föstudagur

það er gefið mál að maður er skammaður þegar maður kallar einhvern hálfvita en að maður sé svo líka skammaður þegar maður kallar sjálfan sig hálfvita finnst mér með eindæmum... það er óumflýjanleg staðreynd að yfir mér vaka alltaf einhverjar góðar sálir sem virðast af einhverjum ástæðum hafa óbilandi trú á mér.

allt í lagi þá... ástæðan fyrir því að ég er dulítið bitur út í gáfnafar mitt núna er sú að ég fékk ekki alveg eins góða einkunn og ég var búin að gera mér vonir um fyrir ritgerðina frægu, þið munið: leggðu drög að strúktúralískri greiningu á leigjandanum eftir svövu jakobsdóttur. ég veit svosum ástæðuna og ég ætti kannski bara að birta ritgerðina í heild sinni hér á síðunni svo að þið skiljið hvert ég er að fara... maður fær ekki góðar einkunnir fyrir brjóstvit, bara fyrir akademískan hugsunarhátt og af honum hef ég ekkert en aftur á móti hef ég nóg af því fyrrnefnda, brjóstvitinu... eða svona að öllu jöfnu og án þess að ég sé eitthvað að blása í mína eigins lúðra.

ég ligg yfir bókunum en mér er lífsins ómögulegt að sjá hlutina í því ljósi sem ég á að sjá þá. þetta var iðulega deiluefni á milli mín og kennaranna í listaháskólanum (það er m.a.s. orðið að einhvers konar flökku- eða goðsögu sem fer um listaháskólann og út fyrir hann þetta stormasama samband mitt við kennarana) þegar ég var þar við nám en mér tókst þó að klára það og útskrifast með BA gráðu í myndlist (hef ekkert við þá gráðu að gera) og ágætis lokaeinkunn. gott ef ég fékk ekki 8.5 bæði fyrir lokaverkið og lokaritgerðina. eins og í gærkvöldi þegar uppstúfurinn var að kekkjast á eldavélinni og bjúgun í vatnsbaði tókst mér að endurskrifa og þýða yfir á íslensku mjög flókna og akademíska kafla úr einhverri fjárans útlenskri leikritabók. ég get þetta alveg... eða svona stundum. og nú er ég byrjuð á ljóðgreiningarverkefninu en biturðin, athyglisbresturinn, neikvæðnin, stressið og vantrúin á gáfnafarinu hafa ekki komið mér langt í dag. t.d. hef ég eytt seinasta hálftímanum í að vafra um íbúðina okkar og máta öll nærfötin mín af því að í einhverjum asnaskap lofaði ég manninum mínum upp í ermina á mér að vera í samstæðum nærfötum alla helgina (það er víst eitthvað sem menn eru hrifnir af). það er ógerningur þar sem ég á í fyrsta lagi engin samstæð nærföt og svo eru allir brjóstahaldararnir mínir nema einn orðnir of stórir (nú er sérlega gaman að hugsa til þess að þið vitið núna að ég er aldrei í samstæðum nærfötum).

annars er ég að fara að vinna eftir klukkustund eða svo og eftir vinnu ætlum við örninn minn á gaukinn að fá okkur bjór og hlusta á pétur ben.

2 ummæli:

Ljúfa sagði...

Ég fer ekki ofan af því; þú ert ekki bara snillingur heldur algjört krútt líka!

Tinna Kirsuber sagði...

Ó takkí takk!