sunnudagur


ég þakka ykkur góðu kveðjurnar elsku fólk, mér þótti vænt um þær...

og allt heldur áfram... mér finnst það svo óeðlilegt, og ég er nokk viss um að vera ekki ein um þá skoðun en alltaf þegar einhver fellur frá sem ég elska skil ég ekki afhverju heimurinn heldur áfram að "fúnkera" því ég veit að minn heimur hættir því. allir halda áfram lífinu sínu, enginn sýnir nein viðbrögð og ég þarf að neyða mig með þessum straumi áfram. með tárin í augunum og kökk í hálsinum eins og seinasta fimmtu- og föstudag, taka áfram þátt í lífinu þó að mitt liggi algjörlega í dvala þá stundina útaf sorg og söknuði, sektarkennd og yfirbugandi vonleysi. ég elskaði og elska dimmalimm svo mikið, hún var yndi augna minna og hjartagull og ég hefði dáið fyrir hana, litla saklausa skinnið. mest vildi ég geta hitt þann sem keyrði á hana á miðvikudeginum, lét hana svo liggja mölbrotna og eina í kvölum í hljómskálagarðinum þangað til að seint um kvöldið hringdi í mig maður sem hafði fundið hana þarna í kuðung undir trjánum... ég myndi drepa hann eða hana, án þess að blikka. og ég get ekki gengið hljómskálagarðinn í bráð... en sönn sjálfri mér kenni ég mér náttúrulega um þetta... bara ef hitt og þetta... og ég er rétt hætt að eiga von á henni inn um gluggann þó mér finnist ég enn heyra í bjöllunni hennar í portinu. eina ljósið sem ég sé er að á miðvikudeginum þurfti ég að fara veik heim úr vinnunni og þá var hún heima, kúrandi uppí rúmi og ég gat legið með henni um stund og strokið henni og hlustað á purrið og malið. elsku litli engillinn minn... nú kæfi ég skaða í ást.

og eins og þetta sé ekki nógu ömurlegt og þunglyndislegt þá brá ég mér í göngutúr í gær í þeim tilgangi að kaupa mér kveikjara sem ég og gerði en þegar heim er komið og mér er litið á kveikjarann sem ég hafði fram að þessu ekki gert sé ég þá ekki mér til mikillar skelfingar að framan á blessuðum kveikjaranum er mynd af risa typpi... mér fallast bara hendur.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æ, hvað þetta er sárt Tinna mín. Mikið getur fólk verið andstyggilegt og laust við alla samkennd, huxa sér að skilja litla krílið eftir þarna. Innilegar samúðarkveðjur.

Tinna Kirsuber sagði...

takk heillin.