þriðjudagur

jæja, komiði sæl.
í dag var voðalega lítið um póst sem er skemmtilegt því ég var búin klukkan 12 og er því í þessum skrifuðu orðum á launum. á launum við að blogga. eitt þótti mér þó einkennilegt og það var að vinnufélagar mínir virtust ekki sáttir við litla póstinn. á meðan ég flokkaði minn hlustaði ég á þau agnúast yfir því að þetta hlyti að koma í bakið á okkur á morgun og þar fram eftir götunum. mikið fannst mér þetta skrýtið. ég er kannski ekki komin á póstmannabylgjulengdina.

sökum starfsins þarf ég að ganga mikið og mikið finnst mér gaman að ganga. þá brýt ég heilann um framtíðina og stundum fortíðina, legg línurnar fyrir komandi daga í huganum og dáist að heiminum. ég hlusta á fuglana og sjóinn því ég ber út rétt hjá sjónum. stundum er ég skömmuð af skjólstæðingum mínum sem finnst óskiljanlegt að ég með svona mikla ábyrgð skuli stundum bera út í vitlaust hús. einu sinni var ég meira að segja spðurð hvort ég væri þroskaheft af gamalli konu. ég svaraði því til að best væri að hún hefði samband við foreldra mína útaf því máli og gaf henni símann hjá þeim. ég held hún hafi ekki hringt. en stundum hitti ég líka indælis fólk sem hrósar mér fyrir vel unnið starf og þá fæ ég aftur trúna á sjálfri mér. annars er það þetta með labbið. síðan ég byrjaði hef ég prófað allar tegundir af skóm, allt frá stígvélum til sandala. en það bregst ekki að að loknum vinnudegi er ég orðin sár í fótunum og oft með blöðrur á litlu sætu táslunum mínum og hælunum. einu skórnir sem hingað til hafa reynst mér best eru vetrarskórnir mínir en þeir eru bara svo fjandi heitir og ég neita að festa kaup í 15 þúsund króna nike skóm. ég upplifi mig þess vegna oft sem lítinn vesaling. ég ímynda mér að vesalingar séu oft með sára fætur. annars er ég þakklát fyrir allt þetta labb því lyfin mín hafa þær ægilegu aukaverkanir að maður bara fitnar á þeim. enginn vill fitna og ég er þar engin undantekning. og þó ég borði bara eina ristaða brauðsneið á dag fitna ég samt útaf þessum fjandans pillum. ég veit þetta er hégómi en ég vil frekar segja það en engjast í þögninni. ég hugsa mjög mikið um þetta þessa dagana sem er samt skrýtið því líkaminn minn er eins og venus í skel, ég er grísk gyðja. fokk off, manni má líka finnast eitthvað fallegt um sjalfan sig. það eru bara brjóstin á mér sem lýða mest fyrir þetta, ég þarf að hafa þau í hjólbörum sem ég keyri á undan mér því þau eru orðin svo stór. jæja, ég er að ýkja.

mikið er ég þakklát fyrir hið skrifaða orð. ég er ein af þeim sá ægilega erfitt með að tjá mig í mæltu máli en það er einmitt mjög mikilvægt fyrir mig í ljósi liðinna atburða seinustu daga þegar hjartað mitt brotnaði. en í staðinn fyrir að pína mig til að tala kom ég bara hingað og ég er ekki frá því að það hafi gert mér gott því mér líður barasta furðu vel.

annars koma þau hjónaleysurnar arnar & móa heim í kveld/nótt og ég er með fiðrildi í mallanum ég hlakka svo til að hitta þau, sérstaklega móu sem er andleg tvíburasystir mín. og við ætlum svo sannarlega að skemmta okkur um helgina. eru ekki allir með í því? kannski ég haldi teiti í nýmáluðu híbýlum mínum. og svo fékk ég líka stöð 2 í dag. allir í húsinu eru saman í því svo ég þarf bara að borga skít og kanil á mánuði. ég held líka að á næstu dögum verði internetið sett upp hjá okkur og það verður nú aldeilis hressandi. það er yfir litlu að kvarta þessa dagana nema þá helst yfir því hvað það var nú lítill póstur í dag.

halldóra sagði mér frá skondnu í gær. hún er flokkstjóri í unglingavinnunni og krakkarnir hennar voru í hljómsveitarleiknum, þar sem einn segir hljómsveit eða tónlistarmann og hinir keppast við að finna annann eða aðra sem byrjar á stafnum sem hitt nafnið endaði á. nú krakkarnir voru eitthvað að vandræðast með stafinn e og þá kom halldóra og hrópaði glaðlega: eiríkur hauksson! og krakkarnir litu öll á hana stórum augum og spurðu: hver er það? að hugsa sér, þarna fékk ég fyrstu vísbendinguna fyrir utan mánaðarlegu reikningana um að við erum orðin fullorðin, gömul eða eitthvað.

jæja, best að fara að laga aðeins til fyrir húsráðendur. ég elska ykkur. bless.

Engin ummæli: