljanlegt þá kemur hvergi fram á þessum fjárans snepli hvernig maður geti borgað þennan aur til baka og ekki fylgir gíróseðill með... ég skil þetta ekki og ég er með nagandi áhyggjur af þessu af því hvort sem ég myndi skilja þetta eða ekki þá á ég engan veginn pening til að borga þeim til baka... best að geyma þetta bara fram yfir helgi og arka þarna niðureftir á mánudagsmorgunn og fá einhvern til að útskýra þetta fyrir mér. ég reyndi að hringja þangað eftir að ég fékk þennan ómögulega seðil til að fá útskýringar en hitti á pirraða konu sem talaði bara um tekjuskatt og útsvar. ég veit ekkert hvað það er! ohh!!! ég skil þetta ekki! og svo finnst mér þetta allt svo illskiljanlegt og óskipulagt þarna að ég er nokk viss um að þó og þegar ég borgi þetta þá muni það bara týnast í einhverju pappírs- og peningaflóði því það er enginn sem heldur utan um neitt þarna. andskotans fjandans! og svo er bankinn á eftir mér líka... djöfulli er leiðinlegt að vera fullorðinn!
en já, það er langþráður laugardagur og ég vaknaði hálf 8 auðvitað... ég píni mig til meiri svefns eftir þetta bloggerí.
ég er búin að vera að hugsa mikið undanfarna daga um fortíðina og fólk sem ég þekkti í fortíðinni en hef misst samband við með tímanum. ég játa mig seka um að vera mjög léleg í að viðhalda samböndum við gott fólk og bara fólk almennt. það er ekki af neinni illsku eða þ.h., þetta bara gerist einhvern veginn eða maður leyfir þessu einhvern veginn að gerast. það sem mér finnst hinsvegar leiðinlegast er að 2-3 af þessum fortíðarmanneskjum hjálpuðu mér mjög mikið á sínum tíma og voru góð við mig og ég er aðallega með samviskubit þess vegna yfir því að hafa misst sambandið við þau og mig langar einhvern veginn til að bæta fyrir það en ég veit ekki alveg hvernig og auk þess skortir mig kjarkinn. mér finnst ég kannski ekki endilega þurfa að biðjast afsökunar, og þó... en mig langar aðallega til að þakka þeim fyrir góðmennskuna sem þau sýndu mér, ég vil að þau viti að ég gleymdi því ekki og mun aldrei gleyma. einni er ég að hugsa um að skrifa bréf, það er held ég ekkert glatað og er auk þess mun auðveldara en að hringja... ég er líka alveg hrikaleg í síma, hata að tala í þá, finnst ég aldrei geta gert mig skiljanlega í mæltu máli. ég er mun betri í að tjá mig í rituðu máli enda er ég heimsins skáld... en einn verð ég að hringja í af því að ég skulda honum pening sem hann lánaði mér svo ég gæti flutt út til danmerkur á sínum tíma, þegar ég var úng lesbía að ég hélt... ég veit að peningurinn skiptir hann ekki máli, það skiptir hann meira máli að hafa mig í lífinu sínum af því að ég veit að honum þykir vænt um mig enda var ég honum næstum eins og dóttir þegar ég var yngri og það er nokkurn veginn honum að þakka að ég uppgötvaði að ég er listamaður. en ég átti aldrei peninginn til að borga honum til baka þó ég gæti verið búin að safna honum allavega tíu sinnum núna og ég skammast mín fyrir það. hvort sem að þessi peningur skiptir máli eða ekki vil ég borga hann til baka og hreinsa samviskuna svo ég geti kannski hafið samband við þennan góða mann uppá nýtt. ég vona bara að það sé ekki of seint og ég vona að ég safni nægum kjarki til að hringja í hann því gluð má vita að viljinn er fyrir hendi. ég stefni á að ganga í þetta mál í næstu viku...
mig langar bara svo til að bæta mig, mig langar til að rétta við það sem ég get rétt við svo að ég geti byggt upp sjálfstraustið og trúna á sjálfa mig og þ.a.l. orðið betri manneskja. sátt við sjálfa mig og aðra... ég er náttúrulega hætt hjá geðlækninum eins og ég hefi áður tjáð ykkur, fannst það bara ekki vera málið fyrir mig enda búin að sitja í blómastólnum hennar í næstum 3 ár og grenja yfir sjálfri mér... ég vil "aksjon", ég vil að hlutirnir fari að gerast og lagast... ég náttúrulega ét lundarlyftuna þó ég geti ekki séð að hún bæti lundina mikið, í það minnsta er ég alltaf kvíðin og föst í einhverjum sjálfsefasemdum en ég er farin að finna fyrir þörfinni að gera eitthvað í málunum, sterkar en nokkru sinni fyrr og ég þakka örninum mínum það. ástin og stuðningurinn sem hann gefur mér hjálpar mér að endurmeta sjálfa mig og ég er farin að sjá mig í skýrara ljósi en nokkru sinni fyrr. hann elskar mig eins og ég er og fyrir það er ég þakklát því ég er ekki alltaf auðveldasta kona í heimi að elska en þegar hann elskar mig eins og ég er fer ég að sjá að kannski er ég ekki svo slæm eins og ég hélt svo lengi og hef svo lengi haldið. ef að gull-manneskja eins og örninn minn elskar mann eins og maður er, þá getur maður ekki verið al-slæmur. og þetta er ást... ég vil líka laga skap-stærðina í mér eins og ég hefi einnig áður nefnt hér og það er aðallega fyrir börnin mín sem ég ætla að eignast í framtíðinni. ég get svosum sagt ykkur núna frá því sem varð til þess að ég sá að nú væri ekki seinna vænna að fara að gera eitthvað í málunum... ég hef alltaf vitað að ég er skapstór og inní mér vitað að ég þurfi að gera eitthvað í því en hef bara ekki komið mér í það eins og er svo gjarnt með svona sálar-vandamál. en svo um daginn, fyrir svona tveimur mánuðum reiddist ég svo svakalega, svo svakalega að ég hræddi sjálfa mig og það endaði með því að ég kýldi í fartölvuna mína með þeim afleiðingum að skjárinn brotnaði í þúsund mél og tölvan er ónothæf... láti ég mér það að kenningu verða. en eftir þetta áttaði ég mig á því að nú yrði ég eitthvað að gera í mínum málum því svona myndi ég aldrei vilja að börnin mín sæju mig og hvað þá nokkur manneskja. ég man sjálf eftir svona atburðum frá því ég var lítil og það situr enn í mér og hefur áreiðanlega markað sín spor í mína skapgerð og sál og það vil ég ekki gera mínum börnum. og ég er 27 ára og það er ekkert langt í að við förum að huga að barneignum þó við séum enn á rólegu nótunum í þesslags málefnum enda liggur ekkert á en það er mín "mótivering", að bæta mig svo að börnin mín þurfi aldrei að vera hrædd við mig eða skapið mitt. svo þau þurfi aldrei að horfa uppá móður sína rústa heimilistækjum í skapofsakasti... það hefur varla góð áhrif á nokkra litla eða stóra sál.
jæja, nóg af tinnískri dramatík í bili. hafið það gott um helgina elsku fólk.
laugardagur
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Mikið var ánægjulegt að lesa svona einlægt blogg. Þetta er ástæðan fyrir því að ég kem hingað á degi hverjum. Hafðu það einnig gott um þessa helgi og alla hina sem framundan eru.
Já skemmtilegt blogg. :) Það er ansi margt sem betur mætti fara hjá okkur öllum og því hverri manneskju hollt að taka sig í smá sjálfskoðun og reyna að bæta sig!
sjáumst vonandi sem fyrst...
ég er með hugmynd, Tinna.Hringdu í mig einhverntíma.
Heiða
698-6638
...eða, já þér leiðast símar. heidingi at hotmail punktur com
Skrifa ummæli