þriðjudagur

afskiptaleysið er andstæða ástarinnar. hverjum þykir gaman að vera skilinn eftir úti í kuldanum? ég þoli ekki þegar fólk svarar ekki því sem ég spyr það að... burtséð frá því hvort að svarið sé gott eða slæmt. ætli ég geri þetta ekki samt sjálf stundum... alveg óþolandi!

ég er búin að sitja svo lengi með bera fætur á flísagólfinu, að lesa fyrir skólann að tærnar mínar eru orðnar fjólubláar. tærnar með tánöglunum sem ég nota ekki til að hanga niður úr laufkrónum, táneglurnar sem ég nennti ekki að klippa í gær. ekki örvænta, þær eru ekkert viðurstyggilega langar, þvert á móti þá held ég að þær fari ekki í taugarnar á neinum nema mér.

framtíðardraumur tinnberts ævarssonar: ungur maður með vonir:

1. eignast íbúð/hús sem er nægilega stórt til að ekki þurfi að flytja fyrr en arnarungarnir eru flognir úr hreiðrinu. eða eitthvað þaðan af verra. það þarf líka að rúma tómstundir mínar og arnarins sem ekki eru af verri endanum: gítarspil og listmálun. þ.a.l. mætti íbúðin/húsið vera 4-5 herbergja (ekki á færi venjulegs fólks að hafa efni á en þetta er nú einu sinni bara draumur).

2. giftast erninum í vallakirkju, ég í draumakjólnum sem mun verða 50s og hvítur með bleikum borða um mittið og örninn minn í flotta smókíngnum sem við keyptum í spútnik (það næsta sem ég hef hingað til komist með að segja erninum þennan draum er að segja honum að mér finnist vallakirkja voðalega falleg kirkja. hef ekki lagt í að hræða piltinn neitt meira. hann mun þó væntanlega lesa þetta svo ég get allt eins skotið mig í hausinn núna). vorbrúðkaup með mexíkósku eða indversku hlaðborði og hellingur af frönskum súkkulaðikökum í eftirrétt.

3. eignast tvö börn með ca. 2-3 ára millibili og skíra þau amelía birta og frosti (það hefur verið greypt í hausinn á mér síðan ég hætti að forðast það að horfast í augu við að ég muni einhvern tímann eignast börn að fyrsta barnið mitt verði stúlka).

4. finna frábæra vinnu þar sem allir mínir bestu eiginleikar fá að njóta sín og mér er frjálst að vera ég sjálf. rithöfundur er náttúrulega númer eitt. síðan væri ég alveg til í að fá borgað fyrir að hugsa, ég geri nefnilega mjög mikið af því.

5. sættast við sjálfa mig og fortíðardraugana. læra að elska sjálfa mig og aðra eftir því. verða heil.

... held það sé ekki fleira í bili en ef allir þessir hlutir gætu ræst yrði ég hamingjusamasta stelpa í heimi. það er reyndar erfitt að hugsa til þess að ég geti fengið meira en ég nú þegar hef. svo heppin er ég... með besta mann á jarðríkinu mér við hlið.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

mig langar að segja þér að á meðan ég hef verið að skrifa B.A. ritgerðina mína hefur verið eins og vin í eyðimörkinni að lesa bloggið þitt, það er hvíldin mín í skriftunum. takk!! þú ert frábær penni.

Tinna Kirsuber sagði...

Vá, takk fyrir það og gaman að heyra. Gangi þér vel með ritgerðina, hef verið í sömu sporum og man hryllinginn eins og það hefði verið í gær. Leiðinlegt að skrifa þær en svo óskaplega gott þegar það er búið.

a.tinstar sagði...

i take it að örn les ekki bloggið þitt???...hann hringdi í vitlausa tinnu um daginn...hoho..

Tinna Kirsuber sagði...

Já, ég veit, hann sagði mér það... Andskoti fyndið! Þú heitir nefnilega Tinna sæta í símaskránni minni og ég það sama í hans símaskrá og þegar við skiptum um síma um daginn leiddi það þessi skemmtilegheit af sér... HAHAHAHAHA! Annars las hann bloggið og ég fann hann ekki grenjandi í sturtubotninum... Tek því sem góðu merki :D