fimmtudagur

það er opið hús og bazar og kaffihús á leikskólanum á morgun þar sem við erum að reyna að safna pening til að fjármagna væntanlega skotlandsferð næsta vor... var það ekki annars skotland? mitt framlag á bazarnum er pestó til að selja sem ég gerði með öspinni minni og annari stúlku eftir vinnu í dag. eða ég kom lítið sem ekkert nálægt sjálfri pestógerðinni sem ég sá eftir þetta kvöld að er ákaflega lítið mál... ég sá um að gera pestókrukkurnar krúttilegar með gamaldags sultuloks-klæðum og svo þurfti ég reglulega að endurræsa matvinnsluvélina sem öspinni tókst alltaf að brenna út með reglulegu millibili... mikill ákafi í pestógerðinni.

þriðjudagur

ég er eitthvað svo full af endorfíni þessa stundina... átti gæðastund með tölvunni og heyrnatólum uppí rúmi áðan, platónskt að öllu leyti. mikið er ég hrifin af tónlist og mikið gerir tónlist mig glaða. maður væri eyland án eyra, um það er ég sannfærð. og nú er ég komin með doldið jóla-kitl í mallann sem gerir mig enn sælli. næstu helgi ætlum vér hjón að gera létta jólahreingerningu og svo býst ég við að það falli mér í skaut að skreyta og öðruvísi held ég að ég vildi ekki hafa það. það má svo vel vera að ég föndri jólakortin, hver veit. mikið er gaman að vera orðin svona afslöppuð yfir jólunum... ég flýt um á bleiku skýi.

mánudagur

tekið af www.theblackandwhitemag.com:

Shadow Parade
Dubious Intentions LP
(2006, Self Release)
Rating: 8.7

Without trying to overgeneralize, Icelandic band Shadow Parade mixes the gloomy atmospheres of Sigur Ros with the moody arrangements of Radiohead on their Dubious Intentions LP. Guitars hum, float and linger, and drums strike in a deathly dirge, providing a base for the band to work their darkened magic. "Gravity Song" opens the album at a slow pace, and the context for the album is in place. This isn't a slow-core record, but grave introspections are rarely set to a speedy backdrop, and Shadow Parade clearly understand their objective, and every note on this album seems to contribute to the whole. Vocalist Beggi Dan channels Thom Yorke effortlessly, and at the risk of making Shadow Parade out to be some Radiohead rip-off band (which they're certainly not), if you're longing for the follow-up to Hail To The Thief, I'd recommend buying Dubious Intentions. "Dead Man's Hand" lets loose on guitar riffs and vocal howling...yes, this certainly is a rocknroll album. The snail-pace of "Suicide Sing-A-Long" is chilling and creepy, filling the air with minor note keyboards. Shadow Parade sound very comfortable with mellow songs that noodle guitar lines, dance on cymbols, and provide a soft and dreary context for eerie falsettos. What is it about Iceland that seems so perfect for atmospheric art-pop? Whatever it is, it's just a short matter of time until you'll hear Shadow Parade's name mentioned with the likes of Bjork and Sigur Ros. The artistry is already there...so your job is to order the record and show it off to all your hipster friends. Albums this great shouldn't be secrets. Play it loud on rainy and snowy days. I love it!

fokk it! ég sagði ykkur það...

mánudagurinn kom og mánudagurinn leið... ég held mér sé hætt að finnast mánudagar eitthvað mikið verri en aðrir dagar. veit ekki af hvaða þroskaskeiði það er partur en þetta er svona svipað og þegar maður er að venjast því að borða ólífur.

ég hresstist heilmikið við að fara í vinnuna, ónæmiskerfið farið að sakna græna horsins. annars held ég að útiveran hafi gert mér best, það hreinsaði lungun og hleypti lífi í blóðið. og gaman að hitta krakkana aftur. ég neita því ekki að manni er farið að þykja ansi vænt um þau... stundum þegar ég þarf eitthvað að ávíta þau þarf ég að halda hlátrinum í mér, þau eru alltaf svo fyndin, alltaf. og algjör krútt! þau gleðja mig ótrúlega...

ég sakna dimmalimm doldið núna, veit ekki afhverju. mér finnst ég stundum enn heyra í bjöllunni hennar fyrir utan gluggan sem hljómar einsog slepja úr amerískri kvikmynd. og ég er jafnvel stundum ómeðvitað að svipast um eftir henni þegar ég er úti einsog eitthvað inní mér sé enn ekki búið að meðtaka að hún sé farin. kjánalegt líklega... ég spyr sjálfa mig alveg að því hvernig sé hægt að elska kött og ketti svona mikið en svo er ég þakklát fyrir að allavega geta elskað, hvort sé það köttur eða mús. það er svosum ekki sjálfgefin tilfinning og blessunarlega kvótafrí svo maður getur sólundað henni hirst og her, því meira því betra. afhverju þá ekki í ketti líka? ég elskaði dimmalimm afskaplega mikið og geri enn og ég þarf tíma til að syrgja hana.

þetta átti nú ekki að verða neitt þunglyndislegt í lokin því ég er að öllu öðru leyti fremur kát.

sunnudagur


þá sjaldan hef ég fengið jafn slæma flensu... ég er búin að vera veik í viku og ég hugði sjálfri mér vart líf fyrir nokkrum dögum, svo slæmt var það. en nú er þetta allt að koma vona ég, þó ég myndi líklega vera heima í tvo daga í viðbót ef ég færi ekki að gubba blóði af samviskubiti útaf vinnunni... ég gerði mér jafnframt grein fyrir því að ef ég borgaði ekki erninum mínum fyrir að vera maðurinn minn myndi ég líklega geta legið dáin og rotnandi í íbúðinni minni án þess að mín væri saknað í allavega einhverjar vikur... að svo gefnu að ég væri atvinnulaus og þyrfti ekki að svara til vinnu. og mikið óskaplega þætti mér ágætt ef það væru fundnar upp einhverjar aðrar aðferðir en að snýta sér til að ná gumsinu útúr nefinu í veikindum... mér býður við snýtingum.
ég hef ekki séð svona mikinn snjó í reykjavík í háa herrans tíð en mér líkar það vel enda er ég mikið snjóbarn... snjóbarnið tinnbert. doldið jóló...

annars er skemmst frá því að segja að ég er andskotans aftur orðin lasin! mér finnst þó þessi pest vera ívið verri en sú fyrir þremur vikum síðan enda náði ég mér ekki alveg af henni. og ég sem et c-vítamín á hverjum einasta degi og gott betur þar sem ég er diggur neytandi ribena safans sem er uppfullur af c-vítamíni. ég bið bara til gluðs að þetta verði gengið yfir á morgun því ég vil síður vera hóstandi yfir litlu krílin á leikskólanum, samstarfsfólk meðtalið.

en tónleikarnir í gær fóru fram úr mínum björtustu vonum... og ég sem var búin að vera í kvíðakasti yfir þeim síðan ég veit ekki hvenær. skuggaprinsarnir voru dásamlegir og ég lýg því ekki þegar ég segi að ég hef aldrei séð þá betri. það var pakkstappað af fólki og vel og mikið klappað og ég fylltist stolti og gleði í hjartanu yfir því að sjá þessa snillinga metna að verðleikum. allir í bandinu voru óaðfinnanlegir í spilamennskunni og söngnum og prinsinn minn bar af... hann er mesta karlmenni sem ég veit. ég elska örninn minn og shadow parade meira en súkkulaði!

laugardagur


þá er komið að því! útgáfutónleikar shadow parade verða haldnir í kveld í tjarnarbíói... húsið opnar kl. 21.30 en tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22 og mun þá hinn margrómaði og hæfileikaríki pétur ben sjá um upphitun fyrir skuggaprinsana. það kostar 1000 krónur inn og eftir þeim litla aur munuð þið ekki sjá... ég ábyrgist það. auk þess verð ég þarna prúðbúin í kjól svo það er bara auka plús fyrir ykkur ef og þið skuluð mæta... ég hlakka svo til. hjartað berst um í brjóstinu...

mánudagur

senn líður að jólum... 40 dagar ef við erum nákvæm. og undur og stórmerki hafa átt sér stað í of-troðna hausnum mínum... ég fór ekki að hugsa um jólin fyrr en um helgina nýliðnu. þetta er alger nýjung hjá mér því ég er venjulega farin að hugsa um, hlakka til og plana jólin í september og myndi líklega byrja í ágúst ef ég yrði ekki lokuð inni fyrir það. hvað er að gerast? ég nenni svosum ekkert að vera að amast yfir því, þetta er líklega hin besta þróun en nú er ég samt allt í einu orðin eitthvað stressuð yfir því að vera ekki búin að taka myndir fyrir jólakortið... það er sko planið, að hafa ljósmynd á öllum jólakortunum þetta árið. æ fokkit! ég er svosum með allt á hreinu og veit hvað ég ætla mér, það þarf ekki annað í bili. nú svo munum við hjónin eyða hátíð ljóssins í faðmi tengdafjölskyldunnar í svarfaðardalnum fagra og ég hlakka mikið til þess. ég ímynda mér að þar sé afar friðsælt á aðfangadag og þar sem mér lyndir ákaflega vel við tengdafólkið mitt og enn betur við manninn minn get ég ekki ímyndað mér annað en að þetta verði allt saman hin dásamlegasta upplifun.

ég nenni heldur ekki að gera óskalista, ég á og hef allt sem ég þarf. nema kannski útivistarföt fyrir vinnuna og heimsfrið, en maður vælir víst ekki um slíkt í jólagjöf nema kannski hjá mömmu sinni og forsjóninni. ég hef nefnilega komist að því að dömulegur klæðaburður minn sem ég neita að breyta bara af því að ég vinn á barnaheimili er kannski ekki alveg málið þegar kemur að útiveru. ég get alveg verið í pilsi og bol inni, allt í lagi með það en svo á ég ekkert rétt föt fyrir svona útiveru. ég er bara alltaf í pelsinum og hef verið í úti síðan ég byrjaði... það halda örugglega allir að ég sé alger plebbi. en það er eina virkilega hlýja yfirhöfnin mín og mér leiðist að vera með stöðugar áhyggjur af því að það sé grænn hor að klínast í pelsinn minn, svoleiðis bara gengur ekki. og auk þess er mér alltaf hrollkalt á leggjunum sem blaðka um í engu nema nælonsokkabuxum. brrrrrrrrr... mig langar doldið í svona flís-buxur, ansi sniðugt fyrirbæri. svo væri ekki verra að eignast góða úlpu, útivistarbuxur og kannski flíspeysu. mig hefur lengi langað í svoleiðis og ég held að ég sé ein af mjög fáum á íslandi sem ekki á flíspeysu. það virðist enginn vera maður með mönnum nema hann eigi flíspeysu, helst í öllum litum regnbogans. hvernig haldiði að mér líði? en þær eru auk þess fjandi hlýjar og af einhverjum ástæðum er reynt að komast hjá því að kveikja á ofnum á leikskólum og allir gluggar eiga hels alltaf að vera opnir. það hefur líklega með það að gera sem ég minntist á um daginn um það hvernig börnin þurfa endilega alltaf að gera allt á hlaupum... þeim verður örugglega bara svo heitt litlu skinnunum.

sunnudagur

lag dagsins hérna á kirsuberinu er golden brown með the stranglers.

fimmtudagur

jeminn... ed bradley dáinn!?!? ég vissi ekki einu sinni að hann væri veikur... andskotans ég! ég gleymi aldrei eyrnalokknum hans...

miðvikudagur


hæ... best að skella einhverju hérna inn fyrst það liggur svona ljómandi vel á mér.

allt gengur sinn vanagang hér, eða eins nálægt vanagangi og líf mitt getur verið. örninn minn og skuggaprinsarnir æfa eins og óðir fyrir útgáfutónleikana sem verða þann 18. nóvember í tjarnarbíói og mér líður eins og hálfri grasekkju. það er þó lágt gjald að greiða fyrir að vera vitni að þessari snilld sem þeir drengir skapa með hljóðfærunum sínum og ég get vart beðið eftir tónleikunum. þið ættuð að gera slíkt hið sama... leikskólinn er ennþá frábær, þetta er alveg magnað. mér finnst ég vera virkilega heppin stúlka... börnin eru líka frábær, börnin eru alveg mögnuð. og ég er að kynnsat nýrri hlið á sjálfri mér, mömmuhliðinni... eða allavega einhverri svona ákveðnari og strangari og ábyrgari hlið. og ég lýg ekki en sú hlið hefur aðra rödd en mitt fagra sjálf... laus við allt náttúrulega helíumið og dynur næstum eins og þruma úr heiðskýru lofti. ég sé það í andlitunum á börnunum þegar ég þarf að nota hana, þegar þau eru doldið komin yfir strikið og eru hlaupandi og organdi um allt og allt er í lausu lofti og ég er búin að æpa nokkrum sinnum með "venjulegu" röddinni. þá tek ég fram þrumuröddina... og það er eins og við manninn mælt, það dettur dúnalogn á "pleisið". en svipurinn og á börnunum lætur mig alltaf fá samviskubit og mig langar bara til að segja: "nei, djóóóóók börnin góð. haldiði áfram!". þau eru svona næstum eins og hrædd á svipinn eða svona hissa að maður skuli vera og gera svona og það fer alveg með mig. en ég held það út og stundum er þetta bara það eina sem virkar. þau eru líka mörg hver ótrúlega skörp og ég er stundum, næstum í vafa um hvort ég sé virkilega að tala við barn. en svo gera þau hluti eins og í dag... það snjóaði fimm snjókornum og þegar við fórum út eftir hádegishvíldina ærðust öll börnin og hlupu í hringi og lögðust svo flöt á jörðina með andlitið á grúfu og sleiktu jörðina. sumir lágu svona í alveg hálftíma... sleikjandi jörðina eins og ég veit ekki hvað og það var engu tauti fyrir þau komið. það minnir mann aftur á að þetta er "bara" börn. en alveg einstök engu að síður...

ekki meir í bili. hafið það gott. blex.

laugardagur

og svo það sé á hreinu hjá öllum þá er platan komin í verslanir...

föstudagur


How do I love thee? Let me count the ways.
I love thee to the depth and breadth and height
My soul can reach, when feeling out of sight
For the ends of being and ideal grace.
I love thee to the level of every day's
Most quiet need, by sun and candle-light.
I love thee freely, as men strive for right.
I love thee purely, as they turn from praise.
I love thee with the passion put to use
In my old griefs, and with my childhood's faith.
I love thee with a love I seemed to lose
With my lost saints. I love thee with the breath,
Smiles, tears, of all my life; and, if God choose,
I shall but love thee better after death.

Elizabeth Barrett Browning
mikið er mér alltaf létt þegar ég er búin að borga alla reikningana... eins og núna. nema hvað að laun okkar beggja nægja akkúrat fyrir reikningunum og tæplega það og þá er nú eftir úr litlu að moða skal ég segja ykkur. hafragrautur út þennan mánuð!

miðvikudagur


prump... ég nenni eiginlega ekki að blogga lengur.

en allavega samt... ég er komin með flensu og að því er virðist óstjórnlegan hnerra sem lýsir sér svo að ég má vart vera í birtu þá fer mig að klægja óskaplega í nefið sem endar svo með einhverri maraþon hnerra-rassíu. ég hnerra samt geggjað krúttilega... það segir erna allavega. ég er nú ekki gæfuleg... ekki búin að vinna á leikskólanum í mánuð og strax komin með flensu... og hún er búin að vera u.þ.b. tvær vikur að gera sig tilbúna, eða ég er búin að finna fyrir ýmsum flensu-einkennum s.l. tvær vikur. það var reyndar búið að vara mig við þessu og segja mér að við væri að búast að maður yrði doldið lasinn svona fyrst þegar maður byrjaði að vinna á leikskólum. ætli það sé ekki græni horinn úr börnunum sem þau eru að klína í mann daginn út og inn... skiptir engu! þetta er ekkert alvarlegt, ég er aldrei lengi að jafna mig á svona smá-flensum. ég verð heima á morgun og næ hitanum úr mér og svo mæti ég hress á föstudaginn. allt í góðu... mér finnst samt dulítið merkilegt að ég var líka með flensu fyrir akkúrat ári síðan. ótrúlegt!

flensa... undarlegt orð. tinnuflensa: þurr hósti, nefrennsli, líkams- og augnverkir og hiti (aldrei þó mikill. veit ekki hvort það er gott eða vont). sérstaklega pirrandi eru líkams- og augnverkirnir... líkaminn er eins og útúrstunginn nálapúði, allur viðkvæmur fyrir snertingu og svo er mér heitt í augunum og finnst eins og þau séu að hrynja úr tóftunum á mér. eða frekar að poppa úr tóftunum á mér...

ég vildi að maður fengi svona samræmanlega flensu með manninum sínum... það er leiðinlegt að vera ein veik.

en bara svo þið vitið þá finnst mér frábært í vinnunni. ég er búin að ná öllu um 95% og það gengur vel þó ég hafi verið með nagandi samviskubit í fyrstu yfir því að þurfa iðulega að vera að brýna raustina á börnin. það er næstum ógerningur að fá þau öll til að hlýða og þegja á sama tíma. og svo hafa þau einstaklega mikla "tendensa" til að þurfa endilega að gera allt hlaupandi. þau eru alltaf hlaupandi... afhverju börn þurfa að flýta sér svona mikið skil ég ekki. en þau eru dásamleg... ótrúlega skemmtileg og merkileg og hlý og góð. og dagarnir þarna líða alveg yfirgengilega hratt... ég er svo mikið barn sjálf að mér líður bara eins og ég sé á leikskóla... sem er örugglega bara gott en ekki merki um að ég sé þroskaheft.

annars byrjaði það að læðast að mér fyrir nokkrum dögum þetta með að fullorðnast. ég er ekki viss um að ég sé tilbúin...