þriðjudagur

hvað ætli maður sjóði rófur lengi...

mánudagur

og nú hefst hið daglega stríð... svona er þetta búið að vera s.l. vikur eftir að ég byrjaði á nýju lundarlyftunni. um kl. 14:30 á hverjum einasta fjárans degi fer ég að þreytast alveg óskaplega og næ varla andanum fyrir geispum. og svo þarf ég að berjast af öllum mætti við löngunina til að leggjast uppí yndislega og góða rúmið okkar. þetta er svo erfitt að þið getið ekki ímyndað ykkur það, sérstaklega þegar ég læt undan og ekki kalla mig aumingja því þið vitið ekki hvernig þetta er, þá sofna ég í 2-3 tíma, missi af skólanum og deginum og eyði öllu kvöldinu í samviskubiti og vonleysi. ég held samt að mér takist að sigrast á þessu í dag en það gerir það líklega að verkum að ég sofna í tímanum á eftir. en ég mæti þó allavega...
p.s. við keyptum okkur líka miða á tónleikana sem að joanna newsom heldur hérna 18. maí n.k. doldið langt þangað til en ég get ekki beðið, veit reyndar ekki alveg með þetta að hafa alla tónleika núorðið í fríkirkjunni en það verður örugglega frábært. kannski vill hún stofna með mér félag fyrir fólk sem talar eins og strumpar eða aðrar teiknimyndapersónur... svo er örninn minn eitthvað að halda því fram að joan baez sé að koma hingað. þá förum við líka á hana auðvitað...

jæja, hvað er að frétta? nú, það er bolludagur og ég er ágætlega hress, ekkert ofur en samt hressari en undanfarið, það fór að vísa uppá við í gær. og úr því að það er þessi annars ágæti dagur ætla ég að sjálfsögðu að gera kjötbollurnar frægu í kvöld og áðan rölti ég útí bakarí til að kaupa bolludags-bollur. ég rétt náði að vera á undan skrækrómuðu (ekki eins og ég heldur eins og mútur hljóma) unglinga-hersingunni úr MR og kvennó og missti mig algjörlega... ég er nefnilega voðalega lítið fyrir sætabrauð, kaupi mér aldrei neitt í bakaríum sem hefur glassúr eða klístur á sér en bolludagsbollurnar eru annað mál. mér finnast þær kannski ekkert sérstaklega góðar en þær eru allar svo fallegar og girnilegar, ég vildi bara óska að það væri hægt að kaupa mini-bollur. svona sem væru bara í munnbitastærð, það væri dásamlegt fyrir fólk eins og mig. en eins og ég sagði þá missti ég mig og keypti sjö bollur. 7 bollur!!! ég held ég hafi keypt eina af öllu, eða næstum því. ég stóðst ekki mátið og þetta var nú ekki svo dýrt. nema hvað að nú erum við bara tvö í kotinu og borðum bæði eins og eþíópíu-búar svo ég veit ekki hvernig þetta á eftir að enda. líklegast á sjúkrahúsi. en hvað um það...

örninn minn kom að vestan í gær og það gladdi mitt litla og viðkvæma hjarta yfirgengilega þrátt fyrir að blessuð pysjan hafi aðeins verið í burtu í einn dag. við erum ástfangin, það þarf ekkert að afsaka. eftir vinnuna mína sem mér tókst að fara í án þess að fá kvíða- og grátkast splæstum við í pítsu og leigðum ally mcbeal sem er nýja æðið á heimilinu. veit samt ekki hvort ég megi segja frá því útaf einhverri homma-fóbíu...

sem innanbúðarmaður eða hjásvæfa, bæði virkar hef ég fengið að vera þeirrar gæfu aðnjótandi að heyra semi-lokaútkomur á lögum væntanlegrar breiðskífu þeirra yndis-pilta í shadow parade og fjandinn fjandinn fjandinn hafi það! þetta er ótrúlegt... þeir eru alveg magnaðir. margir kunna að halda núna að þetta sé ég eingöngu að segja sem hliðholl ástkona en svo er ekki, ég hef hið ágætasta tónlistarvit þó ég segi svo sjálf og ég er að segja ykkur það núna að þetta er GOOD STUFF! þetta er eðal, alveg hreint... ég er óskaplega stolt af þeim litlu krílum.

öspin birtist hér í mýflugu mynd á fimmtudag og var horfin aftur með sólarupprásinni á laugardag. hef ákveðið að boða hana í stelpu-stuð helgina eftir afmæli vort...

við örninn stefnum nú á að afla nægilega miklu fé til að komast til amsterdam í byrjun ágústmánaðar í rómantíska sumar/afslöppunar ferð. svo vongóð erum við um að komast að í gær greiddum við staðfestingargjald fyrir gistingu á alveg hreint dásamlegu hosteli sem ég rambaði á á veraldarvefnum. þar eru herbergin hjólhýsi, sumsé hvert herbergi er eitt hjólhýsi og alveg hræ-ódýrt eða þannig... ég er sko búin að vera athuga þetta undanfarið og ég er alveg gáttuð á verðlaginu á gisti-stöðum í heiminum. hostelið sem ég fann er m.a.s. það eina í þessum verðflokki, viðráðanlega verðflokknum í allri amsterdam! það er ekki eins og fólk sé að fara fram á mikið... rúm, næði og pláss fyrir farangur. en hjálpi mér allir heilagir, engin furða að eina fólkið sem hefur efni á að fara til útlanda og aktúlet sofa eitthvað á ferðalaginu eru nýríkir sjálfstæðismenn.

laugardagur

ég er grasekkja í dag og í nótt. örninn minn, mr. handsome devil er á ísafirði með hljómsveitinni ÉG að spila, eða í kvöld. ég sakna hans strax, get ekki að því gert. og ofaná þvottavélinni liggja lyklarnir að plebba-bílnum okkar sem að ég get ekkert gert að því ekki kann ég að aka. synd og skömm að silvurblái fákurinn okkar standi svona óhreyfður... ef við bara töluðum sama tungumálið.
ég verð bara að minnast á dásamlegan dag sem ég átti í gær með besta vini mínum honum gulla. í marga klukkutíma þræddum við bæinn og litum inní búðir, spjölluðum um allt og ekkert. stundum er svo gott að eiga svona góðan vin, eða alltaf. að þurfa ekki endilega að tala um þetta leiðinlega heldur bara fá félagskapinn og hlýjuna sem honum fylgir. hann er sko gullið mitt hann gulli minn. auk þess eru strákar oft skemmtilegri félagsskapur en stúlkur, þeir koma með allt annan vinkil á hlutina, eru ekki í keppni við þig að tala um sjálfan sig og oft bara einhvern veginn hressari, síður mæðulegir. ég biðst forláts á þessari upptalningu, ég er mjög mikil jafnréttismanneskja þegar kemur að stöðu kynjanna í heiminum og utan hans en svona finnst mér þetta bara stundum vera. ekki það að stúlkurnar í kringum mig séu einhverjar skíta-pöddur...

föstudagur

fyrir þau okkar sem ekki kjósum að vera peð-ölvuð á einhverjum sóða-bar í reykjarvíkurborg á þessu föstudagskveldi er ekki gerð tilveran auðveldari með dagskrá ríkissjónvarpsins. latibær og vetrarólimpíuleikarnir að ógleymdri rúsínunni í pulsuendanum, einhver væmin disney-mynd er það sem okkur er boðið uppá í kveld í sjónvarpinu. ég trúi ekki að það sé verið að NEYÐA mig til að borga í þessa stofnun... allt þetta efni samanlagt jafnar næstum út viðbjóðinn og óhugnaðinn sem teletubbies er.

ég á afmæli eftir 13 daga... eða eru það 12? allavega þá er það 9. mars og ég get ekki beðið. ég er svo fegin að hafa þetta til að hlakka til að þið trúið því ekki og svo fegin að vera svona einföld og barnaleg að hlakka enn til afmælisins míns. ég er m.a.s. að verða 27 ára. það er rosalegt! ekki í þeim skilningi að mér finnist það eitthvað hræðilegt, þvert á móti og alls ekki, mér finnst það frábært! en það er samt rosalegt og magnað af því að mér líður svo ekki 27 ára. myndin sem ég hef af 27 ára gamalli manneskju er ekki nálægt því að vera lík mér á neinn hátt. ótrúlega merkilegt! ég er ennþá bara tvítug í anda. og ég horfi á allt þróast og mig með... ég er búin að festa ráð mitt, vinir mínir hafa fest ráð sitt, keypt sér íbúðir, eignast börn, flutt til útlanda, farið í háskóla, horfst í augu við fortíðina, leitað ráða til að bæta sjálfið... allt þetta og við erum enn svo ung.

í gær þegar ég var að reyna að sofna fór ég að semja sögu í huganum til að skrifa ykkur í dag. hún var ótrúlega fyndin og eiginlega bara endursögn á áður rituðum viðburði. ég kímdi undir sænginni yfir eigin fyndni... en merkilegt nokk þá virðist ég einhvern veginn verða mun frjósamari í hugsun og sköpun þegar er liðið svona á nóttina heldur en á daginn því að þegar ég vaknaði í morgun, tilbúin að láta skopið flæða inn á veraldarvefinn var úr mér allur vindur og sagan var alls ekki lengur fyndin. en það er komið kvöld núna og mér farin að finnast sagan aftur fyndin svo ég er að hugsa um að skrifa ykkur hana. svo finnst ykkur hún kannski ekkert fyndin og ég er fáránlega glötuð...

allavega... þetta er þarna þegar ég fór seinast í sund. með móu, sumarið 2004. mér finnst persónulega dásamlegt að fara í sund, alveg yndislegt. ég á vel heima í vatni enda er ég í fiskamerkinu... átti reyndaar að fæðast eitthvað fyrr og vera vatnsberi en það skiptir ekki öllu, bæði hafa gaman af vatni. það bara öll þessi nekt sem ég á svo erfitt með að höndla, allir þessir allsberu líkamar saman í einhverjum risa klefa klæddum í hólf & gólf með skjannahvítum flísum og lýsingin gerir það að verkum að allir virðist frekar vera liðnir en lífs. dulítið svona eins og stemningin í auschwitz ímynda ég mér og eiginlega finnst. nema hvað, móu tókst að draga mig í sund þennan dag. ég ældi næstum af geðshræringu þegar ég var að tína af mér spjarirnar, reyndi að hylja nekt mína undir hel-kaldri sturtunni og stara ekki á aðra eða litlu börnin til að vera ekki sökuð um neinn viðbjóð. oní lauginni stóð á á sama stað allan tímann eftir að hafa fengið vægt taugaáfall við að þurfa að ganga svona hálf-nakin fram hjá ótal pörum af augum með líkömum oní vatni við suðumark. þegar varirnar á mér voru orðnar bláar og augun frosin í augntóftunum ákváðum við að fara uppúr og toppa svo allt saman með því að sápa okkur naktar fyrir framan annað fólk. ég var eins fljót og ég gat og fylgdi sömu reglum og í sturtunni fyrir sundlaugina, dreif mig svo fram þar sem ég gat þurrkað mig og upplifað viðbjóðinn þurran þegar konurnar æddu að mér úr öllum áttum allar útí píkuhárum og geirvörtum. og eins og þetta sé ekki nóg á viðkvæma sál lagt var mér starsýnt inní sturtuklefann í einhverju hugsunarleysi og stend þá auglitis til augitis við rauðhærða píku sem eigandinn var að snyrta alúðlega með einnota rakvél, rauðhærða píkan brosti til mín. sá hún ekki skiltið sem stendur á skýrum stöfum: RAKIÐ EKKI SKÖP YKKAR, HANDAKRIKA, RASS, FÆTUR NÉ NEITT ANNAÐ Í STURTUNNI!? og ég hef ekki beðið þessa dags bætur og til að bæta gráu ofan á svart þá kemur rauðhærða píka endrum og eins í pennann, og endrum og eins er ég að vinna en alltaf, ég segi ALLTAF brosir hún til mín. um mig fer hrollur, mér finnst á mér brotið. erum við saman í einhverju leynifélagi af því að mér varð á að bera hana augum á því augnabliki sem henni hugkvæmdist að raka af sér skapahárin í einhverju bríaríi? ég veit ekki...

fimmtudagur

er ekki búin að vera dugleg við skrif undanfarið, en það er góðar ástæður fyrir því. ákvað í morgun í fyrstu tilraun til að vakna (sem mistókst) að létta algjörlega á hjarta mínu hér, draga ekkert undan og segja ykkur hvernig málin standa, hef svosum engu að tapa. þetta er bara spurning um að treysta því að það verði ekki notað gegn mér. afhverju ætti ég að fela það sem ég er að takast á við? ég les bloggsíður þar sem fólk er að takast á við krabbamein eða er í meðferðum af því að það getur ekki átt börn. þetta er ekkert leyndarmál enda skil ég ekki leyndarmál og ég ætti ekki að þurfa að skammast mín fyrir að verða stundum leið fyrst það var á annað borð verið að greina mig með þennan þunglyndis-sjúkdóm sem allir eru að springa úr fordómum og skilningsleysi gegn, þ.á.m. ég. það er erfitt að eyða heilu dögunum í að kalla sjálfan sig aumingja sem getur ekki neitt, geta ekki farið framúr rúminu af því að maður sér ekki tilganginn til þess, halda andliti fyrir framan alla og passa sig að tala ekki um hvernig manni líður í raun og veru, geta hvorki sinnt vinnu né skóla nema í einhverjum hálfkæringi af því að manni líður svo illa og svo margt meira. ég er samt minn versti óvinur. alltaf svo reið við sjálfa mig, hata mig stundum og mjög oft. ég hef samt engan áhuga á að drepa mig, reyndi það einu sinni og ekki með tilætluðum árangri, sem betur fer kannski en ég mun líka alla ævi skammast mín til innsta kjarna fyrir það. það voru mistök frá a-ö. ég hef heldur engan áhuga á að skaða sjálfa mig á neinn hátt líkamlega, nóg geri ég af því andlega þannig að þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af því að verða vitni að sjálfsmorði eða líkamsmeiðingum í beinni útsendingu á veraldarvefnum. en þetta er nú bara toppurinn á ísjakanum, nenni ekki meiru í dag. en þið sjáið að það er á heilmiklu að taka og það er mikil vinna og erfið. kannski mun einhver í sömu sporum og ég lesa þetta og líða betur af því að vita að hann eða hún er ekki ein. og ég er aldrei vond við neinn annan en mig, allavega ekki af ásettu ráði. ég elska mjög mikið af fólki mjög heitt og innilega og ég vil þeim öllum alltaf það allra allra allra besta sem völ er á í heiminum, m.a.s. sumum sem að ég held að sé endilega ekkert mjög vel við mig eins og fyrrverandi eiginkonum og öðru fólki. ég vildi bara að ég gæti gert það sama fyrir mig. sjáumst síðar.

og hérna sjáiði hvað ég er orðin glöð...
hef ákveðið að stofna félag verkkvíðinna íslendinga sem leggja traust sitt blint á frasann: "þetta reddast". skammstöfunin yrði eftirfarandi: F.V.Í.L.T.S.B.F.Þ.R. allir velkomnir að ganga í félagið, líka nýbúar. stofnfundur verður haldinn daginn sem mér verður vísað úr skóla. takk fyrir.

fyrir áhuga- og umhyggjusama hefur lundin lést, þó ekki til hæstu hæða en þetta er allt að koma... en nú er ég komin með hríðir og þarf að fara að fæða eitt stykki ritgerð um the graduate. auk þess ætla ég mér að halda júróvisjón-partý um helgina, ég og örninn minn ætlum að djamma þangað til að við gubbum og ég og dóra litla ætlum að drukkna í mojito eða cosmopolitan.

