laugardagur

jæja... það verður seint sagt um mig að ég sé ekki árrisul enda er ég mikil áhugamanneskja um morgna og kann fáar stundir dagsins betur að meta en morgnana... og þá helst helgarmorgna. enda gengur ekki að vera að sofa svona útí eitt, nóg er það að lundarlyftan geri það að verkum að ég þarf að leggja mig uppúr kl. 14 alla daga. auk þess hef ég nóg á minni könnu og ætla ég að sinna þeim "skyldum" af alúð í dag. burtséð frá því að veðrið er dásamlegt og mig langar ekki að sitja inni við lærdóm. ekki hið minnsta...

skaði eldjárn er óðum að gera sér grein fyrir því að fyrir utan gluggann er stór og spennandi heimur sem vert er að skoða. og það er satt sem þeir segja með ketti og forvitni nema að ég vona að mínir drepist ekki úr henni... eins og ég sagði ykkur fyrir nokkru slapp skaði litla út á mánudagsnóttina s.l. mér til óvæntrar ánægju tók ég á því máli af mikilli yfirvegun (ég bý yfir hinum ólíklegustu hæfileikum sem endurspeglast alls ekki í mínu daglega fari. t.d. að ráða fram úr mjög taugatrekkjandi aðstæðum af rósemd. flestir sem þekkja mig hefðu líklega búsit við því að svona hamfarir gerðu það að verkum að ég fengi móðursýkiskast. en nei!) og fann líka litla krílið nær samstundis og "yfirvegaða" leitin hófst. þetta hefur hins vegar gert það að verkum að nú þarf að standa vörð um alla glugga líkt og dauðadæmdur fangi sæti hér inni því ekki getum við bannað dimmalimm að fara út og verðum þess vegna að hafa gluggana opna, hún hefur aldurinn en skaði því miður ekki fyrr en eftir rúma tvo mánuði. ég þyrfti aftur á móti að taka tíma í það að kenna dimmalimm að notast bara við hurðina, það myndi auðvelda hlutina mjög. þess vegna er það næst á dagskrá: kenna dimmalimm að nota hurðina (hún mjálmar, ég opna, hún fer út).

það var stór-gaman í gær fannst mér þó ekki hafi ég torgað miklun áfengi. nú er nefnilega svo komið að ég hef barasta enga lyst á því. það gerir svosum ekki að sök því ég skemmti mér vel þó við höfum reyndar verið komin heim um eitt leytið. og merkilegt nokk þá er ekki við mig að sakast yfir því í þetta skiptið. ekki að það sé við neinn að sakast yfir því...

og svo er það hómópataskyggnukonan næsta miðvikudag... ég er doldið spennt að heyra hvað hún segir mér þó ég sé með eindæmum skeptísk kona á allt svona sem ég kýs að kalla "húga-búga fræði". en hver veit, þetta getur allavega ekki komið að neinni sök. annars veit ég ekki hvort það er lundarlyftan eða sólin en ég er bara orðin ansi spræk í sálinni. 7-9-13... geðlæknirinn var náttúrulega ekkert að dásama hómópata þegar ég sagði henni að ég væri að fara að hitta einn slíkan. kannski finnst henni að sér vegið en það er nú einu sinni mín geðheilsa sem er í fyrirrúmi, ekki hvort geðlæknirinn minn finni fyrir höfnunartilfinningu þegar ég leita á önnur mið. og talandi um heilsu... þvagblöðruvesenið hvarf eins og dögg fyrir sólu í byrjun seinustu viku, mér til mikillar ánægju. en eitt er víst, næst þegar ég fæ blöðrubólgu/þvagfærasýkingu/hveitibrauðssýkingu ætla ég ekki að taka monotrim sýklalyfið. fyrir utan að sýklalyf eru að mínu mati handbendi djöfulsins þá virka þau ekki "jack-shit"! og ekki heldur trönuberjahylki ef útí það er farið...

en nú þarf ég að sinna skyldum tinnberts. það er glaður og jákvæður tinnbert sem ritar þessi orð og þið getið ekki ímyndað ykkur hvað sálarró og gleði í hjarta eru vanmetin fyrirbæri. maður gerir sér sko svo sannarlega grein fyrir því að það er ekki sjálfgefið að líða vel eins og ég hef fengið að kynnast undanfarna mánuði án þess að ég sé að gera mig að einhverjum píslarvætti. að vera í raun hamingjusamur í hjartanu en geta ekki lifað eftir því af því að sálin er svo krumpuð er djöfullegt. en nú er þetta allt að koma held ég, ég get látið gleðina mína flæða úr hjartanu óhindrað og það er besta tilfinning í heimi. og fyrst ég er á annað borð á þessum væmnu nótum segi ég: mér þykir vænt um ykkur og ég vona að þið eigið góðan dag!

Engin ummæli: