föstudagur


ég tók þá ákvörðun um að vera bara heima í dag í staðinn fyrir að fara í vinnuna og þurfa svo að fara heim útaf kvölum uppúr hádegi. ég er í fríi um helgina og nú næ ég þessum andskota úr mér... og hana nú! það er þó drep-leiðinlegt að hanga svona heima sem mér finnst merkilegt því að oftast þegar maður er í vinnunni væri maður alveg til í að vera heima undir sæng. auk þess gera svona veikindi ekkert annað en að ýta undir óhollt sjónvarpsgláp... þá er aðal áhættan að detta ekki inní þætti eins og dr. phil og þess lags viðbjóð. það er alveg stór-merkilegt hvernig ekki er hægt að rífa sig frá þessu eins hallærislegt og firrt þetta er. væmnu bandaríkjamenn! þeim veitti ekki af smá norðanátt í skapgerðina, svipaða og þá sem einkennir tilfinningalíf íslendinga upp til hópa. maginn minn er heldur ekkert hrifinn af svona sýklalyfjum eins og þeim sem ég er á, ég verð bara veik af þeim ofaní veikindin.

en ég var að tala um jógað í gær... ég og öspin mín erum sumsé að byrja í jóga næsta þriðjudag, kundalini jóga eins og það er kallað. mér finnst það persónulega hljóma eins og eitthvað í ætt við tantra þannig að ég vona að þetta endi bara ekki með einhverjum strokum og gælum. það væri vandræðalegt... nei, þetta á að vera gott fyrir sálina og uppbyggingu sjálfsins og ekki veitir af, bæði hjá mér og öspinni. ég hlakka allavega til og ég veit að ég hefði aldrei drullast ein í þetta svo það er gott að hafa eina litla þjáningasystur með sér.

nú svo er ég búin að gera stór-plan fyrir veturinn svo maður detti nú ekki niður í eitthvert skammdegisþunglyndi eins og mín er vona og vísa... ég ætla sumsé að fara í jógað eins og áður sagði, ég ætla að kaupa mér tungumálanámskeið bæði í hollensku og rússnesku og ef tími gefst líka í frönsku... þarf bara að ákveða á hverju ég ætla að byrja en ég held þó að hollenskan verði fyrir valinu þar, svo rússneska og svo franska. ég ætla líka að gera geisladisk en um það hefur mig lengi dreymt... ég ætla að syngja öll uppáhalds lögin mín og taka upp og gefa svo öllum í jólagjöf. svoleiðis getur maður gert heima hjá sér núorðið með hjálp tækninnar og arnarins míns. best of tinnbert 2006... en göfugusta markmiðið mitt er líklega það að ég ætla að fara að læra stærðfræði, þar sem frá var horfið í framhaldsskóla. ég hef nefnilega fáránlega gaman af stærðfræði þó ég hafi í skóla aldrei nennt að leggja mig fram við að læra hana. við sjáum svo bara til hvernig mér tekst upp með þetta markmið uppá eigin spýtur... ætli það sé hægt að kaupa þolinmæði í apótekum?

við þurfum svo líka að festa kaup í nýjum græjum fyrir veturinn þar sem núverandi græjur eru í þessum skrifuðu á leiðinni í skipi til þeirra sem minna mega sín. það er ágætt... það var hvort eð er eitthvað farið að slá í þær svo þær eru á leiðinni á viðeigandi stað.

mig langar svo að nota tækifærið fyrst við erum á annað borð að tala um tónlist og fjarlægar græjur og hrósa the telepathetics fyrir frábæra frumraun í plötuheimum. afbragðs plata sem þeir voru að gefa út... mæli með henni.

ég hlakka til þegar bötnun hefur átt sér stað... þá mun ég frá og með næsta mánudegi fara á kvikmyndahátíð uppá hvern einasta dag. umfjöllum um hverja mynd sem ég fer á verður svo birt hér og svo verður náttúrulega líka tinníska film-keppnin, kirsuberið 2006. og skammarverðlaunin, rúsínan 2006 en þau verðlaun fær lélegasta myndin sem ég sé.

og já! ég og fleiri erum að fara að sitja fyrir nakin, eða svo gott sem úti í guðsgrænni einhvern tímann á næstu dögum eða vikum. það er víst fyrir einhverja auglýsingu... en þ.a.l. læt ég fylgja með mynd af mínum fagra afturhluta, pínu "fótósjoppuðum" reyndar og í óþægilegum nærbuxum (ég geng ekki í g-strengjum svona að öllu jöfnu og finnast þeir yfir höfuð mjög óaðlaðandi... en ég kann að meta fagran kvenmannsrass í fögrum nærbuxum, ekki hálf-kláruðum eins og g-strengjum). ég skil mig stundum ekki... af því ég get ekki fyrir mitt litla líf farið í sund útaf spéhræðslu en að sitja fyrir ber á mynd finnst mér vatnssopi.

góða helgi!

2 ummæli:

Fjalsi sagði...

Ég man ekki betur en að ég eigi svona Learn Dutch bók og geisladisk. Skal sjá hvort ég finni það ekki.

Tinna Kirsuber sagði...

Veiiii! Og velkomin heim afmælisbarn sunnudagsins!