þriðjudagur


suma daga er hreint ekki skemmtilegt að vera tinnbert og í dag er þannig dagur.
vildi ég gæti sofið þar til þessu linnti.
vildi ég gæti verið í bakpoka á bakinu á einhverjum.
vildi ég gæti andað án þess að verkja í brjóstið.
vildi ég gæti skorið burt þennan svarta part.

það á að gera manni gott að tjá sig, þið verðið því bara að umbera þetta.

sunnudagur

jeiiiiiijjjjjj!!! DAGUR, DAGUR, DAGUR!!! minn maður!
ef að dagur b. vill að fólk kjósi sig, og ég kýs hann ætti hann kannski ekki að vera framan á forsíðu fréttablaðsins með hornauglýsingu þar sem hann lítur út eins og geðsjúkur fjöldamorðingi með skapgerðarbresti. mér finnst hann samt alveg fínn gaur...

laugardagur


fann allar fjórar lethal weapon myndirnar í einum pakka á alveg hreint afbragðs billegu verði í skífunni í dag, og þar sem við áttum þar inneignarnótu og erum bæði lethal weapon aðdáendur fannst mér ekki annað koma til greina en að skella mér á þetta einstaka tækifæri. þ.a.l. er lethal weapon maraþon hjá okkur hjónum í kveld. ég er sergeant martin riggs og össi er sergeant roger murtaugh.
see ya!

föstudagur

þegar ég vaknaði í gærmorgun vissi ég að ég ætti ekki að fara á fætur, en ábyrgðartilfinningin rak mig á lappir og ég mun blóta þeirri ákvörðun svo lengi sem ég lifi. til að byrja með þá sef ég sérlega illa um þessar mundir útaf ónefndum ástæðum, ég vakna oftast um kl. 5 á morgnana og ligg svo í rúminu fram til 8 eða þegar vekjaraklukkan hringir sem er ekkert nema leiðindi því að ég er aldrei eins opin fyrir áhyggjum og kvíðaköstum en þegar ég vakna svona um miðjar nætur og þögnin og myrkrið er minn eini félagsskapur... og jú, reyndar sofandi örninn líka og á henn er hreinn unaður að horfa en ég er ekki geðsjúk svo ég stend ekki í því í nema svona hálftíma tops. og þar sem að gærmorgunn byrjaði svona leyfði ég mér að lúlla aðeins frameftir þegar örninn var farin í vinnuna. undarlegt nokk þá get ég það í þessu ástandi, sofið á daginn. þegar ég svo drullaðist á lappir í kringum hádegi var hausinn á mér að springa og ég sá varla útum augun sem voru svo svefnbólginn að það var líkt og ég hefði verið kýld herfilega fast í andlitið og það tók bólguna fjóra tebolla, trilljón sígarettur og tvo tíma að hjaðna. í úrillu skapi fór ég svo í skólann og entist þar svona tvo/þriðja af tímanum en þá gafst ég upp á geðvonskunni og fór heim til að umlykja mig hlýju og öryggi og kannski slá á gremjuna. og svo kom örninn minn heim og hlutirnir litu mun betur út, lundin lyftist og allt varð betra. ég var að fara að horfa á the graduate fyrir skólann en um þá mynd er ég að fara að gera stutta ritgerð um helgina og ég hlakka vægast sagt til. nema hvað, til að gera langa sögu stutta þá var myndin biluð eða seinni helmingurinn af henni og ég var að gæða mér á hnetum og braut í mér tönn. og ég er sko ekki að tala um smá flís úr tönninni eða smá sprungu, það er svona einn/fimmti af tönninni farin, gone away... hvissssss! og stykkið datt ekkert strax úr, það hrundi úr í morgun þegar ég var að rembast við að bursta tennurnar og það blæddi og ég missti það, stykkið næstum ofaní vaskinn. ég ætla ALDREI að borða hnetur aftur, handbendi djöfulsins árans andskotans hnetur. og lélegu tennur sem ég er með! og nú þarf ég að fara til tannlæknis á mánudaginn. ekki nóg með að það kosti peninga sem ég ekki á til heldur er ég svo logandi hrædd við þessa starfsstétt, þ.e. tannlækna að ég skæli á biðstofunni í hvert skipti sem ég kem þangað. þetta er ekkert grín! þessar hrakfarir fara í sama kafla í ævisögunni minni og þegar ég skar framan af fingrinum á mér í FB og einhver stal stykkinu sem ég skar af, sáraumbúðirnar gréru fastar við puttann á mér af því að heilsugæslulæknar eru ekki raunverulegir læknar og svo trompaði ég það með því að missa heilt rúm ofan á þennan blessaða fingur. HANA NÚ!

mér er það hulin ráðgáta afhverju garðar cortes jr. var kosinn kynþokkafyllsti karlmaður íslands. hefur fólk hlustað á hann tala? hann er eins og einhver ýkt útgáfa af agli ólafssyni og skælir örugglega alltaf þegar hann er búin að fá það. eða þá að hann fær það alltaf í buxurnar... premature evacuation! ég skal segja ykkur hver er kynþokkafyllsti karlmaður íslands, örn eldjárn, that´s who! úff, ég væri sko til í að dýfa honum í kaffið mitt... aftur og aftur og aftur og aftur og aftur... hafið mig afsakaða.

miðvikudagur

ég get ekki ákveðið mig hvort ég eigi að láta taka hana dimmalimm mína úr sambandi. mér finnst það eitthvað svo ógnvænlegt að fara með barnið mitt í aðgerð til að láta rífa úr henni allt sem gerir hana kvenkyns og svo er ég dauðhrædd um að henni eigi bara eftir að líða illa á eftir. hvað skal gera...
við virðumst þrífast á því að eiga í átökum við hvert annað, það er tækifæri sem við látum sjaldan fram hjá okkur fara hvort sem að líf eru í húfi eða ekki. nú er fjöldinn allur af fólki búið að láta lífið útaf átökum sem hafa brotist út útaf þessarri myndbirtingu þarna í jótlandspóstinum. mér finnst þetta mál svo skrýtið og svo óskaplega leiðinlegt, það lyktar allt af fáfræði, skilningsleysi og öfgum.

sú var tíðin að ég og lóa horfðum oft á kvikmyndina reality bites. ég klippti m.a.s. lóu einu sinni eða gerði tilraun til þess eins og winona ryder er klippt í myndinni atarna... á sunnudaginn var kósý dagur og mér fannst tilvalið að rifja upp góðar stundir og taka reality bites á vídjóleigunni og jafnframt kynna örninn fyrir þessarri undursamlegu kvikmynd. en eitthvað hefur breyst, hún vakti alls ekki þau sömu gleði-viðbrögð og hún áður gerði, nú fannst mér hún m.a.s. bara hálf leiðinleg, persónurnar barnalegar og allir eitthvað svo klobbalegir. ætli þetta sé það sem gerist þegar maður er orðinn fullorðinn? ég er þó blessunarlega ekki komin á það stig að vilja eingöngu horfa á kvikmyndir sem fjalla um ekkjur að berjast við krabbamein eða krúttileg og munaðarlaus börn.

æj... þetta er allt eitthvað svo til einskis.

laugardagur


ég hef aldrei talið mig neina sérstaka áhugamanneskju um íþróttir... nema kannski þarna um veturinn sem mér hugkvæmdist að fara að læra box en var rekinn um vorið sökum ótæpilegs skapofsa... en það er önnur saga. en þannig er það nú bara að ef ég asnast til að setjast fyrir framan sjónvarpið þegar einhverjir boltaleikir eru í gangi, eiginlega alveg sama hver þá brýst iðulega útúr mér einhverskonar alter-ego-íþróttabrjálæðingur sem getur hvergi setið kjurr og öskrar á imbann í hvert skipti sem að mark er skorað eða dómarinn fer rangt með staðreyndir. þetta jekyll/hyde ástand er farið að íþyngja mér verulega þar sem að mér reynist erfitt að dylja það með dömuskap þegar ég er meðal fólks, svo sterkt er þetta afl. ef þið heyrið helíum-öskur á bergstaðastrætinu með meðfylgjandi blótsyrðum á erlendum tungum skulið þið ekki óttast, þetta er bara ég.