fimmtudagur

össi össi örninn minn... úff, ég er svo skotin.
mig langar pínu í aðra kisu þó að það hafi fyrir löngu verið sannað með áhrifaríkum leiðum að mér er bara ætlað að eiga einn kött.
mér finnst að fyrirbærið fortíð ætti að vera afnumið, í hvaða mynd sem er. í það minnsta mín fortíð, mér væri sama þó ég gleymdi öllu úr fortíðinni minni fyrir utan kannski tvo eða þrjá hluti. fortíðin er andstyggilegur hlutur sem að heldur mér tangarhaldi og litar hvert skref sem ég tek til framtíðarinnar. ef ég væri ekki svampur í líki manneskju gæti þetta verið betra, ef að ég hefði vængi gæti þetta verið betra og þegar ég fer að sofa í kvöld og ákveð þá með sjálfri mér að láta þetta ekki lengur hafa áhrif á mig og það tekst, ég vakna ný manneskja með hjartað fullt af bjartsýni til framtíðar sem að getur ekki annað verið en góð af því að ég er svo ástfangin af bestu manneskjunni af þeim öllum í heiminum. þá væri allt yndislegt. og þá verður allt yndislegt.
geðlæknirinn minn segist hafa hug á því að skrifa bók um mig af því að henni finnst ég svo merkileg og einstök. ég veit ekki hvort að ég eigi að taka því vel eða illa. illa af því að þá er eins og ég sé eina manneskjan sem hugsar eins og ég en vel af því að það er gaman þegar að einhverjum finnst maður vera merkilegur og einstakur... held ég.
næst þegar ég renni augunum yfir matseðilinn "veldu þér nýtt líf" ætla ég að velja venjulegu úthverfastelpuna með glæru augnhárin sem lifir venjulegu lífi en ekki dramantísku miðbæjarrottuna með helíum-röddina sem lífir óvenjulegu lífi.

miðvikudagur

góðan daginn!
fórum í fyrstu "langferðina" á bílnum fallega og nýja í gær þegar við sóttum öspina litlu út á flugvöll. krílið var að koma frá danmörku, þangað sem mig dreymir um að fara ef ég ætti aur í vasa... ösp þurfti reyndar að fara norður strax sem var fúlt, ég var búin að sjá fyrir mér stelpufans með rauðvíni og fegrunarkremum en það verður þá að bíða betri tíma, ekki satt sykurbollan mín?
annars er jólafiðringurinn byrjaður að segja til sín svo um munar og ef ég kann rétt að telja eru 87 dagar til jóla... held ég. ég er samt að reyna að hafa hemil á mér, hugsa sem minnst um þetta en ég bara ræð mér ekki fyrir tilhlökkun. þetta er gengið svo langt að ég held ég sé búin að ákveða hvað ég ætla að elda handa okkur erninum á aðfangadag... læt þær upplýsingar í té þegar nær dregur. svo ætlum við norður á tjörn og vera þar yfir áramótin, það er næstum meiri tilhlökkun fyrir því en jólunum, að vera með öllu góða fólkinu þar er þúsund sinnum betra en allt annað. það er kannski kjánalegt að hlakka svona til eins og eitthvert umkomulaust barn en tilhlökkun er án efa tilfinning sem að hver og einn ætti að leyfa sér. hún er á topp 5 listanum yfir bestu tilfinningar í heimi. hinar fjórar eru að mínu mati þegar sá sem ég elska heldur utan um mig eins og að enginn sé til í heiminum nema við tvö og ekkert slæmt geti gerst, óvæntar en gleðivaldandi uppákomur (s.b. tækifærisgjafir), þegar sá sem ég elska strýkur hendinni niður eftir bakinu á mér eins og ég sé úr glerþunnu postulíni og ég finn ástina í snertingunni og síðast en ekki síst þegar ég er tipsí, glöð, elska alla og er með fiðrildi í mallanum.
en nóg af súkkulaði-núggat væmni í dag... ég er dulítið búin að vera að velta því fyrir mér hvað það sé sem geri það að verkum að mér líður aldrei neitt sérstaklega vel inni í kolaportinu, eins og ég hef nú eytt þar skildingum í gegnum tíðina þá er alltaf eitthvað sem fær mig til að hugsa mig um tvisvar áður en ég fer þangað og ef ég á annað borð voga mér inn er ég fljót út aftur. það er ekki hægt að neita því að það er krökkt af allskyns undirmálsfólki í kolaportinu (það er samt ekki það sem truflar mig, ég er ekki fordómafull í garð fólks og sérstaklega ekki þeirra sem hafa orðið undir í lífsbaráttunni), lyktin þar er undarleg og tónlistin sem spiluð er í hátalarakerfinu lætur mér líða eins og ég sé stödd í one flew over the cuckoo's nest... en það er bara ekki málið. málið er, gerði mér grein fyrir þessu fyrir nokkrum dögum er að í hvaða bás sem að ég lendi á að skoða eitthvað í stendur alltaf básar-eigandinn með ýmist sorgarsvip sem segir: "ef þú kaupir ekki eitthvað munu börnin mín og ég svelta" eða þá með ásökunaraugnráði sem svo fylgir mér út ganginn ef ég ekki festi kaup í einhverju. lokaniðurstaðan er því að ef þú ferð í kolaportið er það ávísun á sektarkennd og skömm (og vonda lykt af fötunum þínum og efasemdir um geðheilbrigði þitt). aftur á móti þekki ég einn sem er ósnertanlegur fyrir þessu og það er hann gulli minn sem á metið í því að fara í kolaportið held ég. kolaportskóngurinn gulli! æðruleysi hans gagnvart kolaportinu er eitthvað sem ég vildi að ég gæti tamið mér.
lifið heil.

þriðjudagur

nei shit! líður miklu betur núna... allt í góðu. þarf bara að hætta að hafa svona asnalegar tímaeyðslu áhyggjur.
í dag finnst mér ég vera ómöguleg, heimsk, misheppnuð og ljót. og ég er með svo miklar fjárhagsáhyggjur að ég gæti gubbað blóði... ef að vængir arnarins blökuðu ekki ferskum gusti framan í mig myndi ég leggjast undir sæng og aldrei standa upp aftur.

mánudagur

það er næstum því þannig að einu skiptin sem ég ryksuga er þegar ég brýt eitthvað. síðan við fluttum á bergó er ég t.d. búin að brjóta 3 kokteilglös, 2 venjuleg glös, 1 bolla, 1 staup-glas og 1 undirskál. ég hef tvisvar sinnum ryksugað án gefins tilefnis, þ.e. þegar ég hef ekki brotið eitthvað af klaufaskap. mér er þetta sérstaklega hugleikið í dag af því að nú sem aldrei fyrr er þörf á smá ryksugun hérna heima hjá okkur. ég ætla að reyna að vera extra mikill klaufi í dag, helst út um alla íbúð...
bloggið í dag er tileinkað henni móu minni sem á skilið alla þá ást og umhyggju sem til er í heiminum...

föstudagur

hvað ætli sé dæmigert fyrir mig?
fór í kringluna í dag... "peppaði" sjálfa mig augljóslega ekki nógu mikið fyrir það því ég fékk "semi" taugaáfall þar inni. allt morandi í pirruðu fólki að flýta sér, allt morandi í ískrandi gelgjum í hvítum gegnsæjum pilsum og g-strengjum, allt morandi í grátandi börnum og amerískum dögum. keypti það sem ég þurfti og hljóp út. það bætti aðeins úr skák að strætó var á undan áætlun, þjóðverjinn ég er svo hrifin af svoleiðis, öllu sem er á undan áætlun. simple mind, simple pleasures...
ég er annars í smávegis vandræðum... ég veit ekki hvort ég eigi að kaupa mér passa á kvikmyndahátíðina. það fylgja því talsverð útgjöld að fara á airwaves en þangað ætla ég mér þó ég þurfi að fara í líkkistu því örninn minn er að spila þar bæði með hljómsveitinni ég og svo auðvitað elsku bestu shadow parade. það er því alls ekkert vafamál að ég er að fara þangað auk þess sem mig langar alveg óskaplega á airwaves. en svo er ég líka mikil kvikmyndaáhugamanneskja og langar alveg ofboðslega ægilega hrikalega mikið á kvikmyndahátíðina en passinn kostar 6.000 kr. og eins og allir vita sem lesa þetta blogg mitt þá þá kann ég aura minn tal, þ.e. ég veð ekki í peningum. en ef ég aftur á móti sleppi því að borða eða fara út úr húsi í október gæti þetta bjargast... ég geri það bara. veiiiii!!!!! ég er að fara á airwaves OG kvikmyndahátíðina.
ég er stundum að gæla við þá hugmynd að verða slökkviliðsmaður en þá man ég að ég er bara 165 cm, 57 kíló og með sköp. maður þarf víst að vera 180 cm, 90 kíló og með typpi eða eitthvað álíka fasistalegt... mig langar til að vera hetja...
smá "shout out" til betu sem ætlar að vera algjör vanillu-dúlla og selja mér miðann sinn á airwaves. þetta er bíllinn okkar hér til hliðar...
við eigum bíl!!! fokk me við eigum bíl! keyptum okkur glænýjan bíl í dag, blá-grár skoda octavia. demitt hvað við erum fullorðins.
p.s. ég er ekki með bílpróf.

miðvikudagur

jæja! ágúst borgþór klukkaði mig og ég tek því með glöðu geði. so, here goes...

1. mig dreymir um að verða virtur rithöfundur og bókmennta- og kvikmyndagagnrýnandi.
2. æðsta ósk mín í lífinu er að eignast lítið en þó nægilega stórt bárujárnshús í vesturbænum með frönskum gluggum þar sem ég get iðkað mínar skriftir, verið með erninum mínum í farsælu hjónabandi þangað til ég kveð veröldina, átt hund, ketti og barn eða börn sem mér mun takast að gera að heilbrigðum einstaklingum með nóg af ást og umhyggju (svona draumar, mínir draumar eru mjög vanmetnir og þykja jafnvel klígjulegir í nútímasamfélagi).
3. ég ætla að læra á hljóðfæri áður en ég dey eða fæ svo mikla gigt í puttana að þeir verða til einskis nýtir. ég ætla líka að læra annað tungumál. þau sem koma til greina: rússneska, franska og ítalska.
4. mig langar til að komast að leyndardómnum sem gerir það að verkum að í eðli næstum okkar allra er sami hluturinn, við þráum öll að deila lífinu með annari manneskju sem við svo vonumst til að vera með til seinasta dags. mig langar til að skilja þetta.
5. ég hata engan og vona að enginn hati mig.

svona! nú er ég alveg að verða of sein í skólann... en ég ætla að klukka betu, maju hryssu (sem þó er MJÖG langt frá því að vera hryssa), hjört, gulla og halldóru.
see ya!

þriðjudagur

ég er að reyna að finna nafn á manneskju sem ég þekki ekki. af öllum mannanöfnum sem ég þekki, þekki ég a.m.k. eina manneskju sem heitir því. þ.a.l. þekki ég engan sem heitir ekkert eða eitthvað... föðuramma mín hét t.d. hávarðsína eða hávarðína og ég átti frænda sem hét hilaríus. hann er reyndar langt aftur en samt nógu stutt til að maður velti vöngum yfir þessu undarlega nafni. kannski ég skíri son minn hilaríus.
fór ekki í skólann í dag en skilaði rafrænt inn einu því háfleygasta verkefni sem ég hef á ævinni unnið. það var verkefni sem átti að gera fyrir femínískar bókmenntarannsóknir uppúr einhverjum karlrembutexta, eða hann var það svona framan af. ég er mjög stolt af þessu verkefni sem ég vann af mikilli alúð í samanlagt sex klukkustundir. takið tillit til þess að mér er mjög mikið í mun um að standa mig vel í skólanum og ég er með athyglisbrest. en ég var samt ósköp fegin þegar örninn kom heim í gærkvöldi kl. 23 af hljómsveitar-standi og dró mig hálf snöktandi frá tölvunni í kvíðakasti yfir því að vera að klúðra öllu. ég gleymdi því að maður missir víst athyglina eftir ákveðinn tíma eða þá að maður á ekki að læra eftir klukkan eitthvað ákveðið á kvöldin. en þegar ég svo vaknaði í morgun var ég sem ný og spændi þessu líka ákaflega heilsteypta verkefni úr mér... ahhhh... örninn minn hefur þessi áhrif sko.
við festum kaup í grænum flauels-gluggatjöldum úr fríðu frænku, þau kostuðu bara 1.250 kr. og eru svona líka falleg og þekjandi í stofunni okkar. restin af peningunum fór í núðlusúpur og egg. annars er þetta hreiður "sindróm" óttalega endingagott, það er allavega ekkert að renna af mér eða okkur því það er alltaf eitthvað nýtt að huga að... okkur vantar fætur undir rúmið, okkur langar í myndir á veggina, fleiri lampa, kartöflumúsa-stappara, blá flauels gluggatjöld í svefnherbergið... þetta er bara toppurinn á ísjakanum. aldrei hefði það hvarflað að mér að það gæti verið svona gaman að búa með einhverjum, þ.e. kærasta-einhverjum. og það besta af öllu að við erum alltaf sammála um allt sem við viljum gera. dásamlegt! þetta er of mikið "hallmark" til að vera satt...
kæra reykjavíkurborg, loksins búin að taka eftir því að það er bara ein stytta í þér af konu en tuttuguogeitthvað af körlum...
ég elska haustið.

sunnudagur

ég er ekki með "babyfever" en í hvert skipti sem ég skoða myndir af þessum litlu krúttum, ísold og ástþóri erni sem tengjast mér annað hvort í gegnum blóð eða vináttu fer um mig gleðistraumur og ég get ekki annað en brosað.
annars er ég búin að taka þá ákvörðun að drekka ekki meira áfengi, a.m.k. ekki í bili. það fer bara beint í sálina á mér eða hefur gert undanfarin skipti og mér líður drullu-illa um leið og ég er orðin örlítið tipsí. bakkus vekur upp drauga sem eiga bara að vera látnir í friði.
en af því að ekkert varð úr bíóferð á föstudagskvöldið ætlum við, ég og örninn minn á charlie and the chocolate factory í kvöld. best er að ljúka sunnudögum á þann hátt, annað hvort með bíóferð og sælgæti eða vídjóglápi og sælgæti. ég er sérlega sælgætisjúk þessa dagana fyrir þær sakir að á mig herja nú hinar kvenlegu hrakfarir sem blæðingar kallast.
blex.

laugardagur

með tekíla í spræt... það er gott. ætla að horfa á nýja þáttinn með möggu stínu sem mér finnst lofa góðu en aftur á móti er ég alveg steinhissa á því að það sé enn og aftur verið að fara að sýna þessa fjárans spaugstofu. þetta er vægast sagt bara orðið hlægilegt... ekki fyndið hlægilegt heldur sorglegt hlægilegt. en hvað um það, kannski verð ég þakklát fyrir spaugstofuna og skellihlæ með gin og tónik á laugardagskvöldum þegar ég verð fimmtug... þ.e. ef þeir verða enn meðal vor.
annars settum við örninn upp mynd hérna í stofunni okkar í gær, ansi hreint flott. það er nefnilega þannig að það eru af einhverjum ástæðum tvær hurðir inn í svefnherbergið okkar, önnur liggur fram í eldhús og hana notum við alltaf en svo er önnur sem liggur fram í stofu og hana notum við aldrei. hún hefur eiginlega verið sár í auga okkar síðan við fluttum hingað inn, gapandi hurð með ekkert eiginlegt notagildi í augnablikinu. og við höfðum um nokkurt skeið verið að velta því fyrir okkur hvað við gætum gert við þessa tilgangslausu hurð. og svo datt okkur þetta líka snjallræði að finna bara einhverja flotta mynd, taka hurðarhúninn af hurðinni og þekja hana með myndinni. og það gerðum við í gær. þetta er mynd af hinni undurfögru gail úr sin city, ég læt hana hér til hliðar svo þið vitið hvað ég er að tala um.
partý á eftir á snorranum en núna... hjálmar!

föstudagur

...og fólk er virkilega að láta það koma sér á óvart að karlmenn eru ENN með mun hærri laun en konur... hálfvitar! ég er viss um að gísli hafsteinn hafi verið með "bóner" þegar það voru teknar myndir af honum í konu-klæðnaði í þessari vr herferð gegn launamismunun kynjanna.
um það leyti í dag sem ég var við það að missa athyglina yfir lærdómnum hváðu við þvílíkar drunur hérna úti að ég hélt bara að endalokin væru komin. það hríslaðist um mig örlítill ótti og ég hugsaði að mig langaði ekki til að deyja á föstudegi af því að ég fæddist á föstudegi... smá fjölbreytni bara... og þangað til að ég heyrði fréttirnar núna klukkan sex var ég viss um að þetta hefði verið maðurinn sem er að "spreyja" vinnustaðinn hans ágústs að utan að fara offörum á "sprey" græjunum. en það var víst ekki, mér skilst að þetta hafi verið einhverjar skoskar þotur. algjör óþarfi samt að vera að hræða úr manni líftóruna svona rétt fyrir helgi.
ég gekk fram hjá hótel holti áðan í þungum þönkum og uppskar blístur frá þýskum ferðamönnum. ég skákaði og mátaði þá þegar ég snéri mér við og sendi þeim tóninn... á þýsku! loksins kom það sér vel að vera hálfur þjóðverji á öðrum vígstöðvum en í skipulagi og almennum "anal-isma".
núna er það bara lærdómurinn og ekkert annað, þannig er það nú bara ágúst minn... ég er t.d. búin að læra í allan dag af því að ég er ekki í skólanum á föstudögum, drekka te, keðjureykja og borða sælgæti og ég er bara nokkuð ánægð með sjálfa mig þó ég haldi ekki athygli á námsefninu lengur en í fimm klukkustundir í einu. það er nokkuð gott held ég bara, a.m.k. fyrir manneskju sem aldrei fyrr hefur lagt sig fram í námi. ösp er svo á leiðinni til okkar í þessum skrifuðu og við ætlum á charlie and the chocolate factory í kvöld og kannski drekka ögn af rauðvíni. en nú fer ég í sturtu, ég segi ykkur kannski eitthvað sniðugt á morgun...

þriðjudagur

ó gluð... ugh... uuuughh. át aftur beyglu og er við það að kasta upp núna, hef komist að því að beyglur eru þremur bitum of stórar. æli æl...
nýlunda í lífi tinnu er að hlakka til að fara í skólann, ég er alltaf með fiðrildi í mallanum fyrir hvern tíma og finnst ótrúlega gaman í skólanum nema þegar ég las grein eftir paul de man sem ég skildi bara eina setningu í og hún er sú að það er ekki hægt að rækta vínber með orðinu ljós svo ég leyfi mér að þýða beint. þetta hlýtur að vera góðs viti, þ.e. fiðrildin ekki paul de man. annars gerði það mig ögn jákvæðari þegar ég mætti í stefnur í bókmenntafræði í gær að það virtust fáir aðrir hafa skilið þennan texta og kennarinn úthúðaði okkur ekki fyrir það heldur útskýrði föðurlega. og ég er ekki mesti tossinn í áfanganum því stelpan sem sat við hliðina á mér dottaði fram á borðið og önnur fyrir framan mig eyddi öllum tímanum í að lesa blogg. en nú þarf ég að fara að vera dugleg að lesa. lesa lesa lesa í allan vetur. það verður ekki hangið á börum fram eftir öllu í flegnum kjólum með munnsöfnuð við ókunnuga graðhesta, fyrir utan að ég hangi sjaldan á börum fram eftir öllu en á það til að vera með munnsöfnuð við graðhesta og er svo sannnarlega oft í flegnum kjólum enda lítið annað í stöðunni að gera þegar manni eru færðar melónur framan á sig í gluðs gjöf. einu pásurnar sem teknar verða í vetur verða til að fara í sleik við örninn og borða seríós... og kaupa vetrarskó. djöfuls kattaróféti að pissa í skóna mína.

mánudagur

uppskrift að niðurlægingu:
ég vaknaði ofur-snemma til að fara upp á þjóðarbókhlöðu og læra sem ég og gerði. nema hvað að ég borða aldrei morgunmat af því að mér býður við mat á morgnana svo upp á bókhlöðu mætti ég ó-nærð og eftir u.þ.b. klukkutíma af námsbókalestri, athyglistbresti, kvíðakasti og vantrú á sjálfri mér og minni getu í skóla fóru garnirnar í mér að gaula eins og ég væri eþíópíubúi, það glumdi í allri þjóðarbókhlöðunni, garnirnar í tinnu. ég þraukaði þó og las það sem ég gat lesið á meðan ég kýldi sjálfa mig í magann og kyngdi tyggjói. samasem niðurlæging. ég hljóp svo heim og núna sit ég hér blaut í fæturna af því að ég á ekki peninga fyrir skóm og það pissaði eitthvert fress í vetrarskóna mína að borða brauð með malakoffi sem annars er hið ágætasta álegg að reyna að upphugsa leið til að kaupa þessar bækur sem ég á eftir að kaupa fyrir skólann. ef ég væri ekki svona yfir mig ástfangin og ætti besta kærasta í allri vetrarbrautinni væri lífið vonlaust.

sunnudagur

þunn tinna á sunnudegi. borðaði beyglu sem mig langar núna til að "skila" og er að horfa á sex & the city, vildi að ég ætti snakk og ótæpilegt magn af kóka kóla og sígarettum en sökum skólabókakaupa sem fóru fram úr öllu hófi er ég staurblönk. demitt!
opnunin gekk vel í gær þó að það hafi fæstir komið sem ég vonaðist til að sjá eins og t.d. mamma mín, en það er nú bara þannig. auk þess sem að ég hef aldrei verið jafn stressuð fyrir opnun áður en það er líklega af því að ég var feimin við að sýna nýja kærastanum mína listsköpun, einn eitt fyrsta skiptið sem er erfitt að komast yfir en verður strax betra þegar það er yfirstaðið. ég varð líka verulega tipsí sökum stressins og uppsker nú fyrir það. fórum svo í kveðjupartý til ara eldjárns, svo á ellefuna að hlusta á vin arnar spila og svo heim. og satt best að segja man ég ekkert voða skýrt eftir kvöldinu. æ fokkitt! nú er þetta komið gott enda er djamm-pásu-árstíðin gengin í garð, eða hún er svona u.þ.b. að gera það.
en nú ætla ég að halda áfram að vera þunn, get hvort sem er ekki hugsað um neitt annað.

föstudagur

sýningin okkar þuru opnar á morgun, laugardag kl. 17 í gallerí bananananas, laugavegi 80. allir koma!

þriðjudagur

kvaddi móu, arnar & ísold áðan, þau flytja á morgun út til berlínar. það var ótrúlega erfitt að segja bless, miklu erfiðara en ég hafði gert mér í hugarlund og ég þurfti að taka á öllu til að fara ekki að skæla, vesalingurinn og grenjuskjóðan sem ég er. dagurinn í dag er tileinkaður litlu fjölskyldunni.
er með hrikalegan kvíðahnút í maganum í dag, svona kvíðahnút sem fær mig til að óska þess að ég væri önnur manneskja, á öðrum stað á öðrum tíma. eða bara vera innan um fólk...
og skólinn byrjaði í gær, var eiginlega lítið búin að leiða hugann að því fyrr en á sunnudeginum. fannst það skynsamlegast með tilliti til þess að ég fæ kvíðaköst útaf öllu. ég vaknaði í gær með grjót í maganum sem breyttist í fjall eftir því sem leið á morguninn. það er samt, mér til mikillar ánægju orðið auðveldara að takast á við þessa litlu hluti sem öftruðu mér svo mikið hérna í denn. hvar væri ég án geðlæknisins? aftur á móti hrundi veröldin til grunna þegar ég mætti í skólann og það var búið að færa námskeiðið sem ég átti að vera í um stofu. það var sérlega erfitt að takast á við það og ég "beilaði" og fór þess í stað að kaupa skólabækur sem mér fannst réttlæta þetta fyrsta skróp mitt fullkomlega og komst að því að ég mun að öllum líkindum sleppa frekar vel fjárhagslega útúr bókakaupum, það mun líklega ekki vera meira en 15.000 krónur, kannski 20.000. er það ekki vel sloppið annars? eftir "hreinsaðu samviskuna" bókakaupin tókst mér að fara í seinasta tímann og þá var þetta unnið. þetta er eins og að sofa hjá einhverjum í fyrsta skipti eins og örninn minn segir, það er alltaf hálf lummó í fyrsta skipti en þegar að það er búið þá veit maður að næstu skipti verða betri. tíhí... mér finnst þetta góð samlíking hjá honum. ég fylltist eldmóði í tímanum og hlakkaði til að byrja að læra, þetta verður allt í lagi ef ég er dugleg að læra. og nú vantar mig skrifborð til að læra við.
ég þarf að fara... kannski finnst ykkur bull það sem ég er að skrifa, kannski finnst ykkur ég ganga of langt þegar ég skrifa um það sem er í sálinni hverju sinni. en kannski er einhverjum sem finnst það ekki og líður eins.

"þegar ljósin slokkna og þú sérð ekki neitt, gaktu þá á hljóð raddar minnar og ég leiði þig aftur í birtuna. þar get ég reynt að græða sár þín elsku engillinn minn..."

mánudagur

fyrsti skóladagurinn að kveldi komin. ég mun skrifa um hann á morgun, er enn að jafna mig... hér er samt toppurinn á ísjakanum: kvíðakast, skróp, bókakaup og konur með steyptar neglur og trúlofunarhringi.

föstudagur

ég gleymdi nú einum ansi hreint góðum fréttum... haldiði ekki að karlmennin (krúttisprengjurnar) mín í shadow parade muni spila á airwaves! það þýðir bara eitt fyrir mig og ösp: grúppíur!!!!
það er alveg eins og að það sé þriðjudagur í dag þó það sé föstudagur. mmmm... föstudagur. ég er að vinna í kvöld fyrir fiðrildið hana æsu og að því loknu, kl. 22 ætla ég heim í kotið að drekka rósavín og kannski pára aðeins meira í málverkið sem mér tókst að byrja á í gær, það lofar góðu. mér er mikið í mun um að vera hress á morgun og þ.a.l. verður kveldið í kvöld rólegt. það er kveðjupartý hjá móu & arnari annað kvöld sem eru að flytja til berlínar með krílið í næstu viku og þangað ætla ég að mæta í mínu fínasta pússi með galsa í hjartanu. hvert mætir maður ekki með galsa hjarta þegar það er frír bjór? bla bla bla... ég þarf að hugsa.

fimmtudagur

komum heim úr sveitinni í gær eftir 5 daga dvöl, það er ágætt að vera komin heim en ég hefði alveg gefið eins og eina tá til að vera lengur í svarfaðardalnum, á tjörn hjá yndislegu stelpunum.
ég er með sköpunarstíflu á mjög alvarlegu stigi og get ómögulega skrifað neitt hérna né málað á strigann sem starir í þessum skrifuðu orðum gapandi hvítur á mig, hann er eins og helvítið sem ég vona að ég vakni aldrei í. auk þess er ég orðin kvíðin fyrir skólann... ekki útaf lærdómnum, ekki skólanum sem slíkum heldur félagsfælninni sem krækir í hnakkadrambið á mér þegar ég þarf að fara á nýja staði þar sem er nýtt fólk. ég ætla að reyna að yfirstíga þetta... kannski best að vera bara full á mánudaginn, fyrsta daginn í skólanum eða í öllu svörtu og vona að enginn taki eftir mér. djöfullinn sjálfur að geta ekki verið "eðlilegur" einstaklingur á svona tímum, djöfullinn að eiga ekki litla púpu núna til að skríða inn í. engu að síður er best að halda svona hugarangri útaf fyrir sig og ef einhver spyr þá segi ég allt frábært.
ég ætla að fá lánaða eina ferskeytlu eftir káinn hingað á síðuna og tileinka hana öllu fólkinu sem ég hafði að einhverju ráði samneyti við þessa 5 daga í sveitinni, gyðjunum á tjörn, yndislegasta, besta, sætasta, besta, besta og besta kærastanum mínum sem ég elska útaf lífinu og sérstaklega litlu hagyrðingunum tveimur sem héldu fyrir mér ánægjulegri vöku á föstudagsnóttina með kveðskap:

síðan fyrst ég sá þig hér
sólskin þarf ég minna,
gegnum lífið lýsir mér
ljósið augna þinna.