laugardagur

góðann dag og komiði sæl.
jæja þá, dómurinn sá er fallinn. heitmaður minn seinustu tvö ár og 13 daga komst að því að í framtíð sinni væri ekki staður fyrir mig og ég er því formlega orðin einstök. mér finnst einstakur hljóma mun betur en einhleypur sérstaklega þar sem við búum í samfélagi sem gerir stöðuga kröfu um að vera á föstu og að vera einn sé eitthvað slæmt. mér hefur alltaf liðið vel einni, blessunarlega því ég þekki marga sem bara una sér alls ekki nema í sambandi. að vera sjálfum sér nægur er mikilvægt, þannig komum við í þennann heim og þannig munum við fara. en á þessum tímamótum finn´ég á sjálfri mér breytingu. eitthvað hefur breyst. ég er rólegri, finnst ég taka þessu að stakri prýði þó mér finnist þessi fyrrverandi hundshaus. þetta verður hér með eina fúkyrðið sem ég læt um hann flakka. svilkona mín, sem nú er fyrrverandi svilkona mín sagði mér í gær að hann væri að fjárfesta í slakri framtíð. því er ég hjartanlega sammála. ég var það besta sem að þessi maður mun nokkurn tímann finna og hana nú! ég ætla ekki að vera bitur. velkomin heim tintin!

ég vaknaði að sjálfsögðu eldsnemma í morgun. það er það sem gerist þegar maður þarf að vakna snemma alla virka morgna, hausinn á manni breytist í vekjaraklukku og svo þegar langþráð helgin loksins brestur á og ég sé rúmið og nóg af svefni í hyllingum vakna ég eins og klukka. það var sem sé 7:30. en þá kveikti ég bara á elsku rás 2, lagaði mér kaffi, reykti sígarettur og las moggann. það er gott. ég elska morgnana reyndar og hef aldrei verið mikið gefin fyrir að sofa langt fram eftir.

ég er að passa hérna íbúð og kött sem heitir eftir áleggi. hann er reyndar ekki kominn heim, örugglega á einhverju skralli blessaður. hann er skemmtilegur og misskilinn eins og ég. en íbúðin sem ég er að passa er einmitt íbúð míns fyrrverandi mágs og svilkonu. ég vona að þrátt fyrir það sem undan er á gengið muni þau alltaf hafa pláss fyrir mig í hjarta sínu. þau eru semsagt á hróaskeldu. og þá fór ég að hugsa, hvers vegna hætti ég alltaf með kærustum þegar allir eru í útlöndum? birta besta vinkona mín er líka í útlöndum og þar var hún líka seinast. ég verð að fara að haga þessum breiköppum betur. en bráðum kemur hún heim, reyndar eftir mánuð en tíminn er svo fljótur að líða, sjáiði bara, það er að koma júlí! hún er minn klettur í lífsins ólgusjó og aldrei mun neinn komast með tærnar þar sem hún hefur hælana í manngæsku. það tók mig reyndar nokkurn tíma að átta mig á henni en þegar ég gerði það varð ég fullviss um að hún er engill í konulíki. þið afsakið ef ég er með eindæmum dramatísk í dag en þið skiljið...

skítaflugur. skítaflugur er það nafn sem ég hef gefi einhverri tegund af flugum. þær eru ósköp skrýtnar. litlar og sveima ákaflega furðulega um, eins og þær standi kjurrar í loftinu. þær er hægt að finna mikið í kringum skítugar tuskur og örugglega líka hjá kúk.

þegar ég er að fletta mogganum er ekki hjá því komist að reka augun í minningargreinarnar. ég þekki ekki marga sem deyja og er því ekkert sérstaklega að skoða þær en stundum sé ég andlit sem ég þekki. ég er eins og fíll, ef ég sé manneskju einu sinni man ég eftir henni alltaf. ég lít samt ekki út eins og fíll. og í morgun var ég að labba fram hjá minningargreinunum þegar ég sá konuandlit sem ég þekkti. einhver kona sem ég hef oft séð niðri í bæ en þekkti ekkert. þetta er pínu sorglegt en samt meira skrýtið. skrýtið að deyja og skrýtið að manns 15 mínútna frægð sé mynd af manni í mogganum þegar maður er dáinn.

ég er ekki mikið fyrir sjálfshjálparbækur eins og þær nefnast. ég hef all oft reynt við nokkrar slíkar og þótt þær voða sniðugar en um leið og ég loka þeim aftur gleymi ég allri viskunni sem átti að færa mér hugarró og sálarfrið. en nú hef ég fundið eina alveg frábæra. ég held reyndar að hún sé ekki titluð sjálfshjálparbók sem betur fer eiginlega, mér finnst eitthvað svo húsmóðurlegt við þann titil. hún heitir "láttu ekki smámálin ergja þig" eftir einhvern rosa klárann mann. ég mæli með þessari lesningu við alla. mjög aðgengileg og hún opnar svo sannarleg augun.

nenni ekki meir. veriði bless.

Engin ummæli: