miðvikudagur

góðan daginn!
fórum í fyrstu "langferðina" á bílnum fallega og nýja í gær þegar við sóttum öspina litlu út á flugvöll. krílið var að koma frá danmörku, þangað sem mig dreymir um að fara ef ég ætti aur í vasa... ösp þurfti reyndar að fara norður strax sem var fúlt, ég var búin að sjá fyrir mér stelpufans með rauðvíni og fegrunarkremum en það verður þá að bíða betri tíma, ekki satt sykurbollan mín?
annars er jólafiðringurinn byrjaður að segja til sín svo um munar og ef ég kann rétt að telja eru 87 dagar til jóla... held ég. ég er samt að reyna að hafa hemil á mér, hugsa sem minnst um þetta en ég bara ræð mér ekki fyrir tilhlökkun. þetta er gengið svo langt að ég held ég sé búin að ákveða hvað ég ætla að elda handa okkur erninum á aðfangadag... læt þær upplýsingar í té þegar nær dregur. svo ætlum við norður á tjörn og vera þar yfir áramótin, það er næstum meiri tilhlökkun fyrir því en jólunum, að vera með öllu góða fólkinu þar er þúsund sinnum betra en allt annað. það er kannski kjánalegt að hlakka svona til eins og eitthvert umkomulaust barn en tilhlökkun er án efa tilfinning sem að hver og einn ætti að leyfa sér. hún er á topp 5 listanum yfir bestu tilfinningar í heimi. hinar fjórar eru að mínu mati þegar sá sem ég elska heldur utan um mig eins og að enginn sé til í heiminum nema við tvö og ekkert slæmt geti gerst, óvæntar en gleðivaldandi uppákomur (s.b. tækifærisgjafir), þegar sá sem ég elska strýkur hendinni niður eftir bakinu á mér eins og ég sé úr glerþunnu postulíni og ég finn ástina í snertingunni og síðast en ekki síst þegar ég er tipsí, glöð, elska alla og er með fiðrildi í mallanum.
en nóg af súkkulaði-núggat væmni í dag... ég er dulítið búin að vera að velta því fyrir mér hvað það sé sem geri það að verkum að mér líður aldrei neitt sérstaklega vel inni í kolaportinu, eins og ég hef nú eytt þar skildingum í gegnum tíðina þá er alltaf eitthvað sem fær mig til að hugsa mig um tvisvar áður en ég fer þangað og ef ég á annað borð voga mér inn er ég fljót út aftur. það er ekki hægt að neita því að það er krökkt af allskyns undirmálsfólki í kolaportinu (það er samt ekki það sem truflar mig, ég er ekki fordómafull í garð fólks og sérstaklega ekki þeirra sem hafa orðið undir í lífsbaráttunni), lyktin þar er undarleg og tónlistin sem spiluð er í hátalarakerfinu lætur mér líða eins og ég sé stödd í one flew over the cuckoo's nest... en það er bara ekki málið. málið er, gerði mér grein fyrir þessu fyrir nokkrum dögum er að í hvaða bás sem að ég lendi á að skoða eitthvað í stendur alltaf básar-eigandinn með ýmist sorgarsvip sem segir: "ef þú kaupir ekki eitthvað munu börnin mín og ég svelta" eða þá með ásökunaraugnráði sem svo fylgir mér út ganginn ef ég ekki festi kaup í einhverju. lokaniðurstaðan er því að ef þú ferð í kolaportið er það ávísun á sektarkennd og skömm (og vonda lykt af fötunum þínum og efasemdir um geðheilbrigði þitt). aftur á móti þekki ég einn sem er ósnertanlegur fyrir þessu og það er hann gulli minn sem á metið í því að fara í kolaportið held ég. kolaportskóngurinn gulli! æðruleysi hans gagnvart kolaportinu er eitthvað sem ég vildi að ég gæti tamið mér.
lifið heil.

3 ummæli:

gulli sagði...

kolaportið er hugarástand, Tinna mín.
það má ekki bjóða þér uppá einn ískaldan bjór í kveldið?

guð veit að ég hefði gott af því

Nafnlaus sagði...

veistu ég á þessum vanda með Kolaportið líka...ætli þetta sé eitthvað sem byrjaði þegar við fundum yfirgefna barnið þar um árið. Ég var farin að halda að við þyrftum að taka litla skinnið að okkur :/

Svanhildur

Tinna Kirsuber sagði...

jú takk gulli minn!