miðvikudagur

ég hef alls engar áhyggjur af því að ég sé að eldast, það er óumflýjanlegt og því til lítils að vera að ergja sig á því. ég geri mér algjörlega og fulla grein fyrir því að kannski muni ég einhvern tímann verða gráhærð og fá hrukkur og það angrar mig ekki hið minnsta. ég hef komist að því að appelsínuhúð er líka óumflýjanleg og þess vegna er líka ástæðulaust að vera að velta sér uppúr því.
ég hlakka alltaf til að eiga afmæli, sama hversu gömul ég er að verða hverju sinni. afmælisdagurinn er fyrir mér eins og ný byrjun, ekki nýársdagur eins og hjá svo mörgum. nýtt upphaf... ég á eiginlega ekki til orð yfir hrifningu minn á tímanum og hvernig hann líður og hvað mér finnst gaman að eldast. það er þess vegna spennandi staðreynd að eftir tæpa sjö mánuði verð ég 27 ára og ég get ekki beðið eftir því. þó ykkur að segja og þeir vita það sem þekkja mig að ég kæmist auðveldlega upp með að segjast vera tvítug, jafnvel 18 ára. fólki finnst þetta víst kostur þó ég hafi enn ekki orðið vör við það. það eru t.d. bara tvær vikur síðan ég var spurð um skilríki þegar ég var að kaupa mér sígarettur. það er 18 ára aldurstakmark þegar kemur að sígarettukaupum einstaklinga. svo tæknilega séð gæti ég sagst vera 17 ára...
en ég velti því líka fyrir mér hvaða stöðluðu ímynd aldur hefur, hvað maður á að vera búin að afreka þegar maður er orðin ákveðið gamall samkvæmt reglum samfélagsins. reglur sem að við höfum sjálf búið til en hafa blessunarlega breyst í tímans rás svo að pressan á að "fullorðnast" er kannski ekki alveg sú sama og hún var fyrir nokkrum árum eða svona áratug eða tveimur síðan.
og ég er 26 ára... ég á ekki íbúð og ég get í hreinskilni sagt að ég er ekki alveg að sjá það fyrir mér að mér muni nokkurn tímann takast að kaupa slíkan grip, allavega ekki í náinni framtíð og það angrar mig ekki.
yfirdrátturinn minn hefur farið hækkandi síðan ég bjó í danmörku fyrir sex árum síðan og er orðinn svo hár að hann er nánast eins og hluti af mér, eins og annar útlimur sem ég mun aldrei losna við. á angurs-skalanum 1 - 10 angrar það mig svona upp í 3. ég á stundum ekki peninga fyrir mat þegar það eru alveg tvær vikur, stundum þrjár eftir af mánuðinum. það pirrar mig ekki svo mikið, það pirrar mig meira þegar ég á ekki fyrir sígarettum. ég hef reyndar tekið ákvörðun um að hætta að hafa áhyggjur af peningum, það er eins og allt hitt, til einskis að hafa áhyggjur af. ég veit alveg að ég mun aldrei búa á götunni og borða kattamat úr dós af því bara ég veit það, það er staðreynd og svo á ég góða að.
ég er ógift og ég á kærasta sem er þremur árum yngri en ég og ég veit ekki alveg hver er skoðun mín á giftingum... ég veit að mér finnast brúðkaup mjög rómantísk og stundum hanna ég kjól í huganum sem að ég myndi vilja gifta mig í, ég ímynda mér matinn í veislunni og hvar ég myndi vilja giftast og þar fram eftir götunum. en það er einhvern veginn eins og dægradvöl hugans, ég hef engar áhyggjur af því, ég veit ekki einu sinni hvort ég muni giftast þó að það væri ósköp indælt ef einhver vildi það, giftast mér og það myndi gerast. en akkúrat núna er ég bara svo skotin og það er svo gaman að eiga kærasta eins og örninn sem ég ann svo heitt að mér væri sama þó ég ætti bara kærasta allt til dauðadags...
og mig hryllir við barneignum. það klingir ekki vitund í eggjastokkunum á mér, mér finnast m.a.s. flest börn fyrir utan litla frænda hann ástþór örn, ísold hennar móu og úlf hennar bryncíar hund-leiðinleg. ég get ekki hugsað mér að verða móðir fyrr en í fyrsta FYRSTA lagi eftir 2-3 ár... höfum það 3...
svo er það náttúrulega þetta með röddina, líklega aðal ástæðan fyrir því að fólk heldur stöðugt að ég sé 17 ára. ég veit ekki hvort ég ætti að fara til læknis útaf því, ég veit ekki hvort það gæti almennilega verið ég án helíum-raddarinnar... svona hugsar 26 ára tinna.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég á vinkonu sem er ógift. Þegar hún varð 29 ára sagði hún foreldrum sínum að þegar hún yrði þrítug yrði annað hvort brúðkaup eða flott afmælisveisla hjá henni. Foreldrar hennar höfðu þá borgað brúðkaup systur hennar. Nú er vinkona mín 33 ára, ógift og fyrir 3 árum fór ég í mesta og skemmtilegasta afmæli í heimi. Ræðuhöld, söngur, skemmtiatriði og allt. Fólk fagnar því sem það vill fagna. Same to you my dear.

Tinna Kirsuber sagði...

Ég fagna því að vera sátt við hlutina eins og þeir eru, ég fagna því að ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, ég fagna því að ég get komist í gegnum daginn án þess að leiða hugannn nokkurn tímann að næstu dögum sem eftir eiga að koma, ég fagna því að ég er ekki að bíða eftir neinu betra, ég fagna því að ég hef aldrei verið jafn ástfangin á ævinni og ég er núna, ég fagna því að hafa fundið svona yndislega íbúð og manneskju til að deila henni með sem elskar mig eins og ég er. Hlutirnir gætu tæplega verið betri...

Ösp sagði...

Skohh svona á maður að hugsa, hafa ekki endalaust áhyggjur, bara taka öllu sem gerist með stóískri ró. Það eru svo margir sem eyða allri ævinni í að vera með áhyggjur og rembast í þessu lífsgæðakapphlaupi og átta sig á því alltof seint að þeir hafa hreinlega ekkert grætt á því.
En mikið ósköp ætlum við að vera menningarlegar saman þegar ég kem :D Rauðvín, ostar og tipsílegheit:)

Tinna Kirsuber sagði...

Íhíhíhí... Ég get ekki beðið, ég hlakka svo til að fá þig til okkar Öspin mín :D