sunnudagur

þá er seinasti dagur þessa árs runninn upp og ég vil óska ykkur ánægju, hreysti og hamingju á því næsta, takk fyrir samfylgdina á þessu. ég hef enga sérstaka ánægju af áramótum og ég sé ekkert athyglivert eða hressandi við að það sé að koma nýtt ár, þannig er það hvort eð er alltaf. ég reyndi að rifja upp eitthvað sem ég hef afrekað á þessu ári í svefnrofunum í nótt og mér kom ekkert til hugar nema að nú er ég farin að geta gengið um berrössuð, þ.e. innan veggja heimilisins og bara fyrir framan örninn minn og skaða. mig minnir nefnilega að fyrir u.þ.b. tveimur árum hafi ég einmitt verið hér ritandi um tilraunir mínar til að sætast við líkamann minn og geta gengið um nakin án þess að fyllast viðbjóði og fyrirlitningu á sjálfri mér... en það get ég nú svo hér með sannast eitt... mér er að miða eitthvað áfram! ykkur finnst þetta máske ekkert merkilegt en það er það fyrir mér því þó hann sé lítill þá er árangurinn einhver... húrra fyrir tinnberti!!!

hér er svo "best of kirsuber 2006" listinn, lögin sem tengjast lífi mínu á einn eða annan hátt og meira en önnur á þessu ári sem senn líður:

1. Rumble - Link Wray & His Ray Men
2. Supermassive Black Hole - Muse
3. The Funeral - Band of Horses
4. Strange Fruit - Billy Holiday
5. Girl Is On My Mind - The Black Keys
6. Simple Twist Of Fate - Bob Dylan
7. For a lifetime - Blue States
8. Spanish Caravan - Doors
9. I Want You So Hard (Boy's Bad News) - Eagles of Death Metal
10. At Last - Etta James
11. Ooh La La - Goldfrapp
12. This Side of the Blue - Joanna Newsom
13. Hurt - Johnny Cash
14. Old Fashion Morphine - Jolie Holland
15. I Can't Quit You Baby - Led zeppelin
16. Christmas Card From a Hooker - Tom Waits
17. Turn Into - Yeah Yeah Yeahs
18. Philadelphia - Neil Young
19. Sweet Caroline - Neil Diamond
20. I'm Your Man - Leonard Cohen
21. Pass It On - Shadow Parade (besta band íslands!!!)

hafið það gott í kveld og gleðilegt nýtt ár.

föstudagur



örninn minn og auga... augað mitt og örn.

miðvikudagur

james brown er dáin... mikið finnst mér það skrýtið. ekki skrýtið svosum að hann sé dáin bara skrýtið þegar einhver svona frægur deyr. ég get ekki að því gert að halda frægt fólk nánast ódrepandi, svona frægt fólk allavega.

mánudagur

djöfulli er ég þunglynd, ég er það reyndar mjög oft en ég hélt kannski að ég fengi frí fyrst það eru jól... en svo er ekki. ég fékk þó dásamlegar jólagjafir í gær og svo margar að mig rekur ekki í minni að svona hafi það verið síðan ég var barn, það gladdi mig... altsvo bæði gjafirnar og hve fallega fólk hugsar til mín og velur vel handa mér. ég kann svo að meta það... ég vildi bara að ég gæti verið glöð því inní mér veit ég að ég hef allar ástæður til þess, en það plaga mig svo margir púkar og mér reynist erfitt að reka þá í burtu og rétt fyrir jólin bættist enn einn við sem vegur hvað þyngst. nenni ekki að dedúa um það enda er það, ótrúlegt en satt of persónulegt til að ég skrifi um það hér. ég vona samt af öllu hjarta að þið hafið það gott og hafið fram að þessu etið á ykkur gat.

laugardagur

gleðileg jól.

miðvikudagur

það er doldið mikið að gera núna en ég skelli inn jólaávarpi og "best of kirsuber 2006" lagalistanum fyrir norðurförina sem er áætluð eldsnemma á þorláksmessumorgunn. þ.e. ef veður leyfir, mér skilst að fjandinn muni ganga laus um allt land veðurfarslega séð þann dag. ég vona ekki, mér er meinilla við að sitja í bílum í vondum veðrum eftir bílslysið þarna í denn, gott ef það eru ekki 10 ár síðan. en við vonum það besta og örninn minn er auk þess öruggasti ökumaður sem ég veit um, þetta ætti að verða í lagi. annars verðum við ösp bara skælandi í handakrikanum á hvor annarri... ég er annars eiginlega búin að öllu fyrir jólin nema að skrifa jólakort til bræðra minna og kaupa jólagjöfina hans össa. ég lýk því í kveld... lifið heil í bili!

mánudagur


öspin litla hlær...

sunnudagur


dásamlegur morgunn... snjómugga og hálfrökkur úti, jólalög í útvarpinu, heitt te og morgunrettan og eftir stutta stund vek ég örninn minn svo við getum klárað jólagjafakaupin og átt huggulegan tinnu&arnar-dag. ég segi eins og kata systir og þrátt fyrir sumt... svona ætti lífið að vera þegar það er verst. mikið er ég í væmnu og fallegu jólaskapi í dag... ég vona að þið hafið það líka gott.

föstudagur

vei! við pöntuðum okkur pítsu í kveldmat... við fengum það nefnilega út að við ættum það skilið þar sem að síðan ég byrjaði að vinna á leikskólanum fæ ég alltaf frían heitan mat í hádeginu og þ.a.l. erum við að spara 200-400 krónur á degi hverjum sem ég annars hefði þurft að eyða í hádegisæti þegar ég var að vinna í eymó. við eigum alveg nokkrar pítsur inni... hvað er ég að halda því fram að ég sé ekki jákvæð?
fyrsta "boðorðið" af geðorðunum 10 sem ég les samviskusamlega á hverjum morgni er: "Hugsaðu jákvætt, það er léttara". mér er nú bara andskotans spurn hvar maður lærir það! þegar maður er þunglyndur er manni bara ekki sjálfrátt í neikvæðninni... ég þarf að læra einhverja geggjaða aðferð til að vera jákvæð. stundum hlusta ég á bítlana og les myndasögur til að verða jákvæðari en það er bara tímabundið ástand, um leið og raunveruleikinn knýr að dyrum á ný þá brýst þessi neikvæðni aftur út. hmmmm... ég ætla að búa til bleika sósu með reyktu ýsunni.

miðvikudagur

ég veit ekki hvort það er góð eða slæm aðferð en ef maður hugsar ekki um hlutina gera þeir mann síður dapran og þannig kemst maður í gegnum leiðindi. ágætt líka að vera í vinnunni, þá hef ég enn síður tíma til að hugsa um og syrgja krílið. svo er líka módelkveld í kveld, ég á von á nokkrum fögrum fljóðum og ein ætlar m.a.s. að mæta með ostaköku. vesalings örninn minn... og þó. það væsir ekki um hann í þvílíku kvennafansi.

mánudagur

ég skil ekki afhverju okkur eru gefnar tilfinningar til að elska út fyrir okkar tegund, er ekki næg sorgin sem við þurfum að ganga í gegnum þegar mannanna börn deyja? en kannski er það bara ég sem er svona óeðlileg að elska dýrin mín svona mikið, allavega var ég ávítuð fyrir það í morgun og sagt að "taka mig taki". ég sé reyndar ekki hvað er rangt við það að syrgja hvítvoðung af kattakyni en ekki erum við öll steypt í sama mótið blessunarlega og erum hverju öðru ólíkara og auk þess hlýtur það að spila eitthvað inní að ég er eins og ég er, með alla mína galla og bresti. litla krílið hafði það ekki af... ég get ekki skrifað um það, mig langar ekki til að gráta meir enda er svosum lítið um þetta að segja, svona er þetta víst er mér sagt. ég vorkenni bara aðallega skaða sem leitar um alla íbúð skælandi eftir barninu sínu, kannski erfiðast að takast á við það. ég vildi bara að ég gæti sett inn myndirnar sem ég náði af anganum á lífi en eins og flest annað er síminn líka andvígur mér og mér tekst ekki að koma myndunum úr honum og í tölvuna. ég skil ekki þetta líf, ég skil ekki útá hvað það gengur.

* siríus eldjárn *
* f. 8. des. 2006 - d. 10. des. 2006 *

svo lítil og sæt með einstakt munstur í andlitinu. þú sofnaðir í lófanum á mér, einum lófa því þú varst svo smá. ég vildi að ég hefði haft kraftana til að halda í þér lífi, ég skil ekki afhverju þú varst tekin en ég verð að trúa því að þú sért á góðum og hlýjum stað núna með fullt af mjólk. litli engill...

fimmtudagur

fimmtudagar eru leiðinlegir sjónvarpsdagar... það er yfir höfuð aldrei neitt í sjónvarpinu nema bandarískir spennuþættir með einhleypum gúmmítöffara-lögreglustjórum og ljóshærðum samstarfskonum sem breima utan í öllu sem inniheldur testósterón. nema ANTM kannski... svo mér datt í hug að glugga í bækur sem ég á enn eftir ólesnar eða öllu heldur teiknimyndasögubækur sem ég skrifaði á mig eftir að fyrrverandi samstarfskona mín í eymó fól mér það verk að skipuleggja og taka til í teiknimyndasögunum rétt áður en ég hætti. ég varð 7.500 kr. fátækari en fjórum teiknimyndasögum ríkari. reyndar hafði mig lengt eftir þeim um nokkurt skeið og ég læt mig það litlu varða þó peningarnir fari í bækur eða tónlist, það er leyfilegt.

við ætlum að kaupa jólagjafir um helgina og ég dauð-kvíði því því við þurfum í kringluna. ég er handviss um að kringlan sé byggð á gömlum indíána-grafreit því fjandinn hafi það, "væbarnir" þarna eru hrikalegir.
djöfuls elítu-eltingarleikur er alltaf í gangi í þessu landi! helvítis ísl. tónlistaverðlaunin láta fólk borga til að fá að vera tilnefnt og velja svo bara einhverja plebba sem selja tónlistina sína til eimskip og sjóvá og fólk eins og bo halldórs sem allir eru komnir með leið á... já, það má sko svo sannarlega finna hæfileikana í því! og með fullri virðingu fyrir fyrrverandi kærastanum mínum sem mér þykir óskaplega vænt um þá þykja mér ghostdigital ekki vera að spila neitt sérlega hlustunarvæna og vel gerða tónlist... ekki nema fólk kunni við að það blæði úr eyrunum á þeim. afsakið... ég er óskaplega reið yfir þessu helvíti. toppið þetta og tilnefnið björk líka hallæris-lið!

miðvikudagur


það er "burger"- og módelkveld með tjarnar-systkinum í kveld... ég reyni að sporðrenna einum vel steiktum ef mér tekst. matarlistin hefur yfirgefið mig enn eina ferðina en ég held það sé frekar útaf jóla-kitli en einhverju öðru. ég ætla að gera "to do list" yfir það sem ég á eftir fyrir jólin (sem er nokkurn vegin allt) til að halda ró minni.

á föstudaginn förum við á jólatónleika til að hlýða á öspina litlu þenja sín "angelísku" raddbönd. ef það væri nú snjór í höfuðborginni væri þetta fullkomin blanda af jólaskapi myndi ég ætla.

ég hef annars ekkert að segja, ekki sem ég nenni að eyða tíma í að rita niður enda er ég líka í vinnunni... ég myndi mest vilja kúra undir sæng í handakrikanum á erninum mínum akkúrat þessa stundina, kitla í skeggið hans og brosa að lífinu.

sunnudagur

mér tókst að drepa ryksuguna okkar í tiltektarlátunum í gær... sem betur fer er hægt að fá ágætis ryksugur í kringum 5000 kall en meira dettur mér ekki í hug að eyða í þetta leiðindar heimilistæki. en það er allavega orðið hreint hjá okkur, glansandi fínt. verst að ég nenni ómögulega að skreyta né gera jólakort eða almennt að hugsa um jólin en það er nú bara 3. des...