fimmtudagur

ég man þegar ég tók samræmdu prófin fyrir ellefu árum síðan... únglíngarnir í dag eiga alla mína samúð. ég fór að skæla í dönskuprófinu útaf kvíða og stressi... 16 ára og það var bara upphafið að endinum. það er reyndar í eitt af fáum skiptum sem að ég minnist þess að þáverandi stjúppabbi minn hafi sýnt mér skilning og stuðning. gott ef hann fór ekki með mér út að borða það kvöldið til að hjálpa mér að hvíla mig á kvíðanum og stressinu. enginn er al-vondur...

ég vaknaði annars með mikinn kvíðahnút í maganum og eins og venjulega er þessi kvíðahnútur óðum að breytast í stórt fjall sem kremur í mér innyflin. mér tókst ekki að klára ritgerðina í gær... auðvitað ekki og ég er orðin verulega kvíðin fyrir prófunum. ég þarf að leggja ritgerðina á hilluna í bili og byrja að læra fyrir prófið á laugardaginn og það truflar mig mjög af því að ég þarf svo að ná að klára fjárans ritgerðina áður en ég byrja að læra fyrir næsta próf. sem betur fer er það ekki fyrr en á laugardaginn eftir viku svo ég hef smá tíma en fyrir þann tíma ÞARF ég að klára ritgerðina. nú reynir á mann... langar bara að skæla undir sæng í allan dag og ekki hugsa um þetta en ég verð. ef ég ætti að útskýra þennan ógurlega kvíða fyrir einhverjum sem ekki þjáist af þunglyndi held ég að honum væri best líst þannig að það er eins og ég sé inní litlu herbergi að reyna að lesa bók sem ég þarf að lesa til að halda lífi en með mér í herberginu er líka risastór þotuhreyfill og hávaðinn eftir því. og af því að ég er extra kvíðin í dag bætum við inní þetta "fíaskó" blóðþyrstri úlfahjörð... helvítis andskotans.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Tinna
Vissirðu að ef maður gúgglar "jóganámskeið" þá er þetta fyrsta síðan sem kemur upp? Undarlegt ekki satt?
Gangi þér vel með ritgerðina.
-Gunnhildur

Tinna Kirsuber sagði...

Jú, mér finnst það ansi merkilegt með tilliti til þess að ég er anti-sportisti og í eina skiptið sem ég hef farið í jóga fannst mér hundleiðinlegt. En gaman að þessu og takk.

Ágúst Borgþór sagði...

Værirðu til í að segja okkur eitt: Hvernig hefur þér almennt gengið á prófum í gegnum tíðina - frá og með samræmdu prófunum og til og með prófa og verkefna í vetur?

Tinna Kirsuber sagði...

Ef þú notar það ekki gegn mér... Eftir framhaldsskóla hefur mér gengið ágætlega, í framhaldsskóla var ég skelfileg. Ég þarf að vísu að leggja mjög mikið á mig og þarf að hafa fyrir því að læra, ekki eins og sumir sem virðast ná öllu í fyrstu atrennu, en það er oftast þess virði. En ég er samt bara svona meðalmanneskja þegar kemur að einkunnum, er oftast með á bilinu 6-8, stundum 5 sem er nú kannski ekki svo slæmt. Ég náði nú að punga út BA gráðu og fékk m.a.s. 8.5 bæði fyrir BA ritgerðina og lokaverkið mitt. Mér finnast auk þess einkunnir vera ofmetið fyrirbæri og ekki segja neitt til um gáfnafar fólks. -Hvers vegna ertu að spyrja að þessu?

Ágúst Borgþór sagði...

Af því þú hefur mikinn prófkvíða og ég var bara að velta því fyrir mér hvort það væri einhver ástæða til þess. Jú, einkunni eru eflaust ofmetnar og við vitum að þú ert klár stelpa.

Tinna Kirsuber sagði...

Lífið væri frábært ef þetta væri bara svona "svart & hvítt" en því miður er það ekki þannig. Ég geri bara mitt besta, meira get ég ekki.