sunnudagur

góðan og gleðilegan sunnudag börnin mín!
þetta hefur verið hin skemmtilegasta helgi sem ég mun ljúka með fataþvottum í tonnavís heima hjá manni mínum. ætli ég taki því svo ekki rólega í kvöld yfir einhverri amerískri klisjubíómynd.
ég bauð til mín nokkrum vinum á föstudaginn í bjórdrykkju og spilerí. ég var ekki í stuði þrátt fyrir að hafa reynt að pína mig í það og sofnaði ofurölvi snemma. það hélt þó ekki aftur af gestunum sem dunduðu sér við spil fram eftir nóttu. ég held það a.m.k. en get ekki verið viss því ég "sofnaði" uppi í rúmi í öllum fötunum. ég er núna að gæla við þá hugmynd að halda eitthvert gott og fjörugt vor/sumar partý. kannski ég setji upp tjald og slái upp dansleik með opnu grilli og bar. væri það ekki huggulegt?
í gær, laugardag tók ég einn laugaveg með gulla mínum og olli honum angist í "post" fullu ástandi með háðsglósur í garð annara vegfarenda og mikilli vænisýki sem ég þjáist mjög oft af. ég og bibbert fórum svo á einhverja glamúr boðssýningu um kvöldið í smárabíói á heimildarmyndina gargandi snilld sem fjallar um íslenska tónlistarflóru. þetta var ansi hreint ágæt mynd og fyllti mig þjóðernisstolti. ég fékk líka margoft hroll af mikilli upplifun, sérstaklega þegar sigurrós og björk voru sýnd í öllu sínu veldi á tónleikum. ég tók í framhaldi af því ákvörðun um að ég ætla á næstu sigurrósar og bjarkar tónleika. það gladdi svo mitt litla hjarta óskaplega mikið þegar mín var getið í "sérstakar þakkir" listanum. það kitlaði líka hégómagirndina örlítið verð ég að viðurkenna. hann bibbert veit sko hverju litla músin sín hefur gaman af... eftir myndina var boðið í eitthvert partý á rex. þar myndi ég ekki láta sjá mig deyjandi með holdsveiki svo ég fór heim í kotið. ég hélt svo vöku fyrir sjálfri mér með þannkagangi uns klukkan var langt gengin í 4. ég var líka myrkfælin því ég asnaðist til að horfa á trailera úr væntanlegum kvikmyndum á internetinu. það voru semsé allt hryllingsmyndir um einhverja "undead" og það gerði mig logandi hrædda. ég tók eftir því að það er sérstaklega mikið um þess lags myndir núna. dawn of the dead hrinti af stað einhverri bylgju þarna um daginn.
á föstudaginn var ég beðin um að sitja aftur fyrir á mynd fyrir einhverja nýja auglýsingarherferð hjá pennanum. ég veit ekki hvenær myndatakan á að fara fram en "þeir" mættu alveg drífa sig því bleika hárið fer brátt að fjúka. og ég ætla ekki að selja sjálfa mig ódýrt í þetta skiptið því ég ætla að biðja um týpubónus eða hárlitunarstyrk fyrir bleika hárið. það er ekki ódýrt að vera með bleikt hár. en það er gaman að yfirboðurunum finnist ég svo sæt að þeir vilji aftur festa mig á mynd. það kitlar líka hégómagirndina. ég hef reyndar dulítið verið að velta því fyrir mér að halda bleika hárinu eitthvað áfram. þá þyrfti ég að fara á einhverja hárklippistofu og fá rótina aflitaða fyrir mig áður en langt um líður. reyndar finnst mér djöfullegt að fara á hárklippistofur. ekki bara af því að það er fáránlega dýrt heldur líka af því að mér líður alltaf mjög líkt þar og þegar ég fer til kvensjúkdómalæknis. þeir sem þekkja það vita hvað ég meina.
á föstudaginn fór ég líka upp í háskóla og kláraði að skrá mig formlega og borgaði staðfestingargjaldið sem gerði það að verkum að núna á ég ENGA peninga. ég veit ekki alveg hvernig ég á að þrífa mig af þeim drullupolli, en ég er samt glöð því þetta er allt komið á hreint og ef gluð lofar og ég verð ekki keyrð niður af 18 hjóla trukknum á miklubrautinni sem ásækir mig í martröðum mínum mun ég hefja nám í háskólanum næsta haust í bókmenntafræðinni. 20 einingar í fornám og svo bara beint út í djúpu laugina, mastersnámið.
þessi nýja vika lofar góðu. í fyrsta lagi er þetta ekki heil vinnuvika, minni mánudagsangist og í öðru lagi er ég að fara á kvennakvöld með stóru systur minni, systurdóttur og öðrum kvennsum. þá ætlum við að fara á hornið að borða og drekka rauðvín. skemmtilegt!
jæja, ég ætla að fara að þrífa þvotta. hafið það gott í dag sem og aðra daga.

Engin ummæli: