fimmtudagur

dóra litla kom til mín í gær. dóra litla sem er örugglega betri vinur en margan grunar, a.m.k. finnst mér það því hún er svo sannarlega búin að sýna fram á það. við spjölluðum og lásum bresk slúðurblöð um breskar leikkonur með lystarstol. hvenær ætlar þessu að linna? annaðhvort þessu lystarstoli eða þá umfjölluninni um þessar leikkonur með lystarstolið... undarlegt hvað fólk og þ.á.m. ég er "fixerað" á holdarfar. ég veit að það er löngu orðin úrelt klisja að velta sér uppúr þessu og nöldra yfir en mér leiðist þetta bara svo óskaplega. ég vildi óska að þessar fyrirfram ákveðnu holdarfars- og útlitshugmyndir hefðu engin áhrif á mig eða neinn. því hvaða gleði liggur í því að vera þvengmjór?
en ég og dóra horfðum líka á myndina birth með nicole kidman. það voru nú meiri undarlegheitin. nicole leikur konu sem missir mann sinn en svo tíu árum seinna birtist hann endurholdgaður í litlum dreng, eða ekki, ég er ekki alveg viss með það... en nicole sannfærist allavega og heldur að þetta sé maðurinn sinn sem gerir það að verkum að það myndast talsverð kynferðisleg spenna á milli hennar og litla drengsins, eða kannski meira svona kynferðislegur undirtónn. og ég var einhvern veginn alla myndina í angistarkasti yfir því að það myndi eitthvað viðbjóðslegt gerast á milli nicole og drengsins. ég hefði ómögulega þolað það enda veit ég fátt viðbjóðslegra en að setja börn í kynferðislegar aðstæður... ugh... ég get m.a.s. tæplega hugsað um það hvað þá skrifað. kannski er ég bara svona mikil tepra...

ég keypti mér ferðatösku í gær í flugfreyju stærðinni til að taka með vestur til kötu systur. hún er brjálæðislega túrkisblá og ég er mjög skotin í henni. varð að taka hana fram yfir lime-grænu vinkonu mína sem ég sat fyrir með í pennabæklinginum...

það er ekkert launungamál að mér finnast íslenskir læknar óttalega vitlausir. ég segi kannski ekki allir en flestir þeir sem ég hef þurft að hafa samskipti við. það hefur bara of oft gerst þegar ég hef þurft að leita til læknis að þeir virðast ekkert í sinn haus vita og enda oft á því að spyrja mig hvað mér finnist þeir eigi að gera. STÓR-merkilegt! þ.a.l. fer ég ekki til læknis nema að ég sé viss um að ég geti ekki með nokkru móti lagað sjálf það sem er að. en ástæðan fyrir því að ég er að skrifa um þetta er sú að ég mundi eina svona læknasögu í morgun... þegar ég var unglingur var mér oft illt í liðamótunum, þ.e. hnjánum og olnbogunum. að endingu og eftir miklar þjáningar fór fyrrverandi stjúppabbi minn með mig til læknis. við bjuggum á þeim helvíska stað mosfellsbæ á þessum tíma. þegar til læknisins var komið talaði hún við mig eins og ég væri þroskaheft og án þess einu sinni að skoða mig á neinn hátt, spurði bara aulalegra spurninga um hversu oft ég drykki áfengi og hvort ég væri búin að sofa hjá. hún komst síðan, á einhvern undarlega hátt að þeirri niðurstöðu að lækningin mín lægi í því að ég svæfi í tvær vikur með níðþröng teygjubindi utan um liðamótin á mér. það er skemmst frá því að segja að auðvitað var það ekki það sem ég þurfti, ég svaf með teygjubindin í nokkrar nætur upp á von og ótta að það virkaði en hætti því snögglega þegar ég var við það að fá blóðtappa og vaknaði með enga tilfinningu í útlimunum á morgnana. það sem ég þarf er að nudda á mér axlirnar eða láta nudda reglulega því þetta er vöðvabólga sem ýtir á taugarnar sem gerir það að verkum að ég fæ verk í liðamótin. blessunarlega er kærastinn minn yndislega góður nuddari... en það er annað úr þessari tilgangslausu læknisheimsókn sem mér er minnisstætt... ég fékk brjóst mjög snemma sem er í sjálfu sér ekkert vandamál nema þó ef maður á stjúppabba sem gerir stöðugt grín af manni. og þannig var það hjá mér, ég þurfti að hlusta á heimskulegar háðsglósur um þetta viðkvæma efni frá upphafi uppsprettu þeirra. ég man best eftir því þegar hann kallaði brjóstin á mér, 11 ára stelpu spæld egg með sprengdum rauðum og hló svo rosalega. það er kannski fyndið en ég sé það ekki... þ.a.l. lærði ég að skammast mín fyrir brjóstin á mér og reyndi eftir bestu getu að fela þau, það fólst m.a. í því að ég byrjaði að ganga um mjög hokin og er ennþá í dag að reyna að rétta úr bakinu á mér og sætta mig við að brjóst eru því miður óumflýjanlegur partur af kvenmannslíkamanum. en í þessari heimskulegu læknaheimsókn þarna barst einmitt talið að því hvað ég væri hokin. og það tal fór ekki fram á milli mín og læknisins heldur stóðu hún og fyrrverandi stjúpi og flissuðu að því að ég myndi bara enda í hjólastól fyrir tvítugt ef ég hætti ekki að vera svona hokin. hann hló að því sem að hann hafði sjálfur sáð. en ég er blessunarlega laus við þennan aumingja úr lífi mínu og ég er 26 ára og enn ekki komin í hjólastól....

það er óheyrilega mikið magn af viðbjóðslegum íslenskum lögum spiluð í útvarpinu þessa dagana. ég fyllist sérstaklega miklum viðbjóði þegar ég heyri þjóðhátíðarlagið, en það er að sjálfgsögðu af skiljanlegum ástæðum.

ég og örninn fórum aðeins á barinn í gær, einn bjór fyrir háttinn. og ég er sannfærð um að það hafi ekki verið miðvikudagur, það var jafn fullt á sirkus eins og á hverju öðru föstudags- eða laugardagskveldi. er þetta upphitun fyrir verslunarmannahelgina?

það var viðtal við mig í DV (ég veit, ég skammast mín...) á mánudaginn útaf blogginu mínu, þessu sem þið eruð að lesa núna nema hvað að ég missti af því og enginn sagði mér frá því fyrr en í gær. og nú spyr ég, á einhver DV frá því á mánudaginn?

4 ummæli:

gulli sagði...

ég er með eitt undir höndum

Tinna Kirsuber sagði...

What!!!!! Er ég í því??? Geymdu það!

Nafnlaus sagði...

Er ekkert erfitt að eiga systur sem er brjálæðislega túrkisblá?

Tinna Kirsuber sagði...

Hahahaha! Neibb, hún er svo frábær